18.05.1972
Neðri deild: 86. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

237. mál, lögreglumenn

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hæstv. forsrh. hér áðan. Hann lét orð falla um nýsamþykkta till. að því er varðar yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík. Ég heyrði að vísu ekki nákvæmlega, í hverju útskýringar hans eða lögskýringar voru fólgnar, en þó skildist mér einna helzt, að hann ætlaði að láta þessa brtt. eins og vind um eyru þjóta. Ég held, að hæstv. forsrh. hafi ekki verið hér í hv. d., þegar umr. fóru fram um þetta mál rétt fyrir kl. 7 í gærdag, þar sem ég skýrði það frá mínu sjónarmiði. Ég skal fúslega viðurkenna, að til þess að þessi skipan komist á þarf á fleira að líta og fleiru að breyta en því, sem nú hefur verið gert. Ég vil þó alveg sérstaklega taka það fram, að frv. það, sem nýlega var hér á dagskrá í hv. d. og fjallaði um dómsmálastjórn í Reykjavík og fleira, laut að mínum dómi og flestra annarra, að ég hygg, eingöngu að því að leysa deilu- og kjaramál dómarafulltrúa og gera nokkra fulltrúa, aðallega hér á Reykjavíkursvæðinu, að sjálfstæðum dómurum, en breytti ekki skipan mála að öðru leyti.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, en vil aðeins benda á, að það liggja nú fyrir greinilegar yfirlýsingar í þessu máli frá hv. Alþ.

Fyrst og fremst þál., sem ég las upp hér í gær, frá 17. apríl 1968, sem alveg ótvírætt felur ríkisstj. að hlutast til um breytta skipan þessara mála og nú síðast brtt. sú, sem veríð er að ræða um og samþ. var hér áðan í hv. deild með 22:13 atkv. Þetta eru það ótvíræðar viljayfirlýsingar héðan frá hv. Alþ., að ég held, að ekki verði lengur staðið í vegi fyrir því að láta rannsaka og skoða þau atriði, sem lagfæra þarf til þess að koma yfirstjórn lögreglunnar í það horf, sem rætt er um bæði í áðurnefndri þál. og þeirri brtt., sem nú hefur verið samþykkt.