18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við höfum leyft okkur fimm þm., einn úr hverjum þeirra þingflokka, sem sæti eiga á Alþ., að flytja skriflega brtt. við þetta mál.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fyrir alllöngu var tekinn upp sá háttur varðandi veitingu Alþ. á íslenzkum ríkisborgararétti til útlendinga að gera þeim að skyldu að leggja niður nafn sitt, en taka upp íslenzkt nafn í staðinn. Frá upphafi hefur þetta verið deilumál bæði innan þings og utan. Þegar fyrir nokkrum árum var skipuð nefnd til að endurskoða íslenzk mannanafnalög, sem eru orðin gömul og að ýmsu leyti úrelt, þá skoðaði nefndin það eitt af hlutverkum sínum að finna lausn á þessu viðkvæma vandamáli. Hér er sannarlega um viðkvæmt vandamál að ræða. Útlendingar, sem fengið hafa fullan og eðlilegan rétt á íslenzkum ríkisborgararétti, hafa orðið að segja skilið við fjölskylduættarnafn, og hefur þeim mjög mörgum reynzt það afar viðkvæmt mál. Mannanafnanefndin, sem starfar undir forustu Klemens Tryggvasonar hagstofustjóra og í áttu sæti valinkunnir menn, fræðimenn á þessu sviði, svo sem Ármann Snævarr fyrrv. háskólarektor og Einar Bjarnason prófessor, þessi fimm manna nefnd var á einu máli um till. um lausn á þessu vandamáli og sú till. er í mannanafnafrv., sem hefur tvívegis legið fyrir hinu háa Alþ., en fær ekki heldur afgreiðslu núna, engan veginn vegna ágreinings um þetta atriði, heldur önnur atriði, sem valda því, að rétt er talið að láta málið bíða til næsta þings. En einróma till. höfunda mannanafnalöggjafarinnar er sú, að skyldan til nafnbreytingar skuli ekki taka til annarra en barna þeirra, sem hljóta íslenzkan ríkisborgararétt, barna þeirra 17 ára eða yngri. Hins vegar skuli fullorðið fólk fá að halda ættarnafni sínu, sínu erlenda nafni til æviloka. Jafnframt er það hins vegar tryggt, að afkomendur þeirra hljóti íslenzk nöfn í samræmi við væntanlega mannanafnalöggjöf og íslenzkar venjur á þessu sviði. Þessi hugmynd virðist vera mjög skynsamleg og sanngjörn málamiðlun í mjög viðkvæmu og vandasömu máli. Fullorðnu fólki er ekki skylt að segja skilið við hluta af sjálfu sér, því nafn hvers manns, sem honum hefur verið gefið í bernsku, er gjarnan með eðlilegum hætti skoðað sem hluti af manninum sjálfum af persónu hans. M. ö. o.: það er ekki gengið á rétt nokkurs manns í þessu efni, að fá að halda því nafni, sem foreldrar hafa gefið manni í æsku. Hins vegar er það tryggt, að ekki ílendast hér erlend nöfn, þar eð börn slíkra útlendinga innan 17 ára eiga að taka sér íslenzkt nafn og ófædd börn, þegar ríkisborgararétturinn er veittur, eiga að sjálfsögðu að lúta íslenzkum mannanafnalögum.

Við flm. fimm höfum leyft okkur að taka upp till. mannanafnanefndar algjörlega óbreytta og leggjum til, að í stað skyldunnar til nafnbreytingar komi þessi takmarkaða skylda til nafnbreytingar inn í frv. samkvæmt einróma till. mannanafnanefndar.

Því er ekki að leyna, að það, sem sérstaklega hefur vakið athygli á nauðsyn þessarar breytingar núna, er það, að meðal umsækjenda um íslenzkan ríkisborgararétt er heimsfrægur útlendingur, Vladimir Ashkenazy píanóleikari, sem gert hefur Íslandi og Íslendingum þann ótvíræða og mikla sóma að sækjast eftir íslenzkum ríkisborgararétti og ætlar sér þar með að ferðast um heiminn framvegis sem íslenzkur ríkisborgari og þar af leiðandi auðvitað á íslenzku vegabréfi. En ef slík breyting sem þessi væri ekki gerð, ef gamli hátturinn væri enn á hafður, — sem ég tel raunar víst að hvort sem er mundi vera breytt á næsta þingi með nýjum mannanafnalögum, — ef gamli hátturinn væri enn á hafður, þá væri Vladimir Ashkenazy skylt að breyta nafni sínu og væntanlega í nafnið Valdimar Davíðsson. Ef hann ekki vildi fallast á, að nafnið Valdimar Davíðsson væri fært inn í vegabréf hans, — faðir hans heitir Davíð og þetta væri þá sá eðlilegi háttur, sá háttur sem hingað til hefur verið á framkvæmdinni,— ef hann vildi ekki fallast á að ferðast um heiminn undir nafninu Valdimar Davíðsson, yrði hann ekki íslenzkur ríkisborgari, þá fengi hann ekki íslenzkan ríkisborgararétt.

Ég fjölyrði ekki um þetta. Ég vona, að öllum sé ljóst, hversu fáránlegt það væri, ef íslenzk yfirvöld gerðu þá kröfu til Vladimir Ashkenazy, að hann skírði sig um og sætti sig við nafnið Valdimar Davíðsson í sínu vegabréfi. Ég vona, að hv. Alþ. beri gæfu til þess að koma í veg fyrir, að jafnfrábærum manni og víðkunnum listamanni eins og hann er sé gert að skyldu að gera slíkt, eða þá að öðrum kosti að verða að hafna því að verða íslenzkur ríkisborgari, sem hann þó hefur sótzt eftir að verða.

Ég skal gjarnan lesa till. Ég gerði það nú ekki áðan, til þess að lengja ekki mál mitt, af því að ég gerði ráð fyrir, að þm. væri kunnugt um mannanafnafrv., sem legið hefur tvívegis fyrir hinu háa Alþ., einnig fyrir þessu Alþ„ en ég skal með ánægju verða við óskum hæstv. forseta um að lesa till. Hún er orðrétt eins og gr. er í mannanafnafrv.

„Nú fær maður, er heitir erlendu nafni, íslenzkt ríkisfang með lögum, og skulu þá börn hans, 17 ára og yngri (sbr. 3. málsgr. 6. gr. laga nr. 100/ 1952), taka upp íslenzkt eiginnafn og kenninafn, sem samþ. er af dómsmrn. Slík nafnbreyting skal ákveðin samtímis því, að rn. gefur út bréf um, að hlutaðeigendur öðlist íslenzkt ríkisfang. Barni, sem fæðist eftir að foreldri þess hefur fengið íslenzkt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenzkt eiginnafn, og það skal fá íslenzkt kenninafn.“ (Gripið fram í.) „Ákvæði 1. mgr. taka á hliðstæðan hátt til útlendinga, sem fá íslenzkt ríkisfang samkvæmt 2.–4. gr. laga nr. 100/1952.“

Ef óskað er upptöku íslenzks ættarnafns í sambandi við nafnbreytingu samkv. ákvæðum þessarar gr., leitar dómsmrn. samþykkis mannanafnanefndar og hefur að öðru leyti samráð við hana, eftir því sem við á um framkvæmd á þessari gr.

Þannig er gr. efnislega séð eins og ég lýsti henni í upphafi. Till. þessi er í prentun og verður henni væntanlega útbýtt meðal þm. á hvaða stundu sem er, en ég flyt hana skriflega, því að hún er ekki komin úr prentsmiðjunni.