18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það var sízt af öllu ætlan mín að móðga hv. þing með yfirlýsingu minni. Ég var svo barnalegur að halda, að allir alþm. mundu verða eða vera þeirrar skoðunar, að þannig ætti að beita þessum ákvæðum gagnvart þessum tiltekna manni. Ef það kæmi fram, að meiri hluti alþm. væri því andvígur, dytti mér ekki í hug að fara að andstætt þeim vilja alþm. Ég vil nú ekki einu sinni skilja hv. síðasta ræðumann svo, að hann sé andvígur efnislega því, sem ég lét í ljós.

Hv. 5. þm. Reykv. hneykslaðist á lögskýringu minni. Það má vel vera, að hún geti verið einhverjum hneykslunarhella. En ég er nú samt alveg ósmeykur við það, að þó ég framkvæmdi þessi lög á þennan veg, mundi ég sízt af öllu verða brotlegri en margir fyrirrennarar mínir hafa orðið í sambandi við mannanafnalög. Því að sannleikurinn er sá, sem allir vita, að mannanafnalög hafa ekki verið framkvæmd hér á þann hátt, sem bókstafur þeirra stendur til. Það hefur verið farið í kringum það og látið þegjandi viðgangast, að menn brytu þau, ættlið eftir ættlið jafnvel. Þannig væri það engin ný bóla, þó að þessi lög væru túlkuð frjálslega, og það gæti ég gert með góðri samvizku, þegar stæði svo á sem hér. Annars verð ég að gera þá játningu, að mér hafði hreinlega sézt yfir brtt. hv. 5. þm. Reykv. Að sjálfsögðu tel ég það betra að fá slíka heimild berum orðum fyrir dómsmrh„ og þess vegna mæli ég út af fyrir sig með því, að hún verði samþ.

Ég vil nú biðja menn að athuga það, hvort þeir geti ekki úr því sem komið er og um þetta viðkvæma deilumál sætzt á það að afgreiða málið með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í brtt. hans, að dómsmrh. fái heimild til undanþágu frá þessum ákvæðum. Mér er það ljóst, að það er ekki lausn á vandanum, af því að það má segja, að taka eigi að meginstefnu til afstöðu til þessa. Sannleikurinn er sá, að það hefur Alþ. gert æ ofan í æ, þing eftir þing, og staðið fast á því að halda í þetta ákvæði, sem er í 2. gr. í ríkisborgararéttarlögunum.

En sem sagt, ég teldi það nú athugandi, ef n. tekur þetta mál til athugunar, hvort hún gæti ekki náð samkomulagi um það að afgreiða málið með þeim hætti, sem segir í till. hv. 5. þm. Reykv., og það væri hægt að afgreiða þetta mál þar af leiðandi á þinginu, en annars gæti því náttúrlega verið stefnt í tvísýnu, ef hér yrði málþóf um þessi efni.