12.05.1972
Efri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

237. mál, lögreglumenn

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál. frv. til l. um lögreglumenn, til nokkuð ítarlegrar athugunar og mælir með samþykkt frv. með örfáum breytingum, sem koma fram á sérstöku þskj., 749, en að öðru leyti hafa nm. áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta frv.

Í sambandi við athuganir á eðlilegri skiptingu verkefna og tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga hefur það verið sameiginlegt álit fulltrúa þessara tveggja aðila, að ríkið ætti að bera allan kostnað af almennri löggæzlu í landinu. Á fjárlög fyrir árið 1972 er tekin fjárveiting til löggæzlunnar og miðað er við, að kostnaður af henni verði allur greiddur úr ríkissjóði. Í því frv., sem hér um ræðir, eru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að skipa löggæzlustarfi með öðrum hætti að sjálfsögðu en verið hefur. Samkv. núgildandi lögum um lögreglumenn eru þeir flestir starfsmenn sveitarfélaganna, þó að embættismenn ríkisins, lögreglustjórar og yfirsakadómarar, hafi haft stjórn á störfum þeirra. Það hefur því þótt eðlilegt við þessa meginbreytingu, sem hér verður, að semja að nýju heildarlöggjöf um lögreglumenn. Og höfuðbreytingin er sú að sjálfsögðu, að ríkið tekur að sér allar kostnaðargreiðslur af starfsemi löggæzlunnar í framtíðinni. Dómsmrh. fer með yfirstjórn lögreglunnar, en lögreglustjórar víðs vegar um land og yfirsakadómari fara með stjórn lögreglu og rannsóknarlögreglu í sínum umdæmum. Sú till. kom til umr. í allshn., sem áður hefur verið nokkuð rædd og til íhugunar, að rannsóknarlögreglan á svokölluðu stór-Reykjavíkursvæði væri undir einni stjórn, stjórn yfirsakadómarans í Reykjavík, sem nú samkv. lögum stýrir starfi rannsóknarlögreglunnar þar. Nm. töldu almennt ekki eftir atvikum unnt að koma þvílíkri breytingu á nú í sambandi við þetta frv. Breytingu af því tagi þyrfti að taka til sérstakrar meðferðar, m. a. vegna þess, að breytingunni mundi óhjákvæmilega fylgja breytt skipan umdæma eða dómstóla. En um efni þessarar till. var ekki frekar leitað álits og n. gekk fram hjá henni að öðru leyti en því, sem ég gat um áðan, að þessu var þar bætt í. Hins vegar taldi n., að til frekari könnunar í þessa átt ætti að koma, og rétt, að hún færi fram fyrr en seinna, þannig að nm. töldu hana allrar athygli verða.

Í n. urðu ekki sérlegar umr. né ágreiningur neinn að marki, en þó nokkrar umr. um 13. og 14. gr. frv. Í 13. gr. þessa frv. er fjallað um viðtöku ríkisins á kostnaðargreiðslum, einnig um greiðsluframkvæmdina svo og um tilfærslu lögreglumanna, sem ganga úr þjónustu sveitar- og sýslufélaga til ríkisins. Gert er ráð fyrir í þessari gr., 13. gr. frv., að sveitar- og sýslufélögin annist greiðslu á kostnaði frá l. jan. 1972, eða eins og verið hefur, gegn endurgreiðslu síðar úr ríkissjóði. Og þetta fyrirkomulag á kostnaðargreiðslum standi fram að þeim tíma, þegar verður með samkomulagi aðila endanlega ákveðið, að greiðslurnar færist beint yfir til ríkissjóðs og umboðsmanna hans.

Um tilfærslu lögreglumanna segir í 13. gr. frv.: „Lögreglumenn, sem hafa verið í þjónustu sveitar- eða sýslufélags, eiga kost á því til ársloka 1973 að gerast starfsmenn ríkisins með þeim réttindum og skyldum, sem því fylgja. Lögreglumaður, sem ekki kýs þessa leið, skal teljast vera áfram starfsmaður sveitar- eða sýslufélagsins með kjörum samkv. gildandi kjarasamningi óbreyttum til loka gildistíma hans.“

N. taldi ekki fært, að ákvæði væri sett í þetta frv., sem binda skyldi ákveðin sérstök kjör við eina tiltekna stétt opinberra starfsmanna, og þau sérstöku ákvæði yrðu að koma til álita á sínum tíma, þegar til allsherjar kjarasamninga yrði gengið. Kjör löggæzlumanna víðs vegar um land hljóta að vera ærið mismunandi og mörg teknísk atriði að koma upp í sambandi við launaflokkun og í ýmsum öðrum efnum, að því er varðar kjör þessarar stéttar manna. Og allt slíkt hlýtur að koma til athugunar, þegar kjarasamningar verða gerðir við opinbera starfsmenn. Hitt er svo annað mál, að n. leit þannig á, að sýna bæri þessari stétt manna fulla sanngirni í væntanlegum samningum, þegar þeir eru orðnir ríkisstarfsmenn, og fari það þá eftir gildandi venjum. En að binda það fastmælum í þessu frv. t. d., að lögreglumenn ættu ekkert að missa af kjörum sínum eða öðrum fríðindum í sambandi við launakjör, þegar þeir færu yfir til ríkisins, taldi n. varla fært að taka inn í, eins og ég sagði áðan.

Þá er það 14. gr., sem við ræddum allmjög, eins og eðlilegt er. Þar er ákveðið tvennt. Annars vegar, að ríkið taki við öllum tækjum og búnaði, sem sveitar- eða sýslufélög hafa lagt lögreglunni til og sú yfirtaka fari fram án nokkurra sérstakra greiðslna af hálfu ríkissjóðs til viðkomandi sveitar- eða sýslufélaga. Þetta ákvæði teljum við í n. út af fyrir sig mjög eðlilegt, vegna þess að viðkomandi sveitar- eða sýslufélag fær áframhaldandi ekki lakari þjónustu en við hafði verið búið, og þess vegna sé ekkert að athuga við það, þó að viðkomandi sveitar- eða sýslufélagi sé ekki goldin endurgreiðsla fyrir afnot af öllum þessum lausamunum, ef ég má orða það svo. Í annan stað er ákvæði um það, að ríkið taki við húsnæði, sem ríkið og sveitar- eða sýslufélög hafa lagt lögreglunni til áður, án greiðslu fyrir viðtöku þess, en sveitar- eða sýslufélög haldi sínum eignarhluta óskertum. Það hefur komið fram hér í umr. um þetta mál fyrr, að kannske mætti ætla, að ríkið færi of langt í þessum efnum. þ. e. um annarra eignir, og jafnvel gæti þetta kannske talizt brot á stjórnarskrá um friðhelgi eignarréttarins. Við í n. töldum. að það álit fengi nú vart staðizt, og ég vil geta þess, að í Danmörku var farið inn á þá leið, að ríkið tæki við löggæzlunni að fullu, en áður höfðu sveitarfélögin tekið þátt að sínum hluta í kostnaði við hana. Þá var ekki aðeins, að húsnæðið væri tekið, heldur beinlínis tekið í eigu ríkisins, og þótti þarlendum ekkert við það að athuga. En svo langt er ekki gengið hér í þessu frv. Þar heldur viðkomandi sveitarfélag óskertum sínum eignarrétti og verður hann þá virtur, ef slíkt húsnæði, sem ríkið tekur, er ekki lengur til afnota fyrir löggæzluna.

Í umsögn, sem okkur í n, hefur borizt frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, eru þeir ekkert sérlega óánægðir með fyrri hluta 14, gr., það, að ríkið taki við öllum tækjum og búnaði án endurgjalds. Þeir eru öllu óánægðari með ákvæðin, sem fjalla um fasteignir eða húsnæði. Við í n. sáum okkur nú ekki fært að breyta þessu ákvæði um húsnæðið, þegar við höfum rætt þetta nánar, og sveitarfélögin hafa náttúrlega fyllstu þjónustu eftirleiðis, m. a. gegnum þetta húsnæði. Ég man ekki betur en svo hafi verið, þegar héraðsskólarnir, héraðsgagnfræðaskólar eða heimavistarskólar voru teknir undir umsjá ríkisins og ríkið skyldi greiða af þeim kostnáð, kostnað við rekstur þeirra. Þá held ég, að fáum eða engum hafi dottið í hug, þó að viðkomandi sveitarfélög væru búin að greiða mörg hver stórfé í uppbyggingu skólans, ég held, að fáum eða engum hafi dottið það í hug, að ríkið færi að endurgreiða það, sem sveitarfélögin höfðu á löngum tíma og áður greitt til uppbyggingarinnar, og ég held, að nokkuð líku máli gegni í raun og veru hér. Og ég veit um það, ég er vel kunnugur því, að vegna héraðsskólanna höfðu sveitarfélögin tekið nokkuð stórfelld lán til að standa undir uppbyggingu þeirra og jafnvel rekstri, og þegar ríkið yfirtekur skólana, urðu lánin eftir í höndum viðkomandi sveitarfélags og varð það að standa undir því, sem ógreitt var. Ég held, að ég fari rétt með það. Og þegar á heildina er litið, finnst mér, að hér gæti nokkuð hins sama að því er varðar húsnæðið, sem ríkið tekur við af sveitarfélögunum. En ég held, að ég eyði ekki meira máli í þetta.

Eins og ég sagði áður, eru brtt. við frv., sem n. gerir, á sérstöku þskj. Það er fyrst brtt. við 2. gr. N. gerir það að tillögu sinni, að tekið verði inn ákvæði á þessa lund: …… , og yfirsakadómari með stjórn rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík.“ Þetta ákvæði er í lögum um meðferð sakamála og kannske víðar, en sérstaklega benti yfirsakadómari okkur á þetta, er hann hafði frv. til yfirskoðunar, og því tókum við þetta ákvæði inn í brtt. okkar. Svo er brtt. til samræmis við 3. mgr. 3. gr. Þar stendur, að ekki megi skipa í fast lögreglumannsstarf. Við nm. leggjum til, að þetta „fast“ falli niður.

Aðra breytingu gerum við á þessari sömu gr. Þar sem segir, að ráðh. ákveði tölu lögreglumanna í hverju umdæmi að fengnum tillögum viðkomandi lögreglustjóra, viljum við í okkar till. bæta við: „sbr. þó 3. mgr.“, en þar er einmitt fjallað um það, að eigi megi skipa í lögreglumannsstarf, nema fé hafi verið veitt til þess í fjárlögum, bæði að því er varðar tölu lögreglumanna og starfsstig. Það er vitnað í þessa mgr., þannig að það komi þá skýrar fram en ella, að það sé fjárveitingavaldið, sem komi þarna til hverju sinni.

Aðrar voru nú ekki þær breytingar, sem n. samþykkti að senda frá sér með frv. Þá held ég, að ég hafi útskýrt málið í þetta sinn og vænti þess, að frv. fái sæmilega greiðan gang í gegnum deildina.