10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er nú ekki við því búinn að ræða til neinnar hlítar það frv., sem fyrir liggur frá hv. Ed. um Tækniskóla Íslands. Ég veiti því þó athygli, að á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar, en hef ekki áttað mig á því enn til fulls, hvað í þeim felst, en þó sýnist mér, að ýmis ákvæði séu þarna nokkuð óákveðin, það þurfi a. m. k. að koma nokkrar skýringar til.

Það var mjög fróðlegt fyrir mig að hlýða á ræðu hv. þm., þess sem síðast talaði, hv. 7. þm. Reykv., vegna þess að ég minnist viðræðna, bæði á fundi og utan fundar, sem ég og fleiri áttu við hann um þessi mál árið 1963, fyrir 8 eða 9 árum. Það varð þá að samkomulagi í bili, að inn í þau lög, sem þá voru samþykkt, yrðu sett ákvæði um það, að stefna skyldi að því að koma upp fullkomnum tækniskóla á Akureyri, og þetta stendur í lögum frá þeim tíma. Ráðh., sem átti að framkvæma þessi ákvæði laga, var hv. 7. þm. Reykv., hann hafði til þess 7 ár. Hins vegar hef ég ekki orðið var við, að neinn árangur hafi orðið þar af. Og nú er hv. þm. kominn á þá skoðun, að það sé ekki grundvöllur fyrir tækniskóla á Akureyri, að þar skorti skilyrði. Má ég benda hv. þm. á það, að Akureyri er álíka fjölmenn nú og Reykjavík var, þegar Háskóli Íslands var settur þar á stofn árið 1911? Má ég benda á það, að Akureyri er orðinn mikill og vaxandi iðnaðarbær? Má ég benda á það, að í skýrslu, sem lesin var upp áður hér á þingi, var gerð grein fyrir því, að tæknimenntuðum mönnum færi sífjölgandi á Akureyri? Má ég benda á það, að fyrir 40 árum var verið að ræða um það að koma upp menntaskóla á Akureyri? Þá voru færð nákvæmlega sömu rökin gegn því og hv. þm. var nú að færa gegn tækniskóla á Akureyri, að það mundi verða skortur á kennurum. En reynslan sýndi allt annað. Reynslan sýndi, að Menntaskólinn á Akureyri hefur um starfslið, að ég ætla, verið fullkomlega sambærilegur við hliðstæðar menntastofnanir hér syðra.

Um það skal ég ekki hafa fleiri orð, en ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á því, að ég hef fyrir æðilöngu flutt hér í hv. d. till. til þál. um Tækniskóla Íslands á Akureyri, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Nd. Alþ. ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að Tækniskóli Íslands verði fluttur frá Reykjavík til Akureyrar, þó þannig, að heimilt verði, ef nauðsynlegt þykir, að starfrækja í Reykjavík undirbúningsdeild og einstakar bekkjardeildir í tengslum við Tækniskóla Íslands á Akureyri.“ Það er orðið nokkuð langt síðan þessi till. var flutt, ég ætla, að það séu tveir mánuðir eða svo, það er einnig orðið nokkuð langt síðan henni var vísað til hv. menntmn. þessarar d., en ég hef ekki orðið var við, að enn þá hafi komið fram nál. um málið. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann hlutist til um það, að hv. n. taki afstöðu til þessarar till. og þá væntanlega áður en hún tekur fyrir það mál, sem hér er til umr. Hér er um mál að ræða, sem er fyrr í röðinni og er þess eðlis, að þar er um „prinsip“mál að ræða.