17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

268. mál, orlof húsmæðra

Frsm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Vegna þess að í ræðu hæstv. ráðh. komu fram ummæli þess efnis, að Kvenfélagasamband Íslands mundi telja, að hér væri tveimur ólíkum hlutum saman blandað, vil ég upplýsa það, að á sínum tíma, þegar þessi lög voru fyrst sett, var einmitt sú breyting, sem við leggjum til, að gerð verði núna á frv., sett inn í og samþykkt hér á Alþ. sem lög fyrir ábendingu Kvenfélagasambands Íslands. Þetta vildi ég, að kæmi fram. Við þetta mætti einnig bæta lítilli aths. við önnur ummæli hæstv. ráðh., þar sem hann nefndi, að það orlof, sem starfrækt væri á vegum mæðrastyrksnefndar, væri fyrst og fremst líknarstarfsemi. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., en ég tel, að það megi einnig telja, að svo verði um það orlof, sem verður starfrækt á vegum orlofsnefnda, þegar þess er gætt, hve það kemur til með að ná til fárra kvenna í raun og veru. Það hlýtur að verða gildandi regla, að þær, sem mest eru þurfandi fyrir slíkt orlof efnahagslega séð, þær, sem minnst tök hafa á því að kosta það sjálfar, hljóta auðvitað að ganga fyrir um það að fá að njóta þess.