17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

250. mál, Háskóli Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því, að ég skuli vera að slá mér á brjóst. Það var leiðinlegt að heyra það, að hv. 3. landsk. þm. skuli hafa áhyggjur af því og vera að gera lítið úr því, þegar röksemdir háskólakennara, hans kollega, eru tíundaðar hér á þingi. Mitt erindi hingað upp í ræðustólinn var alls ekki annað en það eitt að segja frá því, hvaða sjónarmið væru ríkjandi í röðum háskólakennara, og ég er hissa á því, að þessi hv. þm. lætur sér sæma að koma hér inn og ásaka mig fyrir það, að ég skuli taka upp þeirra sjónarmið og skýra frá þeim hér í þingsal. Ég átti satt að segja frekar von á því, að frsm. n. mundi gera það til að skýra frá gangi mála og störfum n. En það er alveg óþarfi fyrir þennan þm. að vera hörundssár þess vegna né heldur þarf hann að hafa áhyggjur af því, að ég sé hér að slá mig til riddara. Ég hef þessa skoðun í málinu, að það sé hægt að salta þetta mál, bíða með afgreiðslu þess og það skaði Háskólann ekki svo alvarlega. Ég hef ekki hugsað mér að taka hér upp efnisumræður um málið, en það stendur ekki á mér, ef hv. stjórnarsinnar vilja teygja lopann og fara út í slíkar umr., og í því sambandi, án þess að ég ætli að vera mjög langorður, vil ég víkja að kjarna málsins, sem ég held að sé sá, að háskólarektor, háskólayfirvöld halda því fram, að þau geti ekki mannað ákveðnar deildir skólans í haust, ef þessi breyting nái ekki fram að ganga. Þetta eru að sjálfsögðu mjög þung og veigamikil rök. Og ég er ekki viss um það, að ég fyrir mitt leyti einu sinni treysti mér til þess að greiða atkv. gegn þessu frv., þegar slík rök koma fram, en ég vil þó vekja athygli á því, að gegn þessari fullyrðingu háskólayfirvalda, án þess að ég sé að einhverju leyti að rengja þau, hefur verið fullyrt af Félagi háskólakennara, að það sé hægt að leysa þetta vandamál, sem blasir við Háskólanum, einmitt með þeim hætti, sem læknadeildin hefur gert hingað til þrátt fyrir núgildandi lög, og það standi ekkert í vegi fyrir því, að hinar deildirnar, sem þarna er um að ræða, geri hið sama. Þess vegna get ég ekki fallizt á það, að það sé engra kosta völ annarra en að samþykkja þetta frv.

Hv. 3. landsk. þm. vék enn fremur að því vandamáli, sem ekki er minnzt á í þessu frv. og ég vék að hér áðan, það er um kjaramálin. Það vita allir, ekki sízt þeir, sem starfa við Háskólann, hvað það er viðkvæmt mál, það er eilífur slagur um þau. Og hann sagði réttilega, að það væri fullur möguleiki á því, ef samþykkt væri þetta frv., að menn söfnuðust saman í Háskólanum, sem hefðu ein og hálf laun, jafnvel tvöföld laun. Slíkt er að sjálfsögðu ekki æskilegt og ég styð ekki slíkt. Þess vegna hafði ég haldið, að það væri m. a. eitt af þeim málum, sem þyrfti að taka til athugunar, þegar þetta mál fengi betri athugun.

Þá er ekki hægt að halda því fram heldur, að n. hafi fullan skilning á röksemdum háskólakennara, en mæli síðan með samþykkt á frv., sem er í fullri andstöðu við þeirra rök og sjónarmið. Til hvers er sá fulli skilningur, ef það er ekki tekið tillit til þess?

Ég hef sem sagt reynt að leiða rök að því, að þetta er mál, sem þarf að athuga og þarf í aðalatriðum að komast í gegn, en það er skynsamlegt fyrir hv. Alþ. að rasa ekki um ráð fram, að vera ekki að samþykkja hér lög, sem eru í fullri andstöðu við það fólk, sem hefur hér mestra hagsmuna að gæta, lög, sem kannske er ekki knýjandi nauðsyn að samþykkja nú þegar, geta beðið til haustsins og þá sé betra að kanna málið til hlítar, bera það undir alla aðila og viðhafa þau lýðræðislegu vinnubrögð, sem m. a. hv. 3. landsk. þm. hefur mjög mælt með hér á þingi í vetur.