24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að svara ræðu hv. 3. þm. Reykn. Björn Jónsson, hv. forseti d., svaraði honum, og þarf þar engu við að bæta. Hann sagði þó, að þetta væri ólýðræðisleg aðferð, að ákveða vinnutíma með löggjöf, og nefndi einræðisríki í því sambandi. Þetta er á algerum misskilningi byggt hjá hv. þm. Vinnutími í öllum nágrannalöndum okkar er ákveðinn í löggjöf, í vinnuverndarlöggjöf þessara landa. Þannig verður þá að kalla Danmörk einræðisríki, þar er þessum málum skipað á þennan veg, það verður að kalla Svíþjóð einræðisríki, það verður að kalla Noreg einræðisríki, og þannig mætti lengi telja. Við erum á sömu brautum, að því er þetta snertir, og þessar þjóðir, sem ég nefndi, og margar aðrar lýðræðisþjóðir. Hann má vera alveg viss um það, að við erum ekki að fara inn á brautir einræðisins, sem ég hygg, að honum séu ógeðfelldar eins og flokksmönnum hans öllum, og við höldum okkur við troðnar slóðir lýðræðisríkja. Ég vil vona, að hann taki þetta trúanlegt og verði rórra eftir en áður.

Þá vék hann að núverandi vinnudeilum og sagði, að á þeim málum hefði nú verið haldið með fádæma klaufalegum hætti. Já, þeir tala nú mest um Ólaf konung, sem aldrei hafa heyrt hann eða séð. Ég veit ekki hve mikla reynslu þessi maður hefur í samningum um launamál, launadeilum yfirleitt, en sannarlega taka frá báðum aðilum vinnumarkaðarins þátt í þessum launasamningum menn með allmikla reynslu í þeim efnum, bæði frá hendi vinnuveitendasamtakanna og hendi verkalýðssamtakanna. Það má því furðulegt heita, ef óreyndir menn í þessum efnum geta sagt þeim til og talað um klaufaskap hinna. En ef menn sitja inni með einhverja vizku, sem geti betur leyst þessar deilur, þá bið ég í guðanna bænum þá menn, sem með þá vizku eru, að liggja ekki á henni, heldur koma henni á framfæri við klaufana. Nóg um það.

Ég þakka hv. 1. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinssyni, fyrir hans jákvæðu undirtektir við þetta mál, og átti ég þess sannarlega von, svo reyndur maður sem hann er við störf í verkalýðshreyfingunni. En hann talaði um það sem annmarka á þessu frv., að sjómannastéttin félli ekki undir löggjöfina og hún veitti þannig ekki sjómannastéttinni, fiskimönnunum, þær réttarbætur, sem hér er verið að veita vinnandi fólki framleiðslustéttanna. Víst er það rétt, að í 1. gr. frv. er tekið fram, að þessi lög taki til allra launþega í landinu annarra en þeirra, sem taldir eru í 1. gr., og þar eru nefndir fyrstir sjómenn á fiskiskipum. En af hverju eru þeir undanteknir þarna? Er verið að níðast á þeim af einhverjum vondum mönnum, sem að frv. standa? Ég hygg, að hv. þm. beri sér það ekki í munn og sé ekki að vekja athygli á þessu í því skyni, að þarna sé verið að níðast á sjómannastéttinni að ósekju. Hitt gæti líka verið, að þetta væri klaufaskapur, að haga því svona, að sjómenn séu undanteknir og nokkrir fámennir hópar auk þeirra, sem við, sem að frv. stöndum, og einnig þeir, bæði úr röðum vinnuveitendasamtakanna og Alþýðusambandsins, sem að samningu þess unnu, töldum, að ekki væri hægt að koma undir réttarbætur þessa frv. Enginn veit það betur en hv. 1. landsk. þm., að það er ekki hægt að ákveða reglubundinn, lögákveðinn vinnutíma fiskimanna, og þannig hef ég ekki komið

auga á það, að hægt sé með löggjöf eins og þessari að tryggja þeirra rétt að þessu leyti. Mér er hins vegar kunnugt, að ein fyrsta löggjöf til vinnuverndar og sá vísir, sem einna helzt er til hér á landi að vinnuverndarlöggjöf á einu svíði, þ.e. vökulögin, er varðandi sjómenn. Það er þá helzt sú leið fær að lög ákveða hvíldartíma þeirra og setja löggjöf, að því er snertir fiskimenn á vélbátaflotanum, eitthvað, í líkingu við vökulög sjómanna á botnvörpungum. Ég held, að það sé jafnvel komið svo um vinnutíma þessara manna, að það þurfi að setja þar vökulög. En sú löggjöf væri allt annars eðlis en þessi, en tæki þó á vandamálinu, að vísu frá allt annarri hlið. Ef það er svo, að hv. 1. landsk. þm. hafi einhverja till. fram að færa varðandi sjómenn á fiskiskipum, sem tryggi það, að þeir geti fengið réttindi varðandi vinnutíma sinn samkv. þessari löggjöf, þá vænti ég þess, að hann leggi slíka till. fram í þeirri n., sem málið fer til og hann kvaðst einmitt eiga sæti í.

Með þessu, sem ég nú hef sagt, hef ég leitazt við að svara fyrri spurningu hans, sem hann beindi til mín, en hún var á þann veg, með hvaða hætti væri hægt að koma til móts við þær stéttir, sem ekki njóta réttarbóta laganna, en þannig skrifaði ég spurninguna hjá mér, og eitthvað var hún á þessa leið, og hef þá aðeins gefið vísbendingu um það, að kannske væri hugsanlegt að tryggja fiskimenn á vélbátaflotanum með eins konar vökulögum.

Í öðru lagi spurði hann að því, úr því að ákveðið er að leysa tvö atriði deilunnar með lagasetningu, — þar mun hann eiga við vinnutímann og orlofið, — hvort þá væri ætlunin að leysa deiluna í heild með þeim hætti. Ég skal svara því strax, að ríkisstj. hefur engin áform uppi um það að leysa deiluna í heild með lagasetningu. Vinnudeila getur breytzt frá degi til dags, eins og hv. þm. er kunnugt, og það geta skapazt ný viðhorf á morgun í deilu, sem geisar í dag, og horfir þá allt öðruvísi við. Ég held samt, að það komi varla upp sá flötur á þessum deilumálum, að þau verði ekki leyst af hinum réttu aðilum, sem þau eiga að leysa, sem eru samtök vinnuveitendanna og samtök verkalýðsins. Það er hin rétta, eðlilega leið til lausnar deilunni, og ég tel enga ástæðu til þess að fara að bollaleggja um önnur úrræði til að leysa þessa deilu á þessari stundu, því að ég hef litið þannig á, að deilan hafi fram að þessu verið í algerlega eðlilegum farvegum. Það hafa verið settar nefndir og undirnefndir til skoðunar á fjöldamörgum einstökum og viðkvæmum og vandasömum málsatriðum og unnið að því að skoða þessi atriði frá öllum hliðum, og málin hafa þokazt, eftir því sem mér sýnist, áfram frá degi til dags og engin stöðvun orðið á þeim fram að þessu. Ég hef ekki heyrt það frá neinum aðilum, ekki heldur frá sáttasemjara ríkisins eða sáttasemjurum, að neitt hafi farið í strand enn sem komið er. Og meðan svo er, eiga menn alls ekki að vera með neinar bollaleggingar um það, að deiluna eigi að leysa með öðrum hætti en eðlilegum hætti. Þessi tvö atriði gekk hv. þm. út frá að leyst yrðu með löggjöf, þ.e. ákvæðin um vinnutímann, sem er vinnuverndarlöggjafaratriði, sem leyst hefur verið með löggjafarákvæðum í öllum okkar nágrannalöndum, og orlofslöggjöf þarf ekki að hræða einn eða neinn, því að orlofslöggjöf hefur verið í gildi á Íslandi um langan tíma. Ég veit ekki annað en hæstv. fyrrv. ríkisstj. léti þær einræðisaðferðir vera í góðu gildi, að orlof á Íslandi væri ákveðið með löggjöf. Hún hreyfði að vísu treglega við þeirri löggjöf, því að það kostaði réttindaauka fyrir fólkið, og það var látið vera, en hún hefði vafalaust ekki talið sig vera að brjóta neitt af sér gagnvart einum eða neinum, þótt hún hefði breytt orlofslöggjöfinni. Hér er um það eitt að ræða varðandi það atriði, að það er verið að breyta gildandi löggjöf um orlof á Íslandi, og það kemur þess vegna nokkuð spánskt fyrir, að það sé fært undir óvenjuleg vinnubrögð um löggjafaratriði á Íslandi.

Seinni spurningu hv. þm. svara ég eindregið neitandi og tel ekkert það hægt að draga inn í umr. um þetta mál, sem bendi til þess, að ríkisstj. sé búin að ákveða að leysa núverandi vinnudeilu með löggjöf.

Þá vék hv. 1. landsk. að því, að það þyrfti að gera eitthvað meira en að setja löggjöf eins og þessa til þess að tryggja nýtingu frítímans, sem tengist við styttan vinnutíma. Það er alveg rétt, og í fjárlagafrv. fyrir árið 1972 eru nú 4.5 millj. kr. ætlaðar til orlofsheimila verkafólks, en verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum gert allmyndarlegt átak í þá átt að byggja upp orlofsheimili víðs vegar um landið, hér sunnanlands, norðanlands og austan, og er að vinna að þessum málum eftir því, sem hún hefur fjárhagslegt bolmagn til, með nokkurri en takmarkaðri aðstoð frá ríkinu. Ég held, að það hafi verið hálf önnur milljón, sem var ætlað til þessa máls á síðustu fjárlögum, en sú upphæð verður nú þrefölduð eða nálægt því, og er það þó allt of litið, ég játa það, því að hún þarf að færast mikið í fang. Vissulega er það rétt, að það þarf að gera verkafólki kleift að nýta frítíma sinn, fyrst og fremst innanlands, en einnig með því að geta farið út: fyrir landsteinana og séð sig um í heiminum, rétt eins og aðrar stéttir leyfa sér að gera.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. var dálítið upp með sér af því að vera bendlaður við það að stytta vinnutíma opinberra starfsmanna, og lái ég honum það ekki. Ég hefði líka verið ánægður með það hlutverk í hans sporum, en hann vildi samt sem áður reyna að gera þetta að engu, og skil ég það ekki fyllilega. Hann sagði, að það hefði komið ámóta lenging á vinnutíma ýmissa opinberra starfsmanna eins og sú stytting, sem hefði orðið á vinnutíma þeirra, með því að samningsbinda það, að vinnutíminn yrði 40 stundir á viku. Ég held, að þó að hv. þm. fullyrði þetta, þá sé það alrangt. Ég held, að vinnutímastyttingin hjá opinberum starfsmönnum hafi verið hin almenna breyting, og í nokkrum undantekningartilfellum, tiltölulega fáum, eftir því sem ég hef kannað það, hafi verið um lengingu vinnutíma að ræða, og gætti þar að sjálfsögðu nokkurrar óánægju. Þeir sögðu fljótt til sín, sem höfðu orðið fyrir því, að þeir voru komnir áður niður fyrir 40 stundir og fóru nú upp í það mark. En þarna var um verulega heildarstyttingu á vinnutíma að ræða hjá opinberum starfsmönnum og því algerlega ómögulegt að komast fram hjá því að líta á þessa aðgerð hæstv. fyrrv. ríkisstj. sem fordæmi, sem vinnulýður landsins við framleiðslustörfin, erfiðustu störfin í þjóðfélaginu, hlyti að bera fram kröfu um sem jafnréttiskröfu. Um það þarf a.m.k. ekki að deila, að markið var sett af fyrrv. hæstv. ríkisstj. 40 stundir á viku, og það er það, sem verkalýðshreyfingin fer núna fram á, að verði einnig hlutskipti framleiðslustéttanna. Nokkuð hefur dregizt hér inn í umr. samanburður á þeim launahækkunum, sem urðu hjá opinberum starfsmönnum á s.l. ári, og launahækkunum hjá öðrum stéttum. Það var upplýst í tímariti BSRB, að launahækkanirnar hefðu verið frá 16% hjá þeim lægst launuðu og upp í a.m.k. 72% hjá þeim hæst launuðu. Þannig var stiginn. Þá voru langminnstar hækkanir, margfaldlega minnstar hækkanir, hjá þeim lægst launuðu við þessa breytingu launakerfisins hjá opinberum starfsmönnum og margfaldlega mestar hjá þeim hæst launuðu.

En svo sagði hv. 2. þm. Norðurl. e., að hann vissi ekki til, að það væri neitt ósamræmi milli launa verkamanna, iðnaðarmanna og verzlunarmanna hjá opinberum aðilum, ríki og bæjum, miðað við almennt kaup verkamanna og iðnaðanmanna og verzlunarfólks í verkalýðshreyfingunni. Þetta er líka rangt. Jafnvel þessir menn, sem fengu langminnsta launahækkun meðal opinberra starfsmanna, hafa þó síðan búið við ósambærileg kjör við það, sem veekamenn og iðnaðarmenn hafa orðið að búa við á hinum almenna vinnumarkaði. Þeir gera nú samanburð á þessu, og grundvöllurinn undir kröfu Verzlunarmannafélags Reykjavíkur núna er einmitt þessi, að það heimtar að fá kjör sín lagfærð og bætt til jafns við verzlunarfólkið í opinberri þjónustu við nákvæmlega sömu störf, og vænti ég þá, að það verði auðvelt að verða við þessari réttlátu kröfu, ef munurinn er enginn. En hann er verulegur.

Þá var að síðustu spurt um það, hvort það væri virkilega meiningin hjá verkalýðshreyfingunni og ríkisstj. að reyna að halda þeim kauphækkunum, sem nú yrðu hjá verkalýðshreyfingunni, innan einhverra ákveðinna marka og láta þær ekki flæða yfir allt þjóðfélagið. Ég get svarað því hiklaust játandi, að það er ætlun ríkisstj. að reyna að gera þessar kauphækkanir, sem nú verða hjá verkafólki, að raunverulegum kaup., hækkunum, sem eitthvert gildi hafi lengur en daginn í dag og daginn á morgun, með því að láta þær helzt ekki flæða yfir allt þjóðfélagið, með því að láta þær ekki leiða til launahækkana hjá hinum hærra launuðu í þjóðfélaginu, því að til þess er engin ástæða. Svo vel var búið að gera við þá á fyrra ári af hæstv. fyrrv. ríkisstj., að þar er engu á bætandi. Nei, það voru hinir lægst launuðu meðal opinberra starfsmanna, sem fengu litlar kauphækkanir á síðasta ári, þeir hæst launuðu miklar, og það er það, sem þarf að gera leiðréttingar á, og við þetta er líka miðað af öðrum, eðlilega að mér finnst, og ég hefði vænzt þess einmitt, að það yrði um það allsherjarsamstaða að láta það launauppgjör, sem nú á sér stað á hinum almenna vinnumarkaði, verða raunverulegt og helzt verða upphaf að meira jafnvægi í launamálaþróun og verðlagsþróun í landinu en tekizt hefur hingað til að ná. Mér finnst, að það ætti í raun og veru að vera markmið allra að stefna að því. Það er ekkert réttlæti í því, að ef verkamaðurinn fær einhverja smálagfæringu á sínum lágu launum, þá hoppi allir upp í launum í þjóðfélaginu um sömu prósentutölu. Með því viðhöldum við því launamisrétti, sem því miður á sér stað í þjóðfélaginu. Við eigum sem íslenzk þjóð að stefna að meira jafnrétti í efnahags- og launamálum en nokkur önnur þjóð. Við þá stefnu verður þjóðfélag okkar styrkast og réttlátast.

Ég vék áðan að áhyggjum manna út af því, að samningar dragast á langinn. Vissulega hefði verið æskilegt, að samningum milli aðilanna á vinnumarkaðinum hefði miðað hraðar áfram en orðið hefur, en samt sem áður sé ég ekki annað en þeir hafi gengið, eins og ég áðan sagði, mjög eðlilega, séu í höndum réttra aðila og það sé ástæðulaust að vera með neitt vonleysishjal um, að það náist ekki saman endar, þó að verkalýðsfélögin séu nú hvert á fætur öðru að boða verkföll með þeim lögskylda viku fyrirvara. Það hefur raunar alltaf verið svo, alltaf í hvert einasta skipti, það hefur ekkert miðað í samningum, a.m.k. ekki til úrslita, fyrr en verkalýðshreyfingin hefur gripið til sins neyðarúr­ ræðis, verkfallsvopnsins. Og það hefði verið eitthvað nýtt, ef samningar hefðu smollið saman sjálfkrafa, án þess að verkföll væru boðuð.

Það var spurt um það af atvinnurekendum fyrir nokkru, hvort þeir mættu vænta þess, að byrðar þeirra yrðu að einhverju leyti léttar til þess að auðvelda þeim samninga. Fyrir nokkru tilkynnti ríkisstj. þeim það, að lánstími yrði lengdur að því, er varðaði almenn lán til atvinnuveganna, og vextir lækkaðir um 1%. Meðan vaxtabyrðin er gífurleg, þá er þetta til bóta, og einhverjum upphæðum skiptir þetta. En ég hef ekki frétt enn af þeim launahækkunartilboðum, sem út á þetta hafa komið, en það kemur væntanlega. Þetta hafa þeir fengið vitneskju um.

En það, sem ég hef verið að ræða núna, er þó nokkuð langt utan við ramma þess frv., sem hér er til umr., en ég hef einungis svarað þessum atriðum að gefnu tilefni. Aðalatriðið er þetta: Geta menn fallizt á lögfestingu 40 stunda vinnuviku fyrir almennt verkafólk, eins og ákveðið var á liðnu ári fyrir opinbera starfsmenn? Finnst þeim samræmi í því að neita verkafólkinu um þann sama rétt, sem þá var veittur opinberum starfsmönnum, eða finnst þeim það vera sjálfsagt? Í raun og veru er þetta það, sem um er að ræða í þessu máli, og tæplega annað eða meira. Almennar umr. um vinnudeilurnar, sem yfir standa, eru langt fyrir utan ramma frv., því að báðir aðilar á vinnumarkaðinum hafa vitað það allt frá því í sumar, að vinnuvikan yrði færð í 40 stundir og að orlofið yrði lengt úr 3 vikum í 4. Það et aðeins búið að eiga samstarf um það, í hvaða lagaformi þessu verði komið á, og það er það þakkarvert, að vinnuveitendasamtökin í landinu hafa lagt vinnu í það með samtökum verkalýðsins að búa til þennan lagaramma og fylla hann út og hafa gert það með beztu prýði. Og það held ég, að sé alveg áreiðanlegt, að einmitt þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið varðandi þessa lagasmíð, bæði hvað snertir orlofið og styttingu vinnuvikunnar, hafa fært aðilana heldur saman en hitt og frekar bætt samningsstöðuna en spillt henni, og held ég, að fullyrðingar í þá átt hafi verið alveg út í hött.