27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

268. mál, orlof húsmæðra

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu tekur hv. n. þessa ábendingu til athugunar, en ég sé ástæðu til þess að vekja athygli á því, að einmitt innan þessarar skilgreiningar, sem í 6. gr. er, er veruleg rýmkun frá lögunum núna. Þar segir eingöngu, að sérhver kona, sem veiti heimili forstöðu án launagreiðslu, eigi rétt á að sækja um orlof, en þarna er tekið með: „eða hefur veitt heimili forstöðu“. Aldnar konur, sem búnar eru að koma upp barnahópnum sínum, hafa í raun og veru samkv. lögunum eins og þau eru verið útilokaðar frá rétti til þess að njóta orlofs, en þær öðlast þann rétt með þessu frv. Og ég álít það rétt, þó að þær séu ekki með börn í ómegð, að þær njóti þessa réttar. En ef menn vildu takmarka greinina, þá ætti kannske þarna að vera meiri vafi á því, hvort konur, sem eru á fullum embættislaunum fyrir önnur störf en húsmóðurstörfin, nytu endilega orlofsréttar samkv. lögum.