02.12.1971
Efri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil byrja með því að lýsa ánægju minni með þá samstöðu, sem hefur náðst um mál þetta, og mun ég ekki verða til þess að rjúfa hana. Engu að síður vildi ég gera grein fyrir nokkrum sjónarmiðum mínum, áður en ég greiði atkv. með þessu frv.

Ég er út af fyrir sig hlynntur því að stytta vinnuvikuna, ef styttingin er raunhæf. Ég tel hins vegar nokkuð vafasamt að láta að því liggja, sem mér sýnist, að álykta megi af frv. þessu og ýmsu, sem í því sambandi hefur verið sagt, að við Íslendingar getum sætt okkur við að vinna jafnvel skemmri vinnutíma en þær þjóðir, sem iðnvæddastar eru, þjóðir, sem hafa framleiðni langtum meiri en við, þjóðir, sem hafa jafnvel tvöfalda þjóðarframleiðslu á við okkur. Satt að segja tel ég ekkert athugavert við það, þótt við Íslendingar verðum að una eitthvað lengri vinnutíma en ýmsar þjóðir. Við höfum fyrir miklu að vinna, m. a, okkar ágæta landi, landi, sem hlýtur að vera nokkuð dýrt fyrir fámenna þjóð.

Einna mikilvægast tel ég þó, að stytting vinnuvikunnar verði raunhæf, að hún leiði ekki til þess, að aukin yfirvinna hljótist af. Vil ég í því sambandi leggja áherzlu á þær upplýsingar, sem komu fram áðan hjá hv. frsm. um takmörkun á yfirvinnutíma, sem aðrar þjóðir hafa hjá sér. Vil ég gjarnan beina því til þeirra, sem um þessi mál fjalla, að slíkt verði athugað hjá okkur.

En ég tel einnig í þessu sambandi afar mikilvægt, að þeim, sem hljóta styttri vinnutíma, sé gert kleift að njóta þess á skynsamlegan máta, t.d. við útiveru í okkar ágæta landi eða við menntun, t.d. endurmenntun og þess háttar. Virðist mér þar víða vera pottur hrotinn og ástæða til þess að herða róðurinn eilítið á því sviði.

Mér virðist að ýmsu leyti mjög eðlilegt, að samanburður sé gerður við aðrar vinnandi stéttir, t.d. við opinbera starfsmenn. Og ég sé enga ástæðu til þess að vinnutími þeirra sé styttri en vinnutími annarra. Að því leyti er ég samþykkur þessum samanburði. Ég fagna því jafnframt, sem kom fram hjá hv. frsm., að í þeim samningum, sem nú fara fram, mun verða tekið tillit til þess, að kaffitími opinberra starfsmanna er nokkru styttri en verið hefur hjá svokölluðum erfiðisvinnumönnum, sem hann hefur nefnt svo, og ekki verður seilzt þar lengra.

Hins vegar skal ég gjarnan upplýsa, að þegar ég fyrir mitt leyti í málefnasamningi samþykkti 40 vinnustundir á viku, gerði ég ráð fyrir, að það yrðu unnar stundir. Ég upplýsi þetta vegna þeirrar spurningar, sem kom fram áðan. Ég hef þó ekki séð ástæðu til þess að gera aths. við þetta út af fyrir sig, því að önnur stétt, sem ég hef nefnt, opinberir starfsmenn, hefur minna en 40 unnar stundir. Mér sýnist hins vegar full ástæða til þess að taka þessi mál öll til endurskoðunar. Ég fyrir mitt leyti tel skynsamlegt markmið að vinna 40 stundir, en þær séu þá allar unnar.

Hins vegar vil ég gera nokkrar aths. við annan samanburð, sem hér hefur verið gerður við opinbera starfsmenn. Annars vegar er talað um erfiðisvinnumenn og hins vegar skrifstofumenn. Ég leyfi mér að efast um þann samanburð, sem í þessu felst. Ég er mjög efins um það, að stúlka, sem situr allan daginn við ritvélina og hefur bæði líkamlega og andlega áreynslu, hafi minna erfiði en maðurinn, sem er við skófluna. Satt að segja efast ég um, að ýmsir þeir menn, sem t.d. standa í kennarastöðu allan daginn, eða menn, sem sitja á fundum allan daginn, hafi raunar minna erfiði, og grunar mig, að heilbrigðisskýrslur sýni það, að heilsa þeirra sé siður en svo betri en hinna, sem erfiðisstörfin vinna. Ég harma því, þegar verið er að skapa þannig einhvern mismun á milli þessara stétta. Svo megum við minnast þess, að sem betur fer hefur tæknin haldið innreið sína í þetta land í vaxandi mæli, og það eru færri og færri menn, sem vinna erfiðisvinnu með skóflu og haka. Flestir eru komnir á vélar.

Eins og ég sagði áðan, mun ég greiða þessu frv. atkv. mitt, ég geri það ekki sízt með tilliti til þess, að hér er stefnt að nokkru jafnrétti, meira en verið hefur í þessu þjóðfélagi. Einnig geri ég það í trausti þess, að frv. stuðli að lausn þeirrar kjaradeilu, sem nú stendur yfir. Ég vil jafnframt leggja áherzlu á það, að vinnulöggjöfin verður að þessu leyti öll tekin til endurskoðunar, m.a. vinnutími sjómanna og fjölmargra annarra stétta, sem þessi löggjöf nær ekki til.