17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þetta frv. er hér komið úr heilbr.- og félmn. eftir alllanga mæðu. Heilbr.- og félmn. hefur því miður ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Minni hl., fulltrúar Sjálfstfl. í n., skilar sérstöku nál., en við stjórnarsinnar í n. og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason skilum séráliti, þar sem við mælum með samþykkt frv., en þó með nokkrum breytingum. Helzta breytingin er sú, að við leggjum til að 4. gr. falli niður, þannig að skipan stjórna verkamannabústaða í sveitarfélögunum verði óbreytt. Ég leyfi mér í því sambandi að vitna í ummæli frá Húsnæðismálastofnuninni varðandi þetta, en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Færa má rök fyrir því, að stjórnir verkamannabústaða séu nú óþarflega fjölmennar, einkum í minni sveitarfélögunum, og sé því sú meginhugsun rétt að fækka stjórnarmönnum. Gera mætti þó greinarmun hér á eftir stærð sveitarfélaga og umfangi byggingarframkvæmda, sem venjulega helzt í hendur. Húsnæðismálastjórn er þeirrar skoðunar, að stjórn verkamannabústaða ætti að vera skipuð fimm mönnum, tveimur eftir tilnefningu sveitarstjórna, tveimur eftir tilnefningu húsnæðismálastjórnar og einum eftir tilnefningu verkalýðsfélaga í sveitarfélagi, og skipi ráðh. einn þeirra formann. Að fella með öllu niður tilnefningarrétt húsnæðismálastjórnar sýnist hæpið og órökrétt, þar eð lánveitingar til framkvæmdanna eru að öllu leyti á hennar vegum, enda þótt nokkurt framlag komi frá sveitarfélögum. Sé ekki talið eðlilegt að halda í lögum tilnefningu í stjórnirnar frá húsnæðismálastjórn, gæti að voru áliti komið til greina, að sveitarstjórn tilnefni þrjá menn og verkalýðsfélögin tvo eða sveitarstjórn fjóra og verkalýðsfélögin einn og ráðh. svo formann úr hópi hinna tilnefndu stjórnarmanna.“

Þetta segir í ummælum húsnæðismálastjórnar. um þessa grein, sem við leggjum til, meiri hl., að falli niður og skipun þessara mála verði óbreytt. En við treystum því, að endurskoðun fari fram á þessu, eins og reyndar öðru því, sem þetta frv. snertir, og reyndar leggja allir nm. áherzlu á það, að það sé þörf nánari athugunar á þessum málum.

Svo eru tvær aðrar breytingar, sem við leggjum til. Brtt. eru á þskj. 845. Á eftir 1. gr. komi ný grein, svo hljóðandi:

„Við 6. mgr. 5. gr. laganna bætist: Meðaltalsársvextir allt lánatímabilið skulu þó aldrei vera hærri en 7½%. Viðbót sú, sem fellur til á afborganir samkv. þessari mgr., telst vextir.“ Hér er um samræmingaratriði að ræða.

Ég hef þegar rætt till. um að fella niður 4. gr. 3. till. er svo hljóðandi:

„Á eftir 4. gr. komi ný grein, svo hljóðandi:

Á eftir 1. ml. 2. mgr. 20. gr. laganna komi nýr ml., svo hljóðandi:

Ráðh. getur þó ákveðið hærra framlag úr ríkissjóði vegna mjög fámenns þéttbýlisstaðar, enda framlengist þá greiðsluskylda hlutaðeigandi sveitarfélags samkv. 1. mgr., þar til samanlögð framlög þess eru orðin jafnhá samanlögðu framlagi ríkissjóðs vegna sveitarfélagsins.“

Þessar tvær till., sem ég nú nefndi, eru fluttar samkv. beiðni ráðh. Ráðuneytisstjóri Hjálmar Vilhjálmsson kom á fund til okkar, þegar við afgreiddum málið í gær, og lagði þessa beiðni fram. og meiri hl. verður við þeirri beiðni að flytja þessar till. Ráðuneytisstjórinn gerði grein fyrir þessari till. og grg. hans er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessari hugmynd er gert ráð fyrir fyrirframgreiðslu af hálfu ríkissjóðs á mótframlagi vegna fámennra sveitarfélaga, sem stuðlað getur að byggingu verkamannabústaða þar, án þess að byggingarframkvæmdir dragist úr hófi. Framlagsskyldu sveitarfélags lýkur þó ekki á fjórum árum eins og mælt er fyrir í 1. mgr. 20. gr., en heldur áfram þar til sveitarfélagið hefur skilað jöfnu framlagi á móti framlagi ríkissjóðs. Er það í samræmi við almennar reglur laganna um framlög til Byggingarsjóðs verkamanna. Fyrirframgreiðslan er ekki bundin við ákveðna fjárhæð. Bygging verkamannabústaða er þannig möguleg í fámennu þorpi og hagstæðan hraða framkvæmda má tryggja með þessum hætti.“

Ég reikna með því, að hæstv. félmrh. geri e. t. v. nánari grein fyrir þessum málum, svo að ég ætla nú ekki að hafa þessa framsögu mína lengri, en aðeins geta þess, sem mér láðist að geta áðan, að meirihlutamenn áskilja sér rétt til þess að fylgja ekki aðeins þeim brtt., sem þeir flytja á áðurnefndu þskj., heldur áskilja þeir sér einnig rétt til þess að fylgja öðrum brtt., sem fram kunna að koma, og einn þeirra, hv. þm. Bjarni Guðnason, hefur reyndar flutt brtt. við 1. gr. frv.