18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst sem formaður allshn. þessarar hv. d., en eins og þm. er kunnugt, tók frv. þetta breytingum í Ed. Þangað bárust fjórar umsóknir til viðbótar og voru þær samþ. þar, svo sem þskj. 887 ber með sér. Allshn. þessarar hv. d. hefur skoðað þessar umsóknir og gengið úr skugga um, að umsækjendur fullnægja settum skilyrðum. Allshn. mælir því með því, að frv. verði samþ.

Úr því að ég er komin í ræðustólinn, langar mig að tjá mig aðeins um það, sem hér hefur verið til umr. í sambandi við 2. gr. frv. Það er að vísu nokkuð langt síðan ég las frv. til l. um mannanöfn, en eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, þá varð ágreiningur í nefndinni, sem samdi þetta frv., um, hversu haga skyldi skilyrðum, sem erlendum mönnum væru sett í þessu tilliti. Prófessor Ármann Snævarr lagði til að erlendum ríkisborgurum yrði skylt að taka upp íslenzkt eiginnafn einmitt til þess að börn þeirra gætu borið íslenzkt kenninafn. Ég er sammála þessari skoðun Ármanns Snævars og mun greiða atkv. með brtt. hv. 5. þm. Reykv., til þess að þm. geti skoðað þetta mál betur, en ég vil þó benda á, að mér þykir tilhlýðilegra, að allshn. fái tækifæri til þess að skoða þessar till., áður en þær verða bornar undir atkv.