16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég átti sæti í menntmn. og skrifaði undir það nál. með fyrirvara, sem hér hefur verið lýst. Eftir að hafa athugað málið nánar og kynnt mér betur lög um Tækniskóla Íslands og eftir að mér hefur verið kunnugt um það, að nýlega hefur verið skipuð nefnd til þess að athuga um staðarval fyrir nýjar stofnanir, þá hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að ég vil flytja hér svo hljóðandi till. sem frávísunartillögu:

„Þar sem nýlega hefur verið skipuð nefnd til þess að gera tillögur um staðarval nýrra stofnana, en mál það, sem hér um ræðir, er umdeilt að því er varðar aðsetur skólans, tel ég eðlilegt, að sú nefnd fjalli um málið, og legg því til, að frv. verði vísað til ríkisstj. til frekari athugunar.“