03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er búið að spjalla mikið um þetta frv. um Tækniskóla Íslands, og mér sýnist niðurstaðan af því benda á viðfangsefni eins og segir í gömlu kvæði: „Einn var að smíða ausutetur“ o. s. frv. Ekki vil ég nú spá því, að niðurstaðan verði nú þannig, að við sitjum eftir með gatið á því tæki, sem við erum að reyna að búa til hér. Hitt er augljóst mál, að hér er verið að fjalla um mál sem er í mótun og á eftir að verða það, og það var þess vegna, sem ég tók til máls, einmitt út af till., sem hefur verið rædd hér, á þskj. 658, en þar segir í bráðabirgðaákvæði: „Menntmrh. skal beita sér fyrir því, að undirbúin verði ný löggjöf um skipulag verk- og tæknimenntunar á framhaldsskóla- og háskólastigi.“ Þetta þýðir einfaldlega það samkvæmt mínu sjónarmiði, að við treystum okkur ekki til að móta þetta nú þegar með skynsamlegri löggjöf, sem á að duga nema örstuttan tíma. Ég vildi því beina því til hæstv. menntmrh., að það verði hliðstætt ákvæði í því frv., sem væntanlega kemur fram í haust eða eins fljótt og tök eru á, að það verði þar ákvæði, að tækniskóla skuli setja á stofn utan Reykjavíkur, a. m. k. á Akureyri, því að allir virðast vera sammála um. að Akureyri og Reykjavík skuli hafa hér forgangsröð, þegar fjárveiting er veitt til þess af Alþ. og hæstv. ráðh. ákveður. Það var talin skynsamleg stefna í sambandi við menntaskólamálin. Ég held, að menn deili ekki um hana nú, þótt það hafi staðið nokkur styr um það fyrir þremur árum á hv. Alþ.

Ég er ekki alveg ánægður með að slá því föstu, að verkfræðinám við Háskóla Íslands sé lagt niður umsvifalaust, nema að undangenginni rækilegri athugun, mjög mikilli athugun. Það hefur verið tekið upp breytt viðhorf gagnvart Háskóla Íslands, að fólk með ákveðna undirbúningsmenntun eigi inngang í Háskólann, og ég veit ekki, hvort það er rétt að kljúfa aftur út úr Háskólanum stóra þætti hans, sem hafa starfað þar lengi samkvæmt gamalli hefð. Ég hallast fremur að því, sem hefur verið gert núna, að gefa fólki tækifæri á því, sem leggur sig fram um undirbúningsmenntun, að eiga kost á háskólamenntun, þótt ekki séu stúdentar. Vitanlega eiga menn, sem eru búnir að fara í gegnum Tækniskólann, hvað sem hann mun nú heita, vitanlega munu þeir eiga kost á því að fara inn í verkfræðinám við Háskólann og spreyta sig á þeim greinum, sem þeir hafa getu og hæfileika til.

Einnig má benda á það, að vel er hægt að stofna tækniskóla úti á landi á vissu þrengra sviði. Það þarf ekki að vera almennur tækniskóli. Það er hægt að hafa raftækniskóla, ýmislegt annað, skipatækniskóla o. s. frv. En þetta vildi ég aðeins undirstrika, ef till. verður samþ. á þá leið, að undirbúin verði nú þegar ný löggjöf, því að þá mun þetta frv., ef að lögum verður, aðeins hafa stuttan gildistíma. Þá tel ég eðlilegt, að raddir heyrist um það, að það þarf að vera opið að stofna deildir tækniskóla, þegar fjárveiting er veitt til þess á Alþ. og hæstv. menntmrh. ákveður. Við eigum ekki sífellt að þurfa að breyta löggjöfinni, ekki varðandi þennan þátt. Að öðru leyti vil ég taka undir orð 2. þm. Norðurl. e., að hans ábendingar séu algjörlega rökréttar, og vona, að n. taki það til athugunar til 3. umr.