21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langt mál við þessa 1. umr. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, enda gefur þetta frv. út af fyrir sig ekki tilefni til þess. Það er miklu fremur það, sem vantar í þetta frv., sem ástæða væri til að ræða. Hér er nefnilega ekki verið að leysa þann vanda, sem fyrir dyrum er, þ. e. fjárþörf Byggingarsjóðs. Í málefnasamningi stjórnarflokkanna segir m. a. að gera eigi ráðstafanir til þess að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings, m. a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og afnámi vísitölubindingar húsnæðislána. Hér er nú verið að stíga það skrefið að afnema vísitölubindinguna, eftir því er manni skilst, — en hvað hefur verið gert í sambandi við lækkun byggingarkostnaðar? Ég held, að allir séu sammála um, að byggingarkostnaður hefur farið stórhækkandi nú síðustu vikur og mánuði.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að fækkað verði um tvo menn í húsnæðismálastjórn. Fjöldi stjórnarmanna hefur sjálfsagt verið ákveðinn þessi, sem hann hefur verið, til þess að allir þingflokkar ættu þar fulltrúa, eins og hæstv. ráðh. gat hér um áðan. Nú virðist þess ekki vera lengur þörf að mati stjórnarflokkanna. Kannske er það í samræmi við hugsjónir þeirra um dreifingu valdsins, aukið lýðræði og annað í þeim dúr. Hæstv. ráðh. lýsti þeirri skoðun sinni áðan, að kosningarfyrirkomulaginu ætti að breyta, það ætti að losna við þennan pólitíska lit, sem á því er. Það væri gaman að vita, hvort hæstv. forsrh. er sammála þessum skoðunum. Mér virðist annað hafa komið fram við ýmis tækifæri hér á hv. Alþ.

Í 4. gr. frv. er einnig gert ráð fyrir fækkun í stjórn verkamannabústaða. Þar er dregið úr áhrifum sveitarstjórna, og húsnæðismálastjórn, sem leggur til 80% af fjármagninu, hefur ekki lengur rétt til að tilnefna menn í stjórn. Mér virtist áðan á hæstv. ráðh., að hann væri undrandi yfir því, að húsnæðismálastjórn hefði haft þennan rétt. Ég sé satt að segja ekkert undarlegt við það, þó að húsnæðismálastjórn hafi haft möguleika á því að tilnefna menn í stjórn verkamannabústaða. Þetta er sjálfsagt líka í samræmi við hugsjónina um dreifingu valdsins.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að meðaltalsársvextir allt lánatímabilið skuli að meðtalinni þóknun veðdeildar aldrei vera hærri en 73/4% og að viðbót sú, sem fellur til á afborganir samkv. þessum staflið, skuli teljast vextir. Mér finnst, að þessi grein þurfi nánari skýringar við. Í fyrsta lagi er ekki talað náttúrlega beint um það, að verið sé að afnema vísitölukerfið, en það kann að mega lesa það út úr og ráðh. lýsti því hér áðan. En það hlýtur að vera spurning um það, hvort þessi grein standist. Þegar lánið er tekið, er jafnframt samið um vexti við bréfaeigendur, og ég held, að það hljóti að teljast hæpið, að hægt sé að breyta þeim síðar til hækkunar. Kannske er búið að semja um þetta bæði við Byggingarsjóð og Atvinnuleysistryggingasjóð, sem eru aðaleigendur þessara bréfa, þó að Byggingarsjóður eigi mun meira, eða rúma 2.4 milljarða, eins og upplýst var hér áðan. Það kann að vera, að hægt sé að semja við þessa eigendur. en spurningin er þá, hver eigi að borga brúsann. Fellur það ekki á Byggingarsjóð? Höfuðatriðið í þessu máli er það, að ekki verður annað séð en verið sé að rýra ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs bæði með ákvæðum 3. gr. og 2. gr. frv., sem gerir ráð fyrir 20 millj. kr. hækkun vegna kaupa á eldri íbúðum. sem í sjálfu sér er ekkert nema gott um að segja. En í frv. er ekki vikið orði að því, hvernig Byggingarsjóður eigi að fá aukið fé, en fyrir því er ótvíræð nauðsyn. Meðan núverandi stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, var sífellt klifað á því, að Byggingarsjóður hefði ekki nægilegt fjármagn. Það er þó staðreynd, að Byggingarsjóði hefur á síðari tímum verið útvegað nægilegt fé til þess að veita stöðugt hærri lán til einstaklinga og byggingaraðila ár frá ári og úthluta lánum til allra þeirra, sem gert hafa íbúðir sínar fokheldar á því ári, sem sótt hefur verið um lánið. Lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem Alþ. samþykkti í maí 1970, fólu m. a. í sér stóraukin framlög ríkisins til Byggingarsjóðs. Þau voru þá hækkuð úr 40 í 75 millj. og þar af leiðandi aukið ráðstöfunarfé sjóðsins. Þau fólu í sér hækkun einstakra lána úr 545 þús. kr. í 600 þús. Þau fólu í sér stóraukna eflingu Byggingarsjóðs verkamanna og verkamannahústaða, sem veitir nú 80% lán af kostnaðarverði hverrar íbúðar, lán til kaupa á eldri íbúðum 50 millj., sem nú er ráðgert að hækka í 70, framkvæmdalán til byggingaraðila, meðan á framkvæmdatíma stendur, og lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Spurningin er því nú þessi: Hvernig ætlar ríkisstj. að sjá Byggingarsjóði fyrir auknu fjármagni? Á að endurtaka söguna frá fyrri vinstristjórnar árunum, að skilja við alla sjóði tóma? Það er margt, sem bendir til þess í, athöfnum stjórnarinnar, en þessi vinnubrögð kunna líka að stafa af því, að stjórnin hefur ekki trú á, að samstarfið endist svo lengi, að það komi í hlut núverandi stjórnarflokka að leysa vandann eftir veizluna. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér, voru fullgildar lánsumsóknir hjá húsnæðismálastjórn um áramót á 13. hundrað, þar af nálægt helmingur fokheldar íbúðir. Að lokinni úthlutun í des. voru á 9. hundrað lánshæfar umsóknir óafgreiddar. Ef reiknað er með, að þessar umsóknir verði afgreiddar á þessu ári, þarf til þess yfir 500 millj. kr. Fyrir utan þetta er ljóst, að mikill fjöldi umsókna berst á þessu ári vegna íbúða, sem verða fokheldar á árinu og ætti að veita lán samkv. starfsvenjum síðustu ára. Samkv. því, sem ég hef drepið hér á, verður ekki annað séð en Byggingarsjóð skorti verulegt fé á þessu ári. Ráðstöfunarfé sjóðsins vegna nýbyggingar rýrnar um 20 millj. vegna ákvæða 2. gr. frv., og vegna ákvæða 3. gr. veit ég ekki, hversu mikið ráðstöfunarfé sjóðsins rýrnar, ef sjóðurinn á að standa undir þessu. En við því þarf að fást svar. Ákvæði 3. gr. eru að sjálfsögðu lántakendum til hagsbóta, þeim sem hafa fengið lán, en það er spurning, hvernig fyrir þessari fjárþörf verði séð, og ég vænti svara við því.

Mér þótti athyglisverð yfirlýsing hæstv. ráðh. hér áðan, að það ætti að stefna að því að leggja Húsnæðismálastofnun ríkisins niður og færa starfsemi hennar til veðdeildar Landsbankans eða í bankakerfið, en teiknistofan skyldi þó starfa áfram. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. athugi þetta mál. Ég held, að það sé fyllilega þess vert, að það sé skoðað ofan í kjölinn. En betra hefði mér þótt, ef þessi fyrirvari hefði ekki verið með teiknistofuna, því að það held ég, að sé alveg ljóst mál að hana mætti að skaðlausu leggja niður. Það er fjöldi aðila í þjóðfélaginu, sem geta leyst þá þjónustu af hendi, sem þessi ríkisstofnun er að sýsla við.