18.05.1972
Neðri deild: 87. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Um nokkurt árabil átti ég sæti í allshn. þessarar hv. d. og það mun hafa komið fram, sem ég þó harma að hafa ekki getað hlustað á, það mun hafa komið fram frá fyrrv. form. þeirrar n., hv. 2. þm. Vestf„ að þá hafi þetta mál verið ítarlega rætt í þessari n. oft og tíðum, og m. a. mega þeir þm. muna það, að ég tel að það frv., sem hér hefur nokkuð oft verið vitnað til, sé m. a. til orðið vegna ábendingar allshn. þessarar d. á sínum tíma um það, að breytinga væri þörf á þeim lagaákvæðum, sem giltu um íslenzk mannanöfn, þegar um væri að ræða ríkisborgara erlenda, sem fengju íslenzkt ríkisfang. Nú skal ég viðurkenna það fúslega, að vegna þess að þetta frv. hefur ekki verið hér efnislega til umr., hef ég ekki kynnt mér það heldur svo sem skyldi, en þó er mér engin launung á, eins og ég hef áður gert grein fyrir hér í hæstv. d., að mín skoðun er sú fyrst og fremst, að þessum lögum þurfi að breyta. Í öðru lagi eigi ekki að svínbeygja svo þá aðila, sem óska eftir íslenzku ríkisfangi, að þeir skuli sem miðaldra eða aldraðir menn gangast undir þær kvaðir, sem núgildandi lög okkar kveða á um. Hins vegar hef ég talið persónulega, að þegar komi t. d. aftur í 2. lið, skuli þær kvaðir, sem þar getur um, ná yfir afkomendur þeirra. Þess vegna hef ég talið og tel í sambandi við þá brtt., sem hefur komið fram frá allshn. d., þegar talað er um, að börn viðkomandi aðila skuli taka sér íslenzk nöfn, þá hef ég talið nægjanlegt, að um fornöfn væri að ræða, þannig að þegar að því kemur, að þessir aðilar, sem hafa þá tekið sér íslenzkt ríkisfang og gerzt íslenzkir ríkisborgarar, að þegar þeir hinir sömu eignast hér afkvæmi á Íslandi, þá sé markmiði okkar laga eins og þau hljóða í dag fullnægt.

Þar utan vil ég nota tækifærið til að taka undir síðustu orð hv. frsm. n., og það er þetta stóra atriði sem ég vildi einmitt koma að, sem hvorki þeir aðilar, sem vitna til þessa frv., sem liggur fyrir hæstv. Alþ., né reyndar þeir, sem hér hafa rætt um þetta mál í dag, hafa gert sér grein fyrir, og það er auðvitað íslenzka konan. Ég fæ ekki séð, — þetta er um þær till., sem hér hafa komið fram í sambandi við það, að eignist íslenzk kona barn með útlendingi, án þess að hann óski nokkurn tíma eftir að gerast íslenzkur ríkisborgari, sem því miður gerist oft undir þeim kringumstæðum, þá fæ ég ekki séð, hvernig sú kona ætti samkvæmt mannanafnalögunum að feðra barn sitt. Hún yrði annaðhvort að skíra það í höfuð föður síns eða sjálfrar sín, og ef hún ætti son, þá ætti hann að vera Guðrúnarson, Ragnhildarson, Svövuson eða eitthvað þess háttar, sem mörg dæmi eru um að vísu í íslenzkum fornsögum. Ég tel þetta mjög óæskilegt, þannig að þegar við horfum á þau mörgu vandkvæði, sem koma upp í sambandi við þetta mál þá auðvitað ættum við og ég tel skynsamlegast að fylgja þeirri brtt., sem hv. 5. þm. Reykv. flutti hér í dag, einfaldlega til þess að losa okkur út úr þessum vanda í sambandi við mannanafnalöggjöfina í heild, til þess að við þurfum ekki að fara að skera út úr henni einhver ákveðin atriði, án þess að gera okkur grein fyrir málinu í heild.

Hitt er annað mál að ég er mjög ósammála þeim hv. þm. í sambandi við hans tal og reyndar líka flm. þeirrar till., sem kom fram þar á undan, till. þeirra fimmmenninganna. Það hefur verið vitnað til hins heimsfræga borgara og snillings Valdimars Davíðssonar Ashkenazy og það hefur verið rætt um það af frsm., að mjög óæskilegt væri að bjóða slíkum mönnum eða slíkum manni slíka afarkosti. Þetta er hárrétt. Ég tel hins vegar um leið og við höfum í huga, að við erum að fá þarna mjög æskilegan ríkisborgara og við erum líka um leið að styðja það, sem hann hefur barizt kannske mest fyrir á undanförnum árum, — hann er að leita sér ríkisfangs í landi, þar sem hann þarf ekki að búa við það, sem hann hefur þurft að búa við í sínu heimalandi, — ég tel, að um leið og slíkur maður óskar eftir því að öðlast ríkisfang í landi eins og okkar, þá megi hann líka nokkru til fórna og geti jafnvel gengið undir þau hin íslenzku lög, sem við höfum búið til hér á Alþ., þótt við hins vegar viðurkennum að þeim sé í mörgu ábótavant og við þurfum að breyta þeim. En ég skal aldrei viðurkenna það, sem kom fram hjá hv. flm. till., þótt ég viðurkenni sjónarmiðið vegna þess, að um er að ræða heimsfrægan listamann, að slíkt átak og slíkir afarkostir geti ekki alveg eins gilt fyrir færeyskan sjómann, sem biður um íslenzkt ríkisfang, eins og heimsfrægan píanóleikara. Ég tel að afarkostirnir séu þeir sömu fyrir alla þessa aðila, og þess vegna eigum við að breyta þeim. Ég er hins vegar sannfærður um það, að við eigum ekki að hlaupa til og fara að breyta þeim nú á síðustu dögum þingsins eða kannske síðustu klukkustundunum eða síðustu dögunum, ef guð lofar og vel tekst til um umr. um húsnæðismál. Þess vegna eigum við frekar að taka undir þá till., sem kom fram frá hv. 5. þm. Reykv., og samþykkja þá till., en þeir, sem hingað eiga þá afturkvæmt að hausti, að þeir þá heiti því með sjálfum sér og þ. á m. við, sem erum stödd í d. og hingað eigum afturkvæmt, að taka þetta mál fyrir til gagngerðrar endurskoðunar og samþykktar á næsta þingi.