18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér skilst, að þessi brtt., sem hér hefur verið flutt, sé að nokkru leyti fram komin vegna þeirrar sérstöðu, sem ég tel að einn af umsækjendum um ríkisborgararétt hafi, Vladimir Ashkenazy. Ég vil segja það, að hvort sem þessi brtt., sem hér liggur fyrir, verður samþ. eða ekki, þá mun ég, ef til minna kasta kemur, ekki gera kröfu til þess, að Ashkenazy þurfi að skipta um nafn, þó að hann verði íslenzkur ríkisborgari. Hann er, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, heimsþekktur. Nafn hans er heimsþekkt og nafn hans er þekkt og tamt öllum á Íslandi. Ég mun því, hvað sem öllum lagabókstaf kynni að líða, fara í þessu efni eftir heilbrigðri skynsemi og ekki krefjast nafnbreytingar.

Ég skal annars ekkert fara út í deilur almennt um þessa brtt., sem hér liggur fyrir. Það er eins og hv. þm. sagði, þetta er gamalt deilumál og ég vil nú efast um, að það sé rétt af Alþ., svona að mjög lítið athuguðu máli og á næstsíðasta degi, að fara að breyta almennt um stefnu í því, þar sem líka nafnalög hafa legið fyrir og liggja fyrir og gert er ráð fyrir því væntanlega, að þau fái afgreiðslu á síðari þingum, vegna þess að flestir eru sammála um, að það þurfi að verða einhverjar breytingar á þeim. En það, sem ég vildi aðeins láta koma fram, er þessi yfirlýsing mín, að því er tekur til þessa eina manns.