10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

276. mál, staðfesting Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fyrir skömmu talaði ég hér í hv. d. fyrir frv. að höfundalögum, 238. máli Nd. á þskj. 505.

Hér er lagt fyrir hv. deild frv. til l. um heimild ríkisstj. til handa til að staðfesta Bernarsáttmálann til verndar bókmenntum og listaverkum í þeirri gerð hans, sem samþykkt var á ráðstefnu Bernarsambandsríkja í París 24. júlí 1971. Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta mál. Frv. um heimild ríkisstj. til handa til að staðfesta Bernarsáttmálann í nýjustu gerð er í rauninni fylgimál frv. að höfundalögum. Ákvæði frv. að höfundalögum byggjast á þeirri gerð Bernarsáttmálans, sem gerð var á fundi í París og samþ. þar 24. júlí 1971. Það er því rökrétt, að jafnframt því, að sett séu höfundalög byggð á þessari nýjustu gerð alþjóðasáttmálans, sé ríkisstj. heimilað að staðfesta þá gerð sáttmálans sjálfs. Áður var af Íslands hálfu viðurkennd sú gerð sáttmálans, sem samþykkt var í Róm 2. júní 1928, og hún hefur gilt hér á landi frá því að Ísland gekk í Bernarsambandið árið 1947. Síðan hefur sáttmálanum verið þrívegis breytt og sú gerð hans, sem hér er lögð fyrir, er sú gerð, sem samkomulag varð um á þriðja endurskoðunarfundinum.

Tekið er fram í 1. og aðalgrein þessara laga að gera má þá fyrirvara um einstök ákvæði og þær takmarkanir varðandi aðild, sem ríkisstj. þykir við eiga og heimilt er að gera samkvæmt sáttmálanum. En eftir að sáttmálinn hefur verið staðfestur, skulu þau ákvæði hans, sem Ísland er við bundið, og þá sérstaklega og að sjálfsögðu þau, sem leidd eru í lög, ef að lögum verður frv. að nýjum höfundalögum, hafa lagagildi hér á landi frá þeim tíma, sem ríkisstj. ákveður.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.