10.04.1972
Efri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

237. mál, lögreglumenn

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það eru nú ekki mörg orð, sem ég þarf að segja út af aths. hv. 2. þm. Reykv. Það er fyrst spurningin um það, hvort það sé rétt að binda í lög, eins og gert er nú, fjölda lögreglumanna. Sjálfsagt er þetta álitamál. Ég hef í þessu efni stuðzt við þá menn, sem hafa, að ég held, mesta reynslu og kunnáttu í þessu, og þeir telja, að ekki sé ástæða til að rígbinda þetta eins og gert hefur verið.

Það er í öðru lagi um yfirfærslur lögreglumanna frá sveitarfélögum til ríkisins. Að sjálfsögðu er það rétt, að þar getur verið um viðkvæmt mál fyrir ýmsa að ræða, t. d. gamla lögregluþjóna, sem lengi hafa verið starfsmenn sveitarfélagsins, og enn fremur eru auðvitað ýmis vandkvæði í því sambandi, m. a. að sjálfsögðu þau, að kjör þeirra lögreglumanna, sem starfað hafa hjá sveitarfélögum, geta verið og eru sjálfsagt eitthvað mismunandi, eftir því hvert sveitarfélagið er. Þetta er auðvitað svo og er ljóst, að þarna er nokkur vandi á höndum. Hins vegar held ég, að þess ætti nú samt að gæta minna, þó að þetta sé nú svona launaatriði, sem kemur þarna til eða frá hverjum þeir taka laun, af því að hingað til hafa þessir lögreglumenn líka í reyndinni, eins og hv. þm. gat um. verið stjórnarfarslega settir alveg undir lögreglustjórann og lögreglustjórnina.

Viðvíkjandi því, að það hefði átt að hafa nánara samband við lögreglumenn, áður en horfið var að þessari breytingu, þá vil ég segja það, að frá mínu sjónarmiði hefði það allt eins legið nærri sveitarfélögunum að gera það, áður en þau fóru að gera sínar samþykktir um þetta efni eða setja fram óskir sínar, að kynna sér viðhorf þessara starfsmanna sinna til þess, og ég held, að það megi alveg eins segja, að eðlilegt væri, að þeir aðilar hefðu haft samband við lögreglumennina, áður en þeir áttu hlut að því að afsala þeim, eins og að gerð sé krafa til þess, að hinn, sem við á að taka, hefði samband við þá. Hitt er annað mál, að ég tel sjálfsagt að hafa sem bezt samband við lögreglumennina og reyna að standa að þessari yfirfærslu á þann hátt, að tekið sé sanngjarnt tillit til hagsmuna þeirra og reynt að fara sem liðlegast að þessu.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það kæmi hér eitthvað fram eða látið væri að því liggja, að haft hefði verið samband við Samband ísl. sveitarfélaga áður en þetta frv. var úr garði gert, þá held ég, að það komi hvergi beint fram í grg. með frv„ að það hafi verið gert. Hins vegar veit ég, að vissir aðilar þar hafa séð þetta, áður en það var lagt fram, en ekki þannig að leitað hafi verið eftir neinum tillögum þeirra þar nm. það var ekki gert á þann hátt. Að sjálfsögðu hef ég ekkert að athuga við það, að haft sé samband við fulltrúa þess, en legg aðeins áherzlu á, að það verði ekki til þess að tefja afgreiðslu þessa máls.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um efni þess, sem 14. gr. fjallar um, yfirtöku eða um eignir, sem til þessa hafa verið notaðar í þágu lögreglunnar, þá er það rétt, að þessi regla skal notuð. Það er sagt þarna, að ríkið taki við, án sérstakrar greiðslu, tækjum og búnaði, sem sveitar- eða sýslufélag hefur lagt lögreglunni til. Þetta eru nú tæki, sem sveitarfélag hefur lagt lögreglunni til, og virðist ekki óeðlilegt, að þau fylgi henni, þegar sveitarfélag losnar við það að standa undir þessari þjónustu. Enn fremur er sú regla sett, að þegar um húsnæði er að tefla, sem ríki og sveitarfélög hafa lagt sameiginlega í, skuli nota það fyrir lögregluna, þá skuli sú eignaraðild að vísu haldast óbreytt, en á meðan húsnæðið er notað í þágu lögreglunnar, eigi þau afnot að vera endurgjaldslaus, en er að því kemur, að þetta húsnæði er selt eða ekki þarf lengur að nota það í þágu löggæzlunnar, þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að andvirði þess skiptist á milli eignaraðilanna samkvæmt eignaraðild.

Það er um þetta atriði sem fleira, að sjálfsagt má um þetta eitthvað deila, og getur mönnum sýnzt sitt hvað um það. En eins og ég held að ég hafi getið í framsögu minni áðan, þá er mér sagt, — ég verð að viðurkenna, að ég persónulega þekki það nú ekki nógu vel, — að þessi ákvæði eða þessar reglur, sem þarna eru settar, séu sniðnar eftir reglum, sem settar hafa verið um þetta efni í nágrannalöndunum, þegar hliðstæð yfirfærsla hefur þar átt sér stað.

Út af því, sem hv. þm. sagði um héraðsfangelsi, vil ég segja það, að ég held, að inni í þeirri kostnaðaráætlun eða þeim kostnaðarhugmyndum, sem fram voru settar um þetta í sambandi við fjárlög, þá hafi ekki verið reiknað með héraðsfangelsum. Ég hef a. m. k. skilið það svo. Hitt er að sjálfsögðu rétt, að það má út af fyrir sig telja rekstur þeirra til löggæzlu. Það getur verið orðaleikur, hvort menn gera það eða ekki. En ég hef skilið það svo, að í þessu, sem ákveðið var með fjárlögunum, fælist ekki skylda til þess að taka við héraðsfangelsum, og þess vegna hefur ekki verið undirbúin af hálfu dómsmrn. lagabreyting á þeim efnum. Hitt er svo annað mál, hvað mönnum sýnist burt séð frá því, hverju hefur verið gert ráð fyrir í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, þegar um þessi mál hefur verið talað, þá getur löggjafinn ákveðið það að breyta lögum um héraðsfangelsi, en ég tel þau málefni ekki vera í neinum þannig órjúfanlegum tengslum við löggjöfina um lögreglumenn, að það hljóti óhjákvæmilega að fara saman, og ég hef sem sagt ekki gert ráð fyrir því og hef ekki skilið það þannig, að það hvíldi nein kvöð á dómsmrn. út af fyrir sig samkvæmt — ég veit ekki, hvað ég á að segja — því samkomulagi má e. t. v. segja, sem gert hefur verið um þetta, að taka að sér héraðsfangelsi. Þetta vildi ég aðeins taka fram, án þess að ég sé þar með að segja neitt ákveðið sem mína skoðun, hvað sé eðlilegt í þessu efni.