27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

268. mál, orlof húsmæðra

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég hef því miður ekki haft tækifæri til að kynna mér einstök atriði frv., en vil fagna því, að það er fram komið. Þar er stefnt í rétta átt. Sérstaklega jákvæð finnst mér 7. gr., sem hæstv. félmrh. gerði grein fyrir hér í ræðu sinni, að væri til komin til þess að mæður gætu virkilega notið þeirrar hvíldar, sem þeim er ætlað að njóta í þessum orlofum. Hins vegar langar mig til þess að koma með eina aths., sem ég vil beina til þeirrar hv. n., sem fær þetta frv. til athugunar, og það er skilgreiningin í 6. gr. frv. á þeim, sem rétt eiga til þessa orlofs samkv. þessu frv. Þar segir: „Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof.“ Ég vil benda á, að samkv. þessari skilgreiningu ætti nánast hver einasta gift kona eða móðir í landinu rétt á orlofi samkv. þessu frv., því að engin okkar tekur, að ég hygg, launagreiðslu fyrir að veita heimili forstöðu, enda þótt við séum í fullu starfi annars staðar. Ég held, að það væri rökréttara að miða þessa skilgreiningu við þær konur, sem ekki eiga rétt á orlofspeningum eða orlofi samkv. hinum almennu orlofslögum, og sú skilgreining yrði látin ráða, en ekki sú, sem hér er tiltekin.