19.05.1972
Efri deild: 92. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

237. mál, lögreglumenn

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég skal að vísu viðurkenna það, að ég fylgdist ekki alveg með ræðu hv. síðasta ræðumanns varðandi breytinguna, sem gerð var í Nd. um yfirstjórn rannsóknarlögreglu. Ég var að grafa í skjölum og fylgdist ekki alveg með því, en þó skilst mér, að hann hafi haldið því fram eða látið í ljós þá skoðun, að þessi breyting skipti engu máli um það, sem er nú atriði þessa máls, hún hróflaði ekki við ákvæðum laganna frá 1961 að því leyti sem þau fjalla um þetta efni eða lögum frá í fyrra, sem voru nú, ef ég man rétt, aðallega varðandi fjölgun dómara við þetta embætti. Ég skal ekki fara út í neinar lögfræðilegar deilur við hv. þm., en ég vil samt láta það í ljós, að ég tel þessa túlkun vafasama, og ég tel, að það eigi að koma fram í þingtíðindum, að ekki hafi verið litið svo á, að þessi hv. þd. féllist algerlega á þessa túlkun með þögninni.