17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

250. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft frv. til l. um breyt. á lögum um Háskóla Íslands til athugunar og rætt það við rektor Háskóla Íslands og forseta verkfræði- og raunvísindadeildar Háskólans. Auk þess kallaði hún til fundar við sig fulltrúa úr stjórn kennarafélags Háskólans til þess að glöggva sig á málinu. N. gerir till. um breytingu á tveim gr. Þær varða 2. og 8. gr. frv. og snerta tengsl Háskólans við opinberar stofnanir. Frv. í þeirri mynd, er það var, er það var lagt fyrir þessa hv. d., gerði ráð fyrir að tengja mætti kennarastöðu í tiltekinni kennslugrein í verkfræði tiltekinni stöðu eða starfsaðstöðu við opinbera stofnun utan Háskólans. Rektor Háskólans benti n. á, að þessi takmörkun við verkfræðiskor raunvísindadeildar kæmi í veg fyrir, að unnt yrði að bæta úr kennaraskorti í læknadeild og tannlæknadeild með þessum sama hætti. Þessa ábendingu tók n. til greina og þykir rétt, að heimildin sé ekki bundin við eina deild Háskólans fremur en aðra. N. leggur til, að frv. verði samþ. ásamt þeim breytingum, sem hún leggur til á þskj. 824.