17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

237. mál, lögreglumenn

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Eitt af því, sem sett hefur hvað mestan svip á þetta þinghald hér í vetur, eru umr., sem skapazt hafa hér í þingsölum, þegar ber á góma mál, sem snerta einstök kjördæmi eða héruð um hinar dreifðu byggðir. Það skiptir ekki máli, hvort á dagskrá eru vegamál, skólamál, húsnæðismál eða önnur hagsmunamál þessara héraða. Þegar þau ber á góma, þá eru mjög lifandi og fjölþættar umr. um gagn þeirra og nauðsynjar. Það hefur gjarnan farið svo, að hér eru haldnir, eins og sagt er í bakherbergjum, kjördæmafundir. Hver þm. á fætur öðrum úr viðkomandi kjördæmi stendur hér upp og heldur langar ræður um kosti eða galla viðkomandi máls, og þessir sömu þm. karpa sín á milli um það, hver eigi málið, hver hafi flutt það fyrstur, hvernig með það skuli fara, hvaða afgreiðslu það skuli hljóta o. s. frv.

Þessi áhugi kemur fram í fleiru heldur en umr. Hér eru bornar fram margvíslegar till., frv. um hagsmunamál kjördæmanna, fluttar þáltill. um, að gerðar skuli áætlanir um framkvæmdir, um uppbyggingu atvinnulífs og um uppbyggingu menningarmiðstöðva, um tilfærslu á stofnunum o. s. frv. til hinna einstöku byggðarlaga. Nú er ég ekki að gagnrýna þessar umr. eða slíkan tillöguflutning, síður en svo. Það ber þess ljósan vott, að þm. hafa brennandi áhuga á eflingu og viðgangi sinna héraða, sinna byggðarlaga, og ekki er óeðlilegt, að þeir noti tækifærið á þessum vettvangi til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hins vegar er það svo, að í öllum þeim áhuga á viðgangi einstakra byggðarlaga hefur farið minna fyrir því, að rætt hafi verið um hagsmunamál höfuðborgarinnar, og stundum virðist það svo, að enginn einstakur þm. telji sér skylt að gæta hagsmuna Reykjavíkur, að taka upp áhugamál Reykvíkinga og fjalla um það hér í stuttu eða löngu máli, hvað betur megi fara og hvað gera skuli til hagsbóta fyrir Reykjavík og Reykvíkinga.

Þennan formála hef ég í þessari umr. vegna þess, að hér er til meðferðar frv. til l. um lögreglumenn, mál nr. 237, sem er afleiðing af þeim skattalagabreytingum, þeim róttæku og afdrifaríku skattalagabreytingum, sem gerðar voru hér fyrr í vetur á Alþ. Þar var m. a. breytt í grundvallaratriðum tekjustofnalögum sveitarfélaga annars vegar og tekju- og eignarskattslögum hins vegar og í þessum till. frá hæstv. ríkisstj. var m. a. gert ráð fyrir því, að kostnaður af löggæzlu flyttist yfir á ríkissjóð. Þessi breyting var gerð öðrum þræði vegna tilmæla frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og ályktana, sem gerðar höfðu verið á þeim vettvangi, en þær ályktanir gengu út á það, að eðlilegt væri, að ríkisvaldið hefði kostnað af rekstri löggæzlu, og má á þau rök fallast sem meginreglu, að eðlilegra sé, að ríkissjóður hafi með rekstur og kostnað af löggæzlu að gera heldur en einstök sveitarfélög, enda er það svo hvarvetna um hinn menntaða heim, að löggæzlan heyrir undir viðkomandi stjórnvöld á hverjum tíma.

Þessi meginbreyting var sem sagt gerð með samþykki Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarstjórna almennt, en hins vegar eru margvíslegar breytingar einstakar, smáar og stórar, í þessari tilfærslu, sem sveitarfélög geta ekki sætt sig við og hafa ýmislegt við að athuga. Það eru reyndar fleiri en sveitarfélög, sem gagnrýna þetta, og kem ég að því síðar. En varðandi þessa breytingu þá er frá því að segja, að hagsmunir Reykjavíkur eru að mínu viti mjög fyrir borð bornir og virðist vera svo í þessum málum sem öðrum, að lítt hafi verið tekið tillit til sjónarmiða eða hagsmuna Reykvíkinga, heldur haldið sínu striki og breytt án þess að skoða málin niður í kjölinn og athuga allar afleiðingar af þessum breytingum.

Í 13. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Frá 1. jan. 1972 greiðist kostnaður við starfsemi lögreglunnar, sem áður var greiddur af sveitar- eða sýslufélögum, úr ríkissjóði. Þó skulu sveitar- eða sýslufélögin annast greiðslu kostnaðar, svo sem verið hefur, gegn endurgreiðslu úr ríkissjóði, til þess tíma er ákveðið verður, með samkomulagi aðila, að kostnaðargreiðslur færist til ríkissjóðs og umboðsmanna hans.

Lögreglumenn, sem verið hafa í þjónustu sveitar- eða sýslufélags, eiga kost á því til ársloka 1973 að gerast starfsmenn ríkisins með þeim réttindum og skyldum, sem því fylgja. Lögreglumaður, sem ekki kýs þessa leið, skal teljast vera áfram starfsmaður sveitar- eða sýslufélagsins með kjörum samkv. gildandi kjarasamningi óbreyttum til loka gildistíma hans.

Sveitar- eða sýslufélagi er óheimilt að gera breytingar á þeim samningi eða gera sérsamninga við lögreglumenn, enda fer um almennar breytingar á þeim kjarasamningum eftir reglum um kjarasamninga ríkisstarfsmanna.

Um mál þeirra lögreglumanna, sem ekki kjósa að gerast ríkisstarfsmenn fyrir 31. des. 1973, þegar gildistíma núgildandi kjarasamnings þeirra lýkur, skal farið eftir almennum reglum um niðurlagningu stöðu í 14. gr. laga nr. 38/ 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Þannig hljóðar 13. gr. þessa frv. og eins og heyra má, fjallar hún að mestu um það atriði, hvernig færa skuli lögreglumenn úr þjónustu sveitar- og sýslufélaga yfir til ríkisins og gera þá þannig að starfsmönnum ríkisins.

Í umsögnum sem bárust til þeirrar n., sem hafði með þetta mál að gera, kenndi ýmissa grasa, en þ. á m. voru umsagnir frá Landssambandi ísl. lögreglumanna, svo og frá Lögreglufélagi Reykjavíkur. Ég held, að ég fari rétt með, að báðir þessir aðilar eða a. m. k. Lögreglufélag Reykjavíkur, svo að ég fullyrði ekki of mikið, mótmæla mjög ákveðið þessari tilfærslu og telja hagsmunum sínum stefnt í voða. Nú þarf ekki að fjölyrða um það eða rekja það fyrir hv. þm., að að sjálfsögðu er meginþorri allra lögreglumanna félagsmenn í Lögreglufélagi Reykjavíkur. Þar er um langstærsta liðið að ræða, og víða um land eru ekki nema 1–2 menn, sem starfa að löggæzlu, en allur hinn stóri fjöldi er hér í höfuðborginni. Þess vegna skipta þessar breytingar fyrst og fremst máli fyrir lögreglumenn í Reykjavík. Þetta lögreglufélag, sem hér er fyrir hendi í höfuðborginni, hefur áður og reyndar strax þegar skattafrv. komu fram látið í ljós áhyggjur sínar og það fór ekki á milli mála, að þeir óskuðu mjög eftir því, að tekið væri tillit til sjónarmiða þeirra. Því miður hefur reyndin ekki orðið sú og þessi mál farið í gegn, bæði skattafrv. og þetta frv. til laga um lögreglumenn, án þess að samráð hafi verið haft við þetta stóra félag, sem á að gæta hagsmuna lögreglumanna í Reykjavík. Ég efast líka um að samráð hafi verið haft við Landssamband ísl. lögreglumanna, þó að ég skuli ekki heldur fullyrða um það. En ég man ekki betur en hafi mátt lesa það út úr umsögnum þeirra, að svo hafi ekki verið gert.

Lögreglufélag Reykjavíkur hefur sett fram þau sjónarmið, að hagsmunir lögreglumanna í Reykjavík og aðstaða öll yrði mun lakari, ef þessi breyting verður að lögum. Nú er það opinber staðreynd, að lögreglumenn í Reykjavík, sem hafa átt Reykjavíkurborg að samningsaðila, hafa fengið betri kjör og betri samninga í viðskiptum sínum við þann yfirmann, sem Reykjavíkurborg er gagnvart þeim, og fyrir vikið eru þeirra kjör mun betri heldur en löggæzlumanna víða um land. Nú er ég í sjálfu sér ekki að mæla því bót, að það sé munur á kjörum manna, eftir því hvar þeir eru staðsettir á landinu, síður en svo. En þessa staðreynd verðum við engu að síður að horfast í augu við, þegar við erum að velta fyrir okkur hagsmunum lögreglumanna í Reykjavík. Og það er að sjálfsögðu krafa þessa hóps manna, að þeir fari ekki út úr þessum tilfærslum með lakari kjör heldur en þeir hafa haft fyrir. Það er mannlegt sjónarmið, sem mundi vera ríkjandi í hvaða stétt sem væri og ég veit, að þingheimur hefur fullan skilning á.

Fyrir utan beina hræðslu við kjaraskerðingu hafa þeir líka áhyggjur af því, að samningsaðstaða þeirra mundi verða mun lakari, þar sem ekkert segir til um það, hvernig skuli fara með kjarasamninga þeirra í framtíðinni, og reyndar mjög ólíklegt, að Lögreglufélag Reykjavíkur verði samþykkt sem sérstakur samningsaðili. Það þýðir, að þetta félag verður að ganga inn í landssambandið og vera þar einn hluti af þeirri heild, og fyrir vikið, eins og ég hef sagt hér áður, mundi ekki verða tekið tillit til þeirra sérstöku samninga, sem þeir hafa haft hingað til, og þeir óttast afleiðingarnar af því. Þegar á heildina er litið, má segja, að réttarstaða lögreglumanna í Reykjavík, Lögreglufélags Reykjavíkur, sé óljós. Hún svífur í lausu lofti, og er það að sjálfsögðu óverjandi að leggja fram frv. og gera till. um það, í hvers þjónustu viðkomandi stétt skuli vera, án þess að hafa við hana samráð og a. m. k. gefa þar eitthvað í skyn, hvernig með réttindi hennar og skyldur skuli fara. Að vísu verða þessir menn eins og aðrir að sætta sig við, þegar þeir gerast starfsmenn ríkisins, að taka við réttindum og skyldum, sem opinberir starfsmenn almennt hafa, en þessi sérstaða er mjög augljós og er þess virði, að fullt tillit sé til hennar tekið. Þessum sjónarmiðum vildi ég koma á framfæri og mælist eindregið til þess, að þetta verði athugað, áður en þetta frv. verður samþ. af d. eða hv. Alþ.

Hvað snertir hagsmuni Reykjavíkur eða Reykvíkinga að öðru leyti þá er búið að víkja lítillega að ákvæðum, sem snerta það, sem ég vildi víkja að, í málflutningi hv. 11. landsk. þm., Ólafs G. Einarssonar, en þar á ég við 14. gr. og að nokkru leyti 13. gr. þessa frv. Í 14. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ríkið tekur víð, án sérstakrar greiðslu, þeim tækjum og búnaði, sem sveitar- eða sýslufélag hefur lagt lögreglunni til.

Ríkið tekur við húsnæði, sem ríki og sveitar- eða sýslufélög hafa stofnað til sameiginlega, án greiðslu fyrir viðtöku þess, en sveitar- eða sýslufélög halda eignarhluta sínum í því. Er afnotum í þágu lögreglunnar lýkur, ráðstafa eignaraðilar sameiginlega slíkum fasteignum.

Ríkið tekur við fullnustu leigusamninga, sem sveitar- eða sýslufélög hafa gert í þágu lögreglunnar. Um aðrar óloknar skuldbindingar sveitar- eða sýslufélags vegna ráðstafana í þágu lögreglunnar fer eftir samkomulagi aðila og má leggja ágreining undir mat dómkvaddra manna.“

Það, sem segir um skipti ríkissjóðs og sveitarfélaga hvað snertir kostnað og greiðslu kostnaðar og er í 13. gr., hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Frá 1. jan. 1972 greiðist kostnaður við starfsemi lögreglunnar, sem áður var greiddur af sveitar- eða sýslufélögum, úr ríkissjóði. Þó skulu sveitar- eða sýslufélögin annast greiðslu kostnaðar, svo sem verið hefur, gegn endurgreiðslu úr ríkissjóði, til þess tíma er ákveðið verður, með samkomulagi aðila, að kostnaðargreiðslur færist til ríkissjóðs og umboðsmanna hans.“

Þessum ákvæðum báðum hefur Samband ísl. sveitarfélaga mótmælt í umsögn, sem send var til hv. allshn. og dags. er 2. maí 1972. Segir m. a. í þessari umsögn frá sambandinu, með leyfi forseta, hvað snertir 13. gr.:

„Í grein þessari er fjallað um löggæzlukostnað, þ. e. rekstrarkostnað löggæzlu. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir, að sveitarfélögin annist greiðslu löggæzlukostnaðar, svo sem verið hefur, gegn endurgreiðslu úr ríkissjóði til þess tíma, sem ákveðið verður, með samkomulagi aðila, að kostnaðargreiðslur færist til ríkissjóðs. Þessu ákvæði frv. mótmælir stjórn sambandsins eindregið. Telur hún ástæðulaust, að sveitarfélögin hafi hér milligöngu, heldur ætti slíkur kostnaður að greiðast beint af ríkissjóði eða umboðsmönnum hans. Eftir að sveitarfélögin eru hætt að taka beinan þátt í löggæzlukostnaði, virðist engin ástæða til, að þau hafi hér milligöngu. Benda má á, að þessum verkefnum fylgir töluverð vinna og sökum vöntunar á rekstrarfé eru sveitarfélögin þess ekki umkomin að leggja fé út fyrir ríkissjóð. Þá má benda á, að í gr. eru engin ákvæði um, hvenær ríkissjóður á að endurgreiða þennan kostnað, hvort það er t. d. mánaðarlega eða að loknu reikningsári, hvaða gögn þurfa að fylgja kröfu sveitarfélaganna o. s. frv. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir, að þessi skipan haldist, unz samkomulag verði á milli aðila um, að kostnaðargreiðslur færist til ríkissjóðs. Gera má ráð fyrir, að ekki muni standa á sveitarfélögunum að fallast á slíka tilhögun. En ætti þá skipan sú, sem gr. gerir ráð fyrir, að haldast endalaust, ef ríkisvaldið fellst ekki á breytinguna?“

Þetta segir m. a. í umsögn frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta ákvæði. Það fer ekki á milli mála hér eins og víða annars staðar, að þarna er búið að ganga frá frv., án þess að taka, að manni sýnist, minnsta tillit til hagsmuna sveitarfélaga. Þarna er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður taki yfir reksturinn á löggæzlunni, en sveitarfélögin hafi áfram nokkra byrði af því að greiða út löggæzlukostnaðinn. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu mikil greiðsluvandræði eru hjá bæði stórum og smáum sveitarfélögum og þau eru þess alls ekki umkomin nema þá í undantekningartilfellum að leggja fé út fyrir ríkissjóð. Ég held, að þarna sé sveitarfélögum sýnt algert tillitsleysi og jafnvel mjög smekklaust tillitsleysi, sem ég tel alveg ástæðulaust að festa í lög með öllum þeim vanköntum, sem á því eru og reyndar er bent á í þessari umsögn. Hvernig á að meta ýmsan kostnað, sem til kemur, og hver á að vera dómari í því og hvenær lýkur þessu óvissuástandi? Þeir, sem kynnzt hafa sveitarstjórnarmálum, og hér eru eflaust margir, sem þeim eru kunnugir, vita, að það er mjög teygjanlegt, hvað er löggæzlukostnaður og hvað fellur undir raunhæfan löggæzlukostnað og hvað annað, sem er í tengslum við það, en þetta væri eilíft þrætuepli, eftir að sveitarfélögin eru búin að greiða þetta fé út, ef síðan ætti að fara að metast um það, hvort greiða ætti það til baka eða ekki. Ég hefði haldið, að það væri miklu skynsamlegra að skera bara strax á þetta. Úr því að ríkissjóður er að taka þá ákvörðun að taka á sig löggæzluna og kostnaðinn af henni, þá á að gera skil strax þarna á milli.

Þá er ég kominn að 14. gr., sem fjallar eins og áður getur um það, að ríkið taki yfir húsnæði án greiðslu fyrir viðtöku þess, og enn fremur, að ríkið taki yfir ýmis tæki og aðra lausamuni, án þess að nokkur greiðsla komi fyrir það heldur. Þetta er reyndar furðulegt ákvæði, og ég mundi segja, að það eigi sér enga hliðstæðu, enda hafa verið leidd rök að því og það gefið hér fyllilega í skyn fyrr í dag, að þetta ákvæði varði hreinlega við stjórnarskrána, að hægt sé að setja í lög, að hægt sé að yfirtaka eignir sveitarsjóða eða ákveðinna aðila, án þess að greiðsla komi í staðinn. Ég efast stórlega um, að það standist, og það væri bara vansæmd að því að láta þetta ákvæði fara í gegn, sérstaklega þetta ákvæði. Ég vildi vegna hagsmuna Reykjavíkur, sem ég hef minnzt hér á áður, sem dæmi benda á, að hvað fasteignir snertir þá eru hér í Reykjavík þrjár fasteignir, sem eru í sameiginlegri eign ríkissjóðs og borgarsjóðs. Það er í fyrsta lagi hegningarhúsið við Skólavörðustíg 9, en þar á ríkissjóður helmingseign á móti borgarsjóði. Nýja fasteignamatið á hlut Reykjavíkurborgar í þessu húsi er 6.6 millj., þannig að það er þá rétt um 13 millj., sem fasteignamatið á þessu húsi er samtals. Í öðru lagi er um að ræða fangageymsluna í Síðumúla, sem er líka stór fasteign og verðmæt, þar er fasteignamatið 2.8 millj. Í þriðja lagi er um að ræða fangaklefana í lögreglustöðinni við Hverfisgötu, í þeirri stóru byggingu, og þar er hluti borgarsjóðs 7 millj. af fasteignamati. Samtals er fasteignamatið, sem er hluti borgarsjóðs, 16.4 millj. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessar fasteignir verði afhentar ríkissjóði, án þess að nokkur greiðsla komi fyrir, 16.4 millj., takk, á borðið úr sveitarsjóðnum, sem hefur byggt þessar fasteignir upp, og sumar þeirra eru byggðar nýlega upp, eins og fangahúsið í Síðumúla, og hafa þar af leiðandi lítið verið afskrifaðar. Þetta eru verðmætar eignir, og sveitarsjóður og við Reykvíkingar höfum haft af þessu kostnað og kostað miklu til þessara fasteigna, og það er aldeilis útilokað fyrir þetta byggðarlag og íbúana þar að sætta sig við slíka afarkosti.

Þá kem ég að rekstri þessara húsa. Nú hef ég verið að reyna að rýna í þetta ákvæði og átta mig á því, hvernig með rekstrarkostnað af þessum húsum skuli fara. Þar segir, eins og ég hef greint frá áður, að ríkið taki við húsnæði, sem ríkið og sveitar- eða sýslufélög hafa stofnað til sameiginlega, án greiðslu fyrir viðtöku þess, — það liggur ljóst fyrir, — en sveitar- eða sýslufélög halda eignarhluta sínum í því. Ef afnotum í þágu lögreglunnar lýkur, ráðstafa eignaraðilar sameiginlega slíkum fasteignum. Þessi síðasti málsl. fjallar eingöngu um það, hvernig með skuli fara, þegar afnotum í þágu lögreglunnar lýkur, en það er ekki vikið einu orði að því, hvernig með rekstur þessara húsa fer. Nú skyldi maður ætla, að þegar ríkið yfirtekur þessar fasteignir og með slíku gerræði, að það á ekkert að greiða fyrir það, þá mætti ætla, að það væri nú lágmarkskrafa og gert ráð fyrir því, að ríkið tæki að sér rekstrarkostnað þessara húsa. Þessu mundi öll venjuleg skynsemi ganga út frá, ef maður ályktaði með venjulegum rökum. En það er eitthvað annað, þegar litið er í fjárlög, sem samþykkt hafa verið fyrir árið 1972. Þar er vikið að þessum húsum, hegningarhúsinu og fangahúsinu, og þar segir um hegningarhúsið í Reykjavík hvað snertir rekstrarkostnað á því húsi, að gert er ráð fyrir því, að rekstrarkostnaðurinn skiptist þannig, að launin séu 4 millj. 950 þús., önnur rekstrargjöld séu 1873 þús., viðhald sé 700 þús. og gjaldfærður stofnkostnaður 150 þús. Samtals er reiknað með því, að gjöldin nemi 7 millj. 673 þús. kr. En á móti segir síðan í þessum fjárlögum, að reiknað sé með tekjum af rekstri hegningarhússins að upphæð 3 millj. 836 þús. kr., það er sem sagt reiknað með því, að helmingurinn af gjöldunum komi inn aftur sem tekjur. Og hvaðan eiga þær tekjur að koma? Þær eiga að koma frá sveitarsjóðnum, þær eiga að koma frá borgarsjóði, því að hingað til hafa þessi hús verið rekin sameiginlega af ríki og borg og það hefur verið um helmingaskipti þar að ræða. Á sama tíma og hæstv. ríkisstj. leggur fram fjárlög nú í haust með þessum till., sem þarna greinir, þá hefur hún líka í bígerð og leggur um sama leyti fram frv. að breytingum á skattalögum og tekjustofnalögum. Engu að síður, þrátt fyrir það, að hún gangi til þessara breytinga og aðgerða með það í huga að yfirtaka löggæzlukostnaðinn og yfirtaka þessi hegningarhús og fangahús, þá gerir hún till. um það í fjárlögum áfram, að sveitarsjóðurinn borgi helminginn af rekstrarkostnaði. Hvaða samræmi er í þessum vinnubrögðum? Og geta Reykvíkingar unað við slíkt, sem eiga þarna hagsmuna að gæta, þegar hegningarhúsið í Reykjavík er annars vegar? Er hægt að sitja undir því, að hegningarhúsið sé tekið án nokkurrar greiðslu bara með einum lagabókstaf og af því að ríkisstj. þóknast það, en síðan eigi Reykjavíkurborg áfram að borga helminginn af rekstri þessa húss? Ég óska eindregið eftir því, að hæstv. fjmrh. upplýsi, hvernig þetta er hugsað, því að ég get ekki séð annað en þarna sé fullt ósamræmi í tillögugerð hæstv. ríkisstj.

Þetta kemur líka fram annars staðar í fjárlögunum, þar sem um er að ræða lið, sem heitir fangamál, ýmis kostnaður. Og þar eru auk ýmiss almenns kostnaðar talin upp einstök viðfangsefni, svo sem fangaklefar lögreglunnar í Reykjavík, fangahús utan Reykjavíkur, bygging fangahúsa, bygging ríkisfangelsa og vinnuhæla, fangahjálp og eftirlit með afbrotamönnum, sjúkrakostnaður refsifanga o. s. frv. Einn þessi liður, eins og heyra má, er fangaklefar lögreglunnar í Reykjavík, þeir fangaklefar, sem ég minntist á fyrr í ræðunni og eru í lögregluhúsinu við Hverfisgötu. Þar er gert ráð fyrir því, að kostnaður af rekstri þessara fangaklefa, sem hingað til hafa verið reknir sameiginlega af ríkissjóði og borgarsjóði, verði 2 millj. 863 þús. kr. En á sama hátt og í hinu fyrra dæmi er gert ráð fyrir því, að á móti þessum kostnaði komi tekjur í ríkissjóð að upphæð 1431 þús. kr., þ. e. helmingurinn af þeim kostnaði, sem áætlaður er. Og hvaðan eiga þessar tekjur að koma? Þær eiga að koma, eins og í fyrra dæminu, úr borgarsjóði Reykjavíkur. Þarna er aftur gert ráð fyrir því, að þessir fangaklefar séu yfirteknir af ríkissjóði, án þess að nokkur greiðsla komi fyrir fasteignina sem slíka, en þeir séu áfram reknir sameiginlega af ríki og borg. En svo held ég áfram og þá kemur fram enn þá gleggra misræmi og það, sem ég var að leggja áherzlu á hér fyrst í ræðu minni, að það er ekki sama, hver á í hlut, þegar um er að ræða hagsmunamál hinna einstöku byggðarlaga. Það er nefnilega næsti liður í þessu, þar er talað um fangahús utan Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir því, að rekstrarkostnaður af þessum fangahúsum utan Reykjavíkur sé 500 þús. kr., og skiptir upphæðin ekki mestu máli í þessu sambandi. En það er hvergi gert ráð fyrir því í þessum fjárlögum, að það komi tekjur á móti. Það er ekki gert ráð fyrir því, að önnur sveitarfélög greiði þarna með sama hætti og Reykjavíkurborg. Eins og ég segi, það er ekki upphæðin, sem skiptir miklu máli, heldur hugsunin, sem býr að baki, og sú misbeiting, sem þarna er viðhöfð gagnvart borgarsjóði Reykjavíkur.

Þetta vildi ég láta koma hér fram. Ég held, að það fari ekki á milli mála, hversu mikið ósamræmi er í þessari löggjöf og þessum tillöguflutningi, og ég hlýt mjög að fordæma þessi vinnubrögð og þennan tillöguflutning.

Þetta var um fasteignir. Þá er líka í þessum frv., eins og ég hef rakið, gert ráð fyrir því, að ríkið taki yfir án nokkurrar greiðslu aðrar eignir, tæki og lausabúnað, sem hingað til hafa verið í vörzlum löggæzlumanna. Það má vera, að víða séu þetta ekki háar upphæðir og skipti ekki mjög miklu máli, enda fór svo í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, að með semingi var fallizt á, að þetta mætti í sjálfu sér kannske fara í gegn, þó að það væri hins vegar tekið fram, að þetta ákvæði eins og hið fyrra gæti varðað við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þannig að Samband ísl. sveitarfélaga setti ekki beinlínis fram gagnrýni eða mótmæli í beinni till. við þetta ákvæði, en vakti hins vegar athygli á, að það gæti vart staðizt, og þó að á því sé stigsmunur, þá er náttúrlega enginn eðlismunur á því, hvort um er að ræða fasteignir eða lausabúnað, þegar verið er að taka eignir sveitarsjóða og annarra aðila, án þess að fyrir það fáist greiðsla. Og eins og ég segi, þó að það séu ekki háar upphæðir eða mikill lausabúnaður víða um land, þá skiptir þetta þó nokkuð miklu máli fyrir Reykjavík og fyrir borgarsjóð. Ég vildi bara til dæmis, til þess að upplýsa þingheim um það, hvað hér er um að ræða, lesa upp lista, sem ég hef fengið um þær lögreglubifreiðir, sem eru í sameiginlegri eign ríkis og borgarsjóðs. Nú er þess að geta, að ríkisbifreiðir á vegum lögreglunnar munu vera 16 og 5 bifhjól. En lögreglubifreiðir, sem ríkið mun eiga 40% í, eru 15 og það eru, svo að ég gefi nokkra mynd af því, Willys jeppar, 12 manna Chevrolet bifreiðir og 5 manna Taunus bifreiðir, 7 manna Land Rover jeppi, 5 manna Volvo, 12 manna Chevrolet, 6 manna Plymouth, 12 manna Ford Transit, Willys jeppi, 7 manna Land Rover, 5 manna Taunus, 12 manna Chevrolet o. s. frv. Það má vera, að þetta séu smámunir í augum sumra og ástæða til þess að (BGuðn: Á ég ekki að lána þér Biblíuna, góði?) gera gaman að því, að ég hef ánægju af því, ef menn skemmta sér undir þessari ræðu minni, en þetta eru fjármunir, þetta eru eignir, og þó að það sé kannske hver út af fyrir sig ekki merkileg, þá eru það þó nokkuð miklir fjármunir, þegar saman kemur. Á þessu vil ég sérstaklega vekja athygli hv. 3. landsk. þm., sem hefur ekki meiri áhuga á hagsmunum Reykjavíkur en svo, að hann telur það vera verðugra verkefni hér í ræðustól að lesa upp úr öðrum ágætum bókum, sem ég skal ekki telja eftir mér, og ef hann vill útvega Biblíuna, þá er sjálfsagt að gera það líka hérna. Ég bíð þá bara eftir því hér í ræðustól. Samtals mun hlutur Reykjavíkurborgar í þessum tækjum, sem ég nefni hér af handahófi og eru bifreiðir, — en að sjálfsögðu er mikill annar lausabúnaður og tæki, sem eru í eigu lögregluyfirvalda, ríkis og borgar, og þurfa að afhendast ríkinu að kostnaðarlausu, — lauslega áætlaður um 6–7 millj. kr. á því verði, sem hægt er að meta þær í dag. Og það safnast þegar saman kemur, og það er að mínu viti ekki aðalatriðið, hversu háar upphæðirnar eru, heldur hugurinn, sem býr að baki þessum ákvæðum, og það er ekki meira tillit tekið til þessara sjónarmiða en það, að í grg. með þessu frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Segja má, að ákvæði þessara gr.“ — þ. e. 13. og 14. gr. — „séu að innihaldi til að mestu „gildistökuákvæði“, sem tíðkanlegra er að hafa í bráðabirgðaákvæðum aðgreint frá efni og greinatölu lagatexta. Hér þykir þó réttara að hafa á þeim þetta form, þar sem ýmsum atriðum ákvæðanna er ætlað að hafa gildisverkanir um óákveðinn tíma, í og með langt árabil.

Í 13. gr. er fjallað um viðtöku ríkisins á kostnaðargreiðslunni og greiðsluframkvæmd svo og um tilfærslu lögreglumanna, úr þjónustu sveitar- (og sýslu-) félaga í ríkisþjónustu, svo og ýmis atriði, sem þeirri breytingu er samfara. Um réttindi lögreglumanna til inngöngu í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og flutning á lífeyrissjóðsréttindum þarf ekki sérstök ákvæði, þar sem almenn lagaákvæði eiga við, til úrlausnar í því efni.“

Og áfram segir um 14. gr.:

„Í 14. gr. er fjallað um viðtöku ríkisins á þeim tækjum og búnaði, sem aflað hefur verið til lögreglunnar. Sýnist ekki eðlilegt, að til greiðslu komi af ríkisins hálfu vegna þeirrar viðtöku.“ Það er nú allt og sumt. Og áfram segir: „Sama á við um viðtöku ríkisins á afnotum af þeim fasteignum, sem ríki og sveitarfélög hafa sameiginlega lagt lögreglunni til. Meðan slíkt húsnæði er áfram notað til þeirra þarfa, sem það er ætlað til, sýnist ekki rétt, að greiðslur komi fyrir afnotin, þótt eignaraðild haldist hjá báðum.“

Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi þessi einstöku ákvæði, sem ég gerði hér að umtalsefni í þessu frv. til l. um lögreglumenn. Ég vék að því í upphafi ræðu minnar, að það væri fyllilega ástæða fyrir þá, sem væru umbjóðendur Reykvíkinga, að sinna þeim hagsmunamálum, sem snúa að Reykvíkingum, og í því skyni nefni ég þessi dæmi úr þessu frv., til að sýna fram á það tillitsleysi, sem Reykvíkingum er sýnt. En þetta tillitsleysi kemur að sjálfsögðu víðar fram, og hér í gær var til umr. frv. um Tækniskóla Íslands og þá kom nú till. frá einum stjórnarsinnanum um að vísa þessu stjfrv. frá, hversu mikið samræmi sem er í þeim vinnubrögðum, og það var á þeirri forsendu, að búið væri að skipa eina nefnd enn og sú nefnd átti að fjalla, eftir því sem sagði í þessari frávísunartillögu þessa hv. þm., um staðarval stofnana. Nú ætlaði ég í þeirri umr. að spyrjast fyrir um það, hvaða nefnd þetta væri, því að mér var ekki kunnugt um, að hún hefði verið skipuð, og ekki hefur verið frá því sagt hér á þingi. En frá því var sagt síðar, í fréttum útvarpsins í gærkvöld, að forsrh. hefði skipað þessa nefnd — og hverjir eiga sæti í nefndinni? Það var að mig minnir sjö manna nefnd undir formennsku félagsfræðings, en samsetning þessarar nefndar gefur mér tilefni til þess að taka það til umr. hér, því að í þessu efni eins og víða annars staðar kom enn fram tillitsleysi gagnvart Reykjavík. Það var enginn Reykvíkingur settur í þessa nefnd. Það má vel vera kannske, að einhver þeirra sé búsettur í Reykjavík, en hún var þannig samsett, að hún átti að spanna yfir hinar dreifðu byggðir, hún átti að taka tillit til sjónarmiða hinna einstöku byggðarlaga. Það var maður, sem átti greinilega að gæta hagsmuna Vestfirðingafjórðungs, annar, sem átti að gæta hagsmuna kjördæmanna fyrir norðan, enn annar, sem átti að gæta hagsmuna Austfjarða, og einn var frá Suðurlandi; en það var enginn, sem greinilega átti að gæta hagsmuna Reykjavíkur.

Þetta segi ég vegna þess, að Reykvíkingar eru alls ekki á móti því, að stofnunum sé dreift um landið, síður en svo, og það er jafnvel í þeirra þágu, að það sé gert oft og tíðum. En þessi nefndarskipun sýnir enn þá einu sinni það hugsunarleysi, sem ríkir hjá stjórnvöldum í garð Reykjavíkurborgar og þeirra aðila, sem þar eru staðsettir. Staðreyndin er auðvitað sú, að Reykvíkingar eru engir óvinir jafnvægis í byggð landsins, og það eru jafnmiklir hagsmunir fyrir þá, að hér sé ekki öllu holað niður, stóru og smáu, á þann veg að það sé bæði kostnaður fyrir borgarsjóð og höfuðborgin sjálf fái á sig þann ómaklega stimpil, að Íslendingar búi við eitthvert allsráðandi Reykjavíkurvald. Ef eitthvert Reykjavíkurvald er til, þá er það ekki fyrir tilstuðlan Reykvíkinga sjálfra né heldur er það vald í þeirra höndum. Það væri þá og er í höndum þeirra stofnana, stjórnkerfis og fjármálastjórnar, sem er hér staðsett í Reykjavík, utan við og án tillits til áhrifa eða stjórnar þeirra, sem málum ráða samkv. umboði Reykvíkinga sjálfra.

Þetta sjónarmið vildi ég láta koma hér fram, því að mér sem Reykvíkingi leiðist hin eilífa togstreita og hið sameiginlega kvörtunarhjal ýmissa fulltrúa dreifbýlisins gagnvart ofurvaldi Reykjavíkur. Ég mæli síður en svo gegn þeirri stefnu, sem nefnd er jafnvægi í byggð landsins, og ég vil minna á, að því hefur verið haldið fram með nokkuð góðum rökum, að það sé tvöfalt meiri kostnaður fyrir höfuðborgina að skapa aðstöðu fyrir hvern einstakling. Mig minnir, að það hafi verið nefndar tölur um það, að á meðan það kostaði á árunum 1956–1965 hér í höfuðborginni að staðsetja einn einstakling 200 þús. kr., þá er sá kostnaður miðað við áætlun til 1983 um 400 þús. kr., og sést bezt á því, að ekki getur verið þjóðhagslega hagkvæmt að vera að blása alltaf út og þenja út höfuðborgina, — síður en svo. Þess vegna tek ég öðrum þræði undir það, að stofnunum sé dreift út um land og að yfirleitt sé tekið meira tillit til Reykjavíkur og hagsmuna höfuðborgarinnar, því að eins og ég hef sýnt fram á í þeim dæmum, sem ég hef nefnt, hefur það ekki verið gert og mér þykir það miður. Þess vegna hef ég leyft mér með hv. 11. landsk. þm., Ólafi G. Einarssyni, og hv. 4. þm. Vesturl., Friðjóni Þórðarsyni, að flytja brtt. við þau ákvæði, sem ég hef hér gert að umtalsefni, þ. e. 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 14. gr. Og ég vænti þess, að þeir, sem vilja taka tillit til hagsmuna sveitarstjórna og eru í orði a. m. k. að fjalla um aukið sjálfsforræði byggðarlaga og aukna sjálfsstjórn sveitarfélaga, stuðli ekki að slíkri eignaupptöku eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv.