17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

250. mál, Háskóli Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. menntmn. Nd., og eins og sjá má á nál. hef ég skrifað undir álit n. og framkomnar brtt. með fyrirvara. Mér þykir því rétt að gera örlitla grein fyrir þeim fyrirvara og mínum sjónarmiðum í þessu máli. Eins og fram kom í ræðu frsm., hv. 4. landsk. þm., snýst þetta mál, að því leyti sem ágreiningur er um það, um þá breytingu, sem gerð er í frv., að kennurum, þ. e. prófessorum og dósentum við Háskólann, verði, ef frv. verður að lögum, unnt að hafa á hendi tilteknar aðrar stöður við stofnanir utan Háskólans, sem eru tengdar rannsóknastörfum, eða eins og segir í 2. gr. frv.:

„Nú hefur Háskólinn ekki tök á að koma upp rannsóknaaðstöðu í verkfræði“ — ég bið afsökunar, en eins og málið liggur fyrir núna er ekki gert ráð fyrir, að það sé verkfræði, heldur eingöngu það að koma upp rannsóknaaðstöðu — „í tiltekinni kennslugrein, og má þá skv. till. háskólaráðs og verkfræði- og raunvísindadeildar tengja slíka kennarastöðu tiltekinni stöðu eða starfsaðstöðu við opinbera stofnun utan Háskólans, enda sé slík tilhögun heimiluð í reglum stofnunarinnar“ o. s. frv.

Það er rétt að taka fram, að það er enginn ágreiningur um það, að eðlilegt sé að tengja Háskólann við slíkar rannsóknastofnanir og það beri að stefna að því almennt, að Háskólinn sé í tengslum við atvinnulífið. Um þetta er enginn ágreiningur. Hins vegar hefur Félag háskólakennara sent umsögn til beggja d., þar sem þetta félag mótmælir mjög eindregið þessari breytingu og tinir til ýmis rök í því sambandi. Mér skilst, að formaður félagsins, Félags háskólakennara, Jónatan Þórmundsson prófessor, hafi komið á fundi hjá menntmn. Ed. og skýrt sjónarmið sinna umbjóðenda og út úr þeim viðræðum, sem hann átti við n., hafi menntmn. Ed. lagt til að breyta upphaflegu frv. í þá átt að binda heimildina eða rýmkunina, sem ég gat um áðan, eingöngu við verkfræði- og raunvísindadeild. Jónatan hefur tjáð menntmn. Nd., að hann hafi fyrir sitt leyti fallizt á þetta sem málamiðlun, en þó hvergi nærri ánægður með þá tilhögun. Eins og frsm. hefur sagt frá, komu háskólarektor og deildarforseti verkfræði- og raunvísindadeildar, prófessor Magnús Magnússon, til fundar við menntmn. í Nd. og tjáðu henni, að eins og frv. lægi fyrir eftir afgreiðslu í Ed. væri útilokað að fallast á það, bæði út frá sjónarmiði Háskólans sjálfs og sjónarmiði verkfræði- og raunvísindadeildarinnar, sem taldi þessa breytingu vera óviðunandi fyrir sig, og þeir óskuðu ekki eftir slíkri sérstöðu.

Þá hefur n. núna, eins og áður getur, rætt þetta mál og enn fallizt á að breyta frv. í það form, sem það var upphaflega. Ég vildi við þessa umr. láta koma fram þau rök, sem liggja að baki afstöðu Félags háskólakennara, því að mér finnst þau rök vera nokkuð þung og þess eðlis, að ástæða sé til að fullt tillit sé tekið til þeirra. Þetta félag og háskólakennarar, en það verður að líta svo á, að það gæti hagsmuna fyrir þá, félagið telur, að breytingin og frv. eins og það liggur fyrir í dag sé óaðgengilegt og brjóti mjög gegn þeim sjónarmiðum, sem uppi eru meðal háskólakennara, og skapi fleiri vandamál en það leysi.

Háskólakennarar telja, að breytingin stuðli að þeirri þróun, að tvær stéttir verði raunverulega starfandi í Háskólanum. Annars vegar raunverulegir starfsmenn og hins vegar aðeins kennarar, sem taki að sér einstaka stjórnsýslu, en séu raunverulega með aðeins annan fótinn í Háskólanum og séu ekki raunverulegir starfsmenn, og þá eiga þeir við þá aðila, sem samkv. þessari brtt. ættu að geta verið prófessorar og dósentar og jafnframt stundað störf á rannsóknastofnunum úti í bæ, eins og sagt er.

Þá telja háskólakennarar, að þetta frv. leysi ekki og minnist reyndar alls ekki á það, þ. e. stærsta vandamálið, kjaramálin, sem þeir telja, og maður getur vissulega tekið undir það, að sé viðkvæmasta málið, þegar um er að ræða kennslustörf í Háskólanum. Þá benda þeir á, að það geti jafnvel leitt til þess, að ef þetta frv. fæst samþ., í hvorri myndinni sem er, þá muni það jafnvel stuðla að misrétti í launum og kjörum meðal háskólakennara og slíkt sé að sjálfsögðu óviðunandi. Enn benda háskólakennarar á, að ef frv. fáist samþ., tryggi það ekki rannsóknaaðstöðu fyrir stúdenta, sem allir hljóta þó að telja, að sé mjög mikilvægur þáttur í kennslustörfum við Háskólann. Þeir hafa bent á, að viðfangsefni það, sem hér er verið að taka til meðferðar, sé aðeins hluti af mun stærra máli, máli, sem snerti raunar heildaruppbyggingu eða heildarrammann um Háskólann og hið akademíska vísindastarf, sem þar er unnið, annars vegar og hið almenna rannsóknastarf, sem utan skólans er, hins vegar. Það verði að líta á þessi mál af sjónarhóli beggja aðila og helzt þjóðfélagsins í heild, en ekki eingöngu með hagsmuni, jafnvel afmarkaða hagsmuni ákveðinna háskóladeilda í huga.

Ef maður fellst á þá meginskoðun og þá meginstefnu, sem í þessu frv. og þessari breytingu kemur fram, að tengja beri Háskólann við atvinnulífið, þá er spurningin þessi: Getur maður verið á móti þessu frv.? Er stætt á því að stöðva framgang þess? Þessum spurningum var beint til fulltrúa háskólakennara og þeir vekja þá athygli á því, að þarna er verið að leysa vandamál ákveðinna deilda í Háskólanum, sérstaklega verkfræði- og raunvísindadeildar, enn fremur læknadeildar og tannlæknadeildar, og þeir benda á, að læknadeildin hafi leyst þessi vandamál nú þegar og þrátt fyrir núgildandi lög og það sé ekkert því til fyrirstöðu, að verkfræði- og raunvísindadeild geti leyst sín mál með sama hætti, með samningum við stofnanir eða þá aðila, sem hún vill fá til starfa, þannig að það þurfi ekki að stöðva framþróun í viðkomandi deild. Þeir vekja athygli á því, að það sé betri kostur að leysa málin með þeim hætti en að hlaupa til og breyta lögunum að vanhugsuðu máli og gegn mótmælum aðila, sem þessi mál vissulega varða.

Þessum sjónarmiðum háskólakennara vildi ég koma hér á framfæri, því að ég er mjög inni á þeirra sjónarmiðum að mörgu leyti. Ég treysti mér ekki til þess hins vegar að stuðla að því, að þetta mál verði fellt, með því að greiða atkv. beinlínis gegn því, og ég er hlynntur þeirri meginhugsun, eins og ég hef sagt áður, að það skuli tengja Háskólann við atvinnulífið og það eigi ekki að tvöfalda rannsóknastörfin, einfaldlega vegna þess að þetta litla þjóðfélag hefur ekki efni á því að margskipta sínum fáu starfskröftum svo. En ég segi það hreinskilnislega, að ég hefði talið hyggilegast, að þetta mál fengi nánari athugun og meðhöndlun, og að mínu viti þarfnast það ekki afgreiðslu nú á þessu þingi. Og þá vitna ég til þeirra raka, sem ég hef hér talið upp og eru sett fram af háskólakennurum.

Ég vil líka vekja athygli á því, að málsmeðferðin öll hér á þingi er með þeim hætti, að maður verður að draga þá ályktun, að hv. alþm. hafi ekki sett sig inn í, hversu umfangsmikið mál þetta er, og þeir hafi ekki sett sig inn í brtt., sem fjalla um meginkjarna þessa máls. Og því segi ég, að ég hef þá skoðun, að menn hafi hlaupið til og gert brtt. án mikillar umhugsunar eða yfirvegunar.Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að nýlega var borin fram hér á þinginu þáltill. frá tveim hv. þm. Alþb., þar sem þeir vilja stuðla að því og láta athuga, hvort ekki sé rétt, að alþingismenn stundi aðeins eitt starf. Viljum við þá á sama tíma, ef við höfum þessa skoðun, samþykkja mál, sem opnar þá möguleika fyrir aðrar stéttir, að menn hafi tvær stöður og þiggi jafnvel tvöföld laun sem slíkir?

Við höfum talað um það, að auka þyrfti lýðræði á vinnustöðum og í skólum og jafnvel hefur námsmönnum verið veitt sérstök fyrirgreiðsla í meðferð mála hér á þessu þingi, og vitna ég þá til brtt. og frv. um Íþróttakennaraskóla Íslands og Tækniskóla Íslands, en þar var hvort tveggja tekið inn í, ákvæði um aukinn rétt og þátt námsmanna til ákvörðunar og áhrifa í skólastjórn. En nú er ekki annað að sjá en að í ráði sé að keyra í gegnum þetta þing mál, sem er í fullri andstöðu við þá menn, sem málið er skyldast, háskólakennara sjálfa, og það er mjög alvarlegur hlutur, þegar Félag háskólakennara lýsir mjög ákveðið yfir andstöðu við slík mál og heldur því jafnvel fram eða lýsir því yfir, að það muni ekki viðurkenna þetta fólk, sem þannig verði ráðið, hvorki akademískt né félagslega.

Því segi ég það að lokum, herra forseti, að ef málið fær betri undirbúning og ef það er borið undir þá aðila, sem hafa hagsmuna að gæta, og ef það er skoðað frá öllum hliðum og menn átta sig á, að hér er miklu stærra mál á ferðinni, mál, sem snertir grundvallaratriði í akademísku vísindastarfi og rannsóknastörfum almennt, ef sem sagt málið fær slíka athugun, þá er ég viss nm. að lausn fæst, sem allir geta sætt sig við. Ef ekki, þá má leggja málið fyrir að hausti, og þá verður a. m. k. ekki sagt, að aðilar hafi ekki fengið að tjá sig um málið með lýðræðislegum hætti.