18.05.1972
Efri deild: 89. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

250. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það gildir það sama um frv., sem hér um ræðir, og það, sem var hér á ferðinni áðan, að þetta frv. hefur verið til meðhöndlunar áður í Ed. og hún gert á því allmiklar breytingar. Sú breyting, sem mest var um deilt og mikilvægust var af þeim sem gerðar voru í Ed., var sú breyting, sem snerti heimild Háskólans til þess að skipa menn í kennarastöður, sem jafnframt gegndu ákveðnum stöðum eða hefðu starfsaðstöðu utan Háskólans, sem er raunverulega algjört nýmæli í starfi Háskólans. Menntmn. Ed. fékk umsagnir margar um þetta atriði og það kom berlega á daginn, að um þetta mál var mikill ágreiningur og margir töldu, að þarna væri stigið of stórt spor í þá átt að heimila þessa nýskipan. Það fór því svo, að í meðförum menntmn. Ed. og svo aftur í meðförum Ed., sem samþykkti till. menntmn., voru þessar heimildir allverulega þrengdar. Það, sem nú hefur gerzt, er það, að menntmn. Nd. og Nd. hafa ekki viljað að öllu leyti fallast á þær breytingar, sem við gerðum á frv., og hafa hvað eina breytinguna snertir sent það til baka aftur í fyrra formi. Eftir sem áður má nú segja, að allar aðrar breytingar, sem menntmn. gerði till. um og voru samþykktar hér í d., hafi náð fram að ganga. Þetta ákvæði var raunverulega í till. menntmn. Ed. skilyrt með þrennum hætti. Í fyrsta lagi gæti þessi heimild ekki verið fyrir hendi, nema það lægi ljóst fyrir, að ekki væri fullnægjandi starfsaðstaða og rannsóknaaðstaða fyrir hendi í Háskólanum. Í öðru lagi skilyrtum við þetta á þann veg, að þarna yrði einungis um að ræða opinberar stofnanir utan Háskólans, sem menn gætu gegnt stöðum við, og í þriðja lagi bundum við þetta einungis við verkfræði- og raunvísindadeild. Það er þetta þriðja og seinasta skilyrði, sem Nd. hefur nú aftur fellt niður samkv. mjög eindregnum tilmælum verkfræði- og raunvísindadeildar Háskólans. Að vísu taldi hún, að það væri mikil þörf á því, að verkfræði- og raunvísindadeild fengi þessa heimild, en vildi ekki fallast á það, að sérákvæði væri gert um þá deild sérstaklega. Deildin taldi, að það væri raunverulega niðurlægjandi fyrir verkfræði- og raunvísindadeild, að slíkt sérákvæði gildi um þá deild eina, en ekki aðrar deildir Háskólans.

Með hliðsjón af því, að komið er að lokadögum þingsins, og með hliðsjón af því, að mjög mörg ákvæði þessa frv. eru þess eðlis, að mikla nauðsyn ber til að þau nái fram að ganga, hefur mér sýnzt, að ekki væri ástæða til þess að fara út í frekari reipdrátt við Nd. um þetta atriði málsins, enda er það ekki nema fátt eitt af þeim breytingum. sem við gerðum, sem breytt hefur verið aftur, og þess vegna legg ég til, að frv. verði samþ. eins og það liggur núna fyrir.