02.12.1971
Efri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp til að mótmæla því, að ég hafi talað gegn þessu frv., eins og síðasti ræðumaður hélt fram. Ég skal endurtaka það, sem ég sagði um það mál, með leyfi forseta: Eins og fram kemur í nál. á þskj. 136 styð ég frv. með þeirri breyt., sem þar er lögð til. Ég tel þetta sanngirnismál, þar sem stór hópur opinberra starfsmanna fékk með samningum, sem þeir gerðu við fyrrv. ríkisstj., styttan vinnutíma. Ég drap einnig á það, að ég hefði heyrt það á flokksbræðrum mínum í launþegasamtökunum, að verkalýðshreyfingin, launþegasamtökin, setti þetta sem svo sterka kröfu á oddinn nú, en gerði sér um leið grein fyrir því, að samhliða því að fá styttan dagvinnutíma yrði ekki gerð krafa um jafnmikla kauphækkun.

Ég vék hins vegar nokkuð að atriðum, sem ég tel málinu skyld, þ.e.a.s. þeim vinnubrögðum, sem núv. stjórnarliðar beittu, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, þ.e.a.s. að efna til úlfúðar milli aðila vinnumarkaðarins. Má vera, að þetta hitti þá sjálfa nokkuð í dag. Ég vakti athygli á því, að jafnvel þó að þeir beri ábyrgð á framkvæmd mála, þá gera aðalmálgögn þessara flokka sig sek um það að auka fremur á úlfúð og tortryggni milli þessara aðila á einmitt víðkvæmustu stundum samningatímabilsins. Ég tel, að það sé vel þess vert að vekja athygli á þessum vinnubrögðum, þegar verið er að ræða um mál eins og þetta. Ég held, að það sé miklu fremur æskilegt, að við stuðlum að því, hvort sem við erum í stjórnarliði þetta árið eða stjórnarandstöðu, að efla skilning milli þessara aðila og eyða tortryggni. Ég held, að það verði okkar þjóð til farsældar í framtiðinni, og legg ríka áherzlu á þessi lokaorð mín, að ég held, að það sé nauðsyn, að við finnum upp önnur vinnubrögð til þess að leysa kjaramál á Íslandi en verið hafa hjá okkur fram að þessu.