02.12.1971
Efri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Eftir að hafa séð það, að hv. n. skilar óklofin nál. um frv. um styttingu vinnuvikunnar í 40 stundir, og hafa heyrt það, að fulltrúar allra flokka hér leggja til, að frv. verði samþ., eins og n. gengur frá því, þá hef ég fyrst og fremst það erindi hingað í ræðustól að þakka fyrir mjög rösklega og myndarlega afgreiðslu málsins og þakka þann einhug, sem málið hefur mætt hér í hv. d. Þótt það hafi að vísu verið svolítill tvísöngur í ræðuflutningi hér í dag, ýmiss konar andmæli höfð uppi gegn bæði vinnubrögðum við framgang málsins og frv. sjálft, en ræður síðan endað með meðmælum með frv., þá set ég það ekki svo mjög fyrir mig. Það er eins og þegar Biblían bögglast eitthvað fyrir brjósti manna, sem hafa lært hana skyndilega.

Það hefur verið rætt hér aðeins um upphaf málsins, að það hafi verið ótilhlýðilegt af ríkisstj. að fara að lýsa yfir stefnu varðandi þessi málsatriði vinnumarkaðarins.

Upphafið er ekki þetta, eins og hv. frsm. n. gat um. Á Alþýðusambandsþingum, þing eftir þing, höfðu verið bornar fram till. og þær samþykktar þar um vinnuvernd og ákvörðun vinnutímans með löggjöf, eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Vinnutíminn er alls staðar hjá þeim lögfestur í vinnuverndarlöggjöf. Og það var einmitt í umboði Alþýðusambandsþinga, sem ég sem forseti sambandsins bar fram, ekki bara einu sinni, eins og hér var vikið að áðan, heldur margsinnis með mönnum úr ýmsum flokkum, einnig úr Sjálfstfl., … (Gripið fram í.) Já, það mun hafa verið þetta síðasta, sem ég flutti. Og þar var sérstakur kafli í þeirri vinnuverndarlöggjöf um vinnutímann, og rétt er það, að þar stendur, að við gerðum þá ekki meiri kröfu en viðurkenningu á 40 stundum unnum. Og hvað þýðir það? Eftir íslenzkum venjum um langt, langt árabil er viðurkenndur vinnutími á Íslandi að meðtöldum kaffitímunum greiddur, það er hinn greiddi vinnutími, sem þarna er átt víð. Atvinnurekendur hafa viðurkennt hér vinnutímann að meðtöldum kaffitímum og greiða fyrir kaffitímann. Það er greiddi vinnutíminn, sem þarna var farið fram á að yrði 40 stundir, þ.e.a.s. 40 stunda vinnuvika, eins og frv. ber með sér. Þar að auki voru svo ákvæði um það í þessu vinnuverndarfrv. okkar, að ef vinna væri sérstaklega hættuleg eða erfið, þá skyldi vinnutíminn fara niður í 36 stundir, og voru sérstök ákvæði um það í frv. Meðflm. höfðu verið úr Alþfl., úr Framsfl. og úr Sjálfstfl. að þessum frv. á ýmsum stígum, svo að málið var búið að vera á dagskrá hjá verkalýðshreyfingunni og fá undirtektir hjá fulltrúum allra flokka innan verkalýðssamtakanna, þegar ríkisstj. góðu heilli lýsti yfir því, að hún tæki undir þessa stefnu verkalýðssamtakanna. Og það get ég ekki séð, að hafi verið brot gegn einum eða neinum né óhyggilegt, því að þetta var búið að vera lengi á dagskrá og þannig undirbúið í verkalýðshreyfingunni sjálfri. Það voru allir á því á s.l. hausti, að það væri samt bezt að reiða ekki lagasverðið að þessu máli til þess að afgreiða það, heldur hafa málið í höndum fulltrúa vinnumarkaðarins á samningaborðinu og freista þess, hvort þeir gætu komið sér saman um málið í heild eða einstök atriði þess, einstaka þætti þess, og nú hefur þetta gerzt. Með fullu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins var málið undirbúið af n. frá þessum aðilum, og þeir hafa komizt að niðurstöðu um það, að vissa þætti málsins vilji þeir hafa í sínum höndum innan settrar rammalöggjafar. Þannig hefur verið farið bil beggja í málinu, að það eru að vísu sett eðlileg vinnuverndarlagaákvæði, mjög rúm, en aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um ýmsa þætti málsins, sem samrýmast þessu frv. En allir vissu frá upphafi samninganna nú í haust, að endanlega yrðu þessi lok málsins, að hér yrði 40 stunda vinnuvika, og þessi vitneskja kom því í veg fyrir tafir í samningum áreiðanlega, en olli ekki drætti í samningunum. Hér er því áreiðanlega ekki verið að taka fram fyrir hendur samningsaðilanna. Það er algerlega rangt. Það er verið að taka í höndina á samningsaðilunum, og það ber ekki að harma af neinum þeim, sem fylgja svo málinu endanlega.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan, að það er sjálfsagt hollt að gera sem allra minnsta aðgreiningu á tegundum starfa í þjóðfélaginu og meta þau nokkurn veginn jafnt. En það hygg ég þó, að það sé rökrétt, að eftir því sem störf eru unnin við erfiðari aðstæður eða útheimta meira líkamlegt þrek og erfiði, eftir því sé eðlilegt, að vinnutíminn við þau störf sé styttri en við þau önnur störf, sem auðveldara er að vinna, útheimta minni líkamsorku og eru framkvæmd við hina beztu aðstöðu. Ef gera á mismun um vinnutíma við störf eftir eðli þeirra og aðstöðu, þá hygg ég, að við séum sammála um það, að svo framarlega sem nokkurn mismun á þarna að gera, þá eigi vinnutíminn að vera styttri við þau störfin, sem erfiðari eru og við erfiðari skilyrði framkvæmd, en ekki öfugt, eins og komið var nú, þegar samið hafði verið um styttingu vinnutímans hjá skrifstofufólkinu, verzlunarfólkinu, 40 stundir á viku, en var lengri hjá fólkinu, sem erfiðisstörfin vinnur í þjónustu framleiðslunnar. Þetta misræmi bar að leiðrétta, og þetta er þingheimur nú eiginlega sammála um að leiðrétta, og fyrir það er ég mjög þakklátur.

Hv. 3. þm. Reykn. staðnæmdist mjög við 1. gr., þau atriði, að þarna næði löggjöfin ekki til allra. Ég veit, að þessi þáttur ræðu hans hefur eingöngu verið hugsaður sem áróðurspistill, en þetta hefur ekki komið mjög frá hjarta hans. Hann veit alveg eins og við öll, að það væri ekki neitt vit í því að lögbinda, að sjómenn skyldu vinna bara 40 stundir á viku, hvernig sem stæði á um aflabrögð, og hann mun ekki hafa látið sér detta í hug, þó að hann héldi, að þetta kæmi við taugar manna, að koma með brtt. í þá átt. Ef hann hefði talið þetta framkvæmanlegt, þá hefði hann komið með brtt. um það. (AJ: Það er ekki hægt að banna að vinna meira en 40 stundir.) Nei, nei, ekki banna að vinna, nei, nei. En til hvers er að setja það, þar sem menn vita, að ekki er hægt að framkvæma það að hafa 40 stundir sem viðurkennda vinnuviku? Ef hann hefði getað komið með eitthvert form þarna inn í frv., þá er ég viss um, að hann hefði gert það. Ef hann hefði t.d. viljað fara inn á svipaða braut og með yfirvinnu- og næturvinnukaup fólks í landi og segja: „Sjómaður, sem hefur unnið 40 stundir á einni viku, skal fá 50% álag á fiskverðið sitt, eftir að hann hefur unnið þennan vinnutímafjölda, og 100% hækkun á fiskverðinu, ef hann hefur aflað að nóttu til.“ Kannske það væri framkvæmanlegt. En ætli það kæmu þá ekki einhver hljóð úr horni frá öðrum herbúðum, ef menn færu inn á slíkt? Ef þessi leið er ekki fær, þá sé ég ekki, hvaða leið er fær til þess að koma sjómönnunum undir verndarákvæði þessara laga. Ég hef hins vegar minnt á það hér fyrr í umr., að helzt væri hægt að ná með réttarbætur til fiskimanna okkar með löggjöf með því að setja einhvers konar vökulagaákvæði þeim til verndar, ef úr hófi keyrði með langan vinnutíma hjá þeim. Kannske eigum við eftir að verða sammála um það að flytja slíkt frv.

Öll þessi atriði, sem eru upp talin í 1. gr., eru um tegundir vinnu, þar sem ekki er auðvelt að koma þeim vinnuverndarákvæðum við, sem þetta frv. fjallar um. Og ég er alveg viss um það, að ef þar þætti eitthvað ofupptalið, þá mundu þm. hafa komið með brtt, því til úrbóta. En það, að þeir gera það ekki, finnst mér vera fullkomin staðfesting á því, að þeir hafi ekki komið suga á úrræði til þess að bæta þarna um.

Einhver hafði nefnt núv. ríkisstj. stjórn hinna vinnandi stétta, og það kom illa við hv. 3. þm. Reykn. og nefndi það, að enginn hefði gefið þáv. stjórn það heiti, stjórn hinna vinnandi stétta. Nei, af góðum og gildum ástæðum. Hún var oft og tíðum siður en skyldi stjórn vinnandi stétta. Hún hafði komið þannig við hjá sjómannastéttinni, að hún varð ekki kennd við sjómannastéttina, með gerðardómslögum og öðru slíku og riftingu á hlutaskiptum. Og þegar hún gerði samningana um 40 stunda vinnuviku opinberra starfsmanna, þá gleymdi hún að setja löggjöf um 40 stunda vinnuviku hjá erfiðismönnum Íslands. Þess vegna fékk hún ekki nafnið stjórn hinna vinnandi stétta, því miður. Það hefði mátt vera heiðursheiti á henni, ef hún hefði getað unnið fyrir því. Ég skal játa, að þetta er gamalt orðalag, og í raun og veru eru miklu fleiri vinnandi stéttir en þær, sem erfiðu störfin vinna, það skal játað. (Gripið fram í.) Ja, það eru til landeyður, letingjar og iðjuleysingjar náttúrlega, en þeir eru stéttleysingjar vafalaust. Við skulum kalla þá stéttleysingja.

Þá vék hv. 3. þm. Reykn. að því, að úr vinnuverndarfrv., sem við höfðum áður flutt, ég og fleiri, hefði verið sleppt ýmsum köflum, eins og vinnuverndarákvæðum fyrir börn og ungmenni o.fl., o.fl. Þetta er alveg rétt. Það þótti, eftir að ég hafði átt viðræður við fulltrúa Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins á s.l. hausti, rétt að taka þetta eina vinnuverndarákvæði út úr almennri vinnuverndarlöggjöf og fela þessum nefndum eingöngu að vinna að frv. um þetta vinnuverndaratriði. En það væri of viðamikið og tæki of langan tíma að taka alhliða vinnuverndarlöggjöf til athugunar nú, en að því skyldi unnið í samræmi við stjórnarsáttmálann, og það verður gert. Og það var meira að segja um það talað af fulltrúum vinnumarkaðarins, að síðar teldu þeir sjálfsagt að fella þessa löggjöf um styttingu vinnuvikunnar inn í almenna vinnuverndarlöggjöf, og það hygg ég líka, að verði að ráði, þegar frá heildarlöggjöf hefur verið gengið um þessi mál. En svo mikið er víst, að enn erum við mjög langt á eftir nágrannaþjóðum okkar um vinnuverndarlöggjöf alla, því að Danir, Norðmenn og Svíar eru um áratugi búnir að hafa mjög fullkomna vinnuverndarlöggjöf hjá sér. Þetta eru heilar bækur og koma mjög víða við, en við erum þarna aðeins með vísi að því er snertir vökulög sjómanna og um öryggi á vinnustöðum, að viðbættum ákvæðum um vinnuvernd barna. Það má heita, að við höfum enga vinnuverndarlöggjöf á Íslandi, og er það mjög miður. En úr því verður nú bætt, og ég geri mér góðar vonir um, að slík löggjöf fái ekki síður almennan stuðning manna úr öllum flokkum en þetta frv., sem hér er til umr., hefur nú fengið, góðu heilli.

Ég lýk svo máli mínu með því að þakka fyrir rösklega og myndarlega afgreiðslu þessa máls og einnig frv. um orlof og fagna mjög þeim einhug, sem birzt hefur í endanlegri afstöðu manna úr öllum flokkum varðandi málið.