27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

268. mál, orlof húsmæðra

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég hef kvatt mér hljóðs, er fyrst og fremst sú, að ég vil færa hæstv. félmrh. þakkir fyrir að hafa látið undirbúa þetta mál og flytja það í þinginu. Mér finnst ég hafa sérstaka ástæðu til að gera það, vegna þess að á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. 2. þm. Sunnl. frv. um breyt. á lögum um orlof húsmæðra á þá leið að hækka ríkisframlagið árlega, sem svarar til minnst 100 kr. fyrir hverja húsmóður í landinu. En mér virðist, að það sé meginefni í því frv., sem hér liggur fyrir, að tryggja á þann hátt aukið fjármagn til þeirrar starfsemi, sem þetta frv. fjallar um. Ég tek undir þau ummæli hæstv. ráðh., að það væri æskilegt, að þetta mál gæti fengið sem skjótasta afgreiðslu á þinginu, og ég trúi ekki öðru, þó að ekki fengist stuðningur við það á síðasta þingi, en það fáist fullur stuðningur við það nú.