12.04.1972
Efri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

240. mál, eftirlit með skipum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér, en þó hygg ég, að allir muni verða sammála um það, að nauðsynlegt sé að setja þessi lagaákvæði. Þau falla eðlilega inn í lögin um eftirlit með skipum.

Það var á s. l hausti, að fulltrúi frá sjóslysanefnd, sem annast slysavarnir, kom til mín og gerði mér grein fyrir því, að hann teldi nauðsynlegt að setja reglugerð um það efni, sem frv. fjallar um. Við athugun kom í ljós, að það þótti bresta lagaheimildir til að setja slíka reglugerð, og varð því að ráði að flytja þetta frv. En efni þess er þetta:

„Bannað er að henda hvers konar netum, vörpum eða öðrum veiðarfærum eða hlutum úr þeim í sjó. Varðar slíkt refsingu samkvæmt lögum þessum.“ Nú er svo komið, að skemmdum veiðarfærum eða úrgangshlutum úr þeim er oft fleygt í sjó af fiskiskipum og hefur sjálfsagt svo verið löngum, en efni veiðarfæranna hefur breytzt. Almennt eru nú notuð gerviefni, sem hafa litla eðlisþyngd, og þau eru jafnframt miklu sterkari og endingarbetri efni og fúna seint, máske aldrei. Eðli sínu samkvæmt hafa þessir afgangar veiðarfæra þá eiginleika að fljóta í sjólokunum og sökkva ekki, geta verið til tjóns bæði fyrir dýralíf í sjó og auk þess og sérstaklega orðið hættulegir fyrir siglingar. Þessir úrgangshlutir flækjast oft í skrúfur skipa og geta valdið bæði háska og tjóni. Þess er einmitt að minnast, að sama daginn og þessu frv. var útbýtt á Alþ. komst fiskiskip í Vestmannaeyjum í mikinn háska, þó að menn björguðust í það sinn, vegna þess að veiðarfæradræsur, sem kastað hafði verið í sjó, lentu í skrúfu skipsins og skipið varð því bjargarlaust, að þessu sinni rétt við hafnarmynni, en samt lá við, að þarna yrði manntjón af.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta. Það er augljóst mál, að lagaákvæði þarf að setja um þetta og síðan útfærslu á þeim lagaákvæðum með reglugerð vegna þessa máls. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri um frv. og vil vænta þess, að það fái góðar undirtektir og skjóta afgreiðslu. Þetta mál á vafalaust heima í sjútvn., sjávarútvegsmál getur það vissulega verið. Ég legg til að því verði vísað til hv. sjútvn., þegar umr. er lokið.