13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

237. mál, lögreglumenn

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Þegar ég hafði í gær framsögu um þetta mál fyrir hönd allshn., vék ég nokkrum orðum að 2. málsgr. 14. gr. í þessu frv., sem fjallar um lögreglumenn. Ég tel, að hin framkomna brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. sé þess eðlis, að það sé erfitt — og tala ég þá ekki fyrir hönd n. — erfitt að samþykkja hana, en treysta verður hins vegar því, að ef einhver fjárhagslega vanmegnug sveitarfélög hafa lagt í mikinn kostnað við byggingar á lögreglustöðvum, þá hljóti ríkisstjórnin að líta til slíks. En eftir því sem ég hef hlerað, þá munu þau ekki vera svo mörg, mega vera tvö eða þrjú, að ekki ætti að vera hægt að koma þeim málum fyrir með samkomulagi milli ríkisstj. og þeirra sveitarfélaga. Þetta frv., sem hér um ræðir, er þess eðlis, að það er að minni hyggju nauðsynlegt, að það nái fram að ganga, en brtt., bæði þessi og kannske aðrar, ef þær eru fram settar og samþykktar, stefna málinu í heild í nokkra óvissu og e. t. v. með þeim hætti, að löggjöf um lögreglumenn, sem er í samræmi við fyrri ákvarðanir um þá tilfærslu, sem ætlazt er til að fari fram á lögreglumönnum úr þjónustu sveitarfélaga til ríkis, er stefnt alveg í óvissu, og ég tel þá miður farið. Þess vegna vildi ég mælast til þess, að þessi till. fengi ekki framgang á þessu þingi, en hins vegar mundu þm. treysta því, að ríkisstj. tæki nokkurt tillit til sveitarfélaga, sem lagt hafa í þungan kostnað í sambandi við þetta húsnæði lögreglumanna úti um land, tekið yrði nokkurt tillit til þeirra, þegar að því kæmi að koma þessum málum í það horf, sem er ætlunin.