10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um Tækniskóla Íslands, sem hér er lagt fyrir hv. d., komið frá Ed., er verk n., sem menntmrn. skipaði í júní 1971 til að endurskoða lög og reglugerðir um Tækniskóla Íslands. Meginástæðan til, að þessi n. var skipuð, er sú, að í fyrravor útskrifuðust fyrstu tæknifræðingarnir frá Tækniskóla Íslands, og þá kom til þess, að Tæknifræðingafélag Íslands þurfti að taka afstöðu til réttinda þessara manna. Forustumenn félagsins athuguðu nám og námstilhögun í Tækniskólanum og töldu, að þar væri nokkurra umbóta þörf, svo að námið fullnægði þeim kröfum, sem nútíma tæknimenntun gerir. Síðan voru skipaðir í n. til að endurskoða þessi lög og reglugerðir bæði fulltrúi frá menntmrn., skólastjóri Tækniskólans og fulltrúi frá Tæknifræðingafélagi Íslands.

Þessi n. varð sammála um. að tvennt væri brýnast að gera til þess að efla Tækniskóla Íslands og þá kennslu, sem hann veitir nemendum sínum.

Annað væri að skilgreina í lögum markmið skólans, og það er gert í 1. gr. þess frv„ sem hér liggur fyrir. Þar segir, að meginmarkmið skólans skuli vera að veita nemendum tæknilega og almenna menntun, sem geri þá hæfa til að takast sjálfstætt á hendur tæknileg störf og ábyrgðarstöður í þágu atvinnuvega þjóðarinnar. Skal jafnan tekið mið af þróun tæknimenntunar meðal nágrannaþjóða.

Í öðru lagi varð n. sammála um, að rétt væri að koma upp við skólann skólanefnd, sem ekki hefur verið til þessa. Ákvæði á þá leið er í 10. gr., um skipun fimm manna skólanefndar, þar sem tilnefndir séu skólanefndarmenn af Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi ísl. iðnrekenda og Tæknifræðingafélagi Íslands. En menntmrn. skipar formann og varaformann án tilnefningar.

Í meðförum málsins í Ed. urðu nokkuð skiptar skoðanir um fyrstu setningu í 1. gr. frv., þar sem segir, að skólinn skuli starfa í Reykjavík, og komu upp till. um að taka ákvörðun um. að skólasetrið skyldi flytjast til Akureyrar. Niðurstaðan af þeim skoðanaskiptum, sem þar áttu sér stað, varð sú, að upphafi 1. gr. er breytt á þá leið, að Tækniskóli Íslands starfi í Reykjavík og á Akureyri, og einnig var ákvæði um undirbúningsdeild skólans á Akureyri breytt þannig, að þar starfi ekki aðeins undirbúningsdeild, heldur einnig raungreinadeild, sem sagt þær deildir, sem veita menntun fram að hinu eiginlega tæknifræðinámi. Síðan var bætt við í meðförum Ed. ákvæði til bráðabirgða um, að við athugun, sem fram fer um. hvort ráðlegt sé að sameina Tækniskólann og verkfræðinám í Háskóla Íslands í einum tækniháskóla, skuli athugað sérstaklega og ítarlega, hvort tiltækilegt sé, að tækniskóli verði starfræktur á Akureyri.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. menntmn., og leyfa mér að láta í ljós þá von, að það geti að lögum orðið á þessu þingi.