17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég efa ekki, að við getum verið sammála um það, að bæði ég og hæstv. félmrh. tali um, að við megum ekki drepa okkar eigin börn. En ég verð nú að segja, að það er lítið samhengi milli röksemda hæstv. ráðh. og þessa frv., þegar allt kemur til alls. Það liggur fyrir og því hefur hæstv. félmrh. ekki mælt í móti, að engin þörf er á því nú að samþykkja þetta frv. vegna þeirra aðila, sem eiga að fá að njóta ákvæðanna um afnám verðlagsákvæðanna í lánum sínum, einfaldlega vegna þess, að það getur ekki komið til greina á þessu ári. Það er þannig ekkert annað en hrein sýndarmennska að sýna frv. á þessu stigi málsins. Hitt er annað mál, hæstv. félmrh., að bæði ég og aðrir í stjórnarandstöðunni, sem mæla gegn því, að frv. fari í gegn nú, — ég veit, að ég mæli fyrir munn flestra þeirra, — við erum sammála því, að það þurfi að fá breytingu fram á þessu ákvæði. Hitt þykir mér nokkuð eftirtektarverð yfirlýsing hjá hæstv. ráðh., þegar hann viðurkennir það sem einn af samninganefndarmönnum á sínum tíma um þetta atriði, að það átti að vera til þess að fyrirbyggja verðbólgu í þjóðfélaginu. Nú vill hann afnema það. Er hann og aðrir hæstv. ráðh. ríkisstj. þá um leið að gefast upp við að stöðva verðbólguna í þjóðfélaginu? Hafa þeir algerlega kastað þessu ákvæði Ólafssáttmála fyrir róða, eða hefur hann ekki verið lesinn í morgun og ekki í gærkvöld? Nei, ég sé ekki annað en að þegar núv. hæstv. ráðh. taka þetta eina ákvæði, sem til er í samningum og ákvæðum um opinbera aðila, út úr og vilja fella það niður, þá séu þeir hreinlega búnir að gefast upp á því að berjast við verðbólguna. Gott og vel. Ég hef hins vegar álitið og hef lengi álitið, að einmitt þetta ákvæði hefði getað verið gott og gagnlegt á sínum tíma, og ég geri ráð fyrir því, að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar á þeim tíma hafi hugsað það þannig, að með þessu ákvæði ættu auðvitað slík ákvæði að ná yfir fleiri liði en þennan eina. Því var ekki lofað af hæstv. félmrh., og það var ekki heldur gert, en nú sé ég á öllu eftir þessu ákvæði í þessu lagafrv. ríkisstj., að ekkert er hugsað um að fara þá leiðina. Ef á að fara að taka þetta ákvæði út . . . (Gripið fram í.) Nei. Ég veit það. Röksemdir hæstv. ráðh. um einstök atriði frv., t. d. stjórn þessarar stofnunar, eru, að svo þunglamalegt sé að hafa þingkjörna fulltrúa frá öllum flokkum. Öðruvísi mér áður brá fyrir nokkrum árum, þegar svo kallaðir þingflokkar, sem þó voru engir þingflokkar og eru ekki enn þá, vegna þess að þeir eru sundurklofnir enn þann dag í dag, lágu grátbiðjandi frammi fyrir þáverandi stjórnarmeirihluta til þess að fá breytta nefndaskipan hér í Alþ., þannig að þeir gætu fengið sína fulltrúa inn í nefndir Alþingis, að þeir gætu orðið sjö. En nú þykist hæstv. félmrh. hafa fundið lausn allra mála einmitt með því að fækka þessum mönnum, þannig að þetta lýðræði, sem hann og flokkur hans berst m. a. mest fyrir, það fái ekki að njóta sín. Það út af fyrir sig er ágætt fyrir þá, sem kasta steinum í Steinkudys í dag.

Hæstv. félmrh. svaraði ekki neinu mínum spurningum um það, hvernig ætti að koma á móti þeim tveimur sjóðum, sem eru aðallánveitendur til húsbyggjenda. Það er hárrétt hjá honum, að hann er með þessu frv. að koma á móti þeim. sem hafa fengið lánið, en um leið skulum við ekki gleyma því, að m. a. varðandi þann sjóð, sem hann ætti nú kannske frekar öðrum að bera fyrir brjósti, Atvinnuleysistryggingasjóð, liggur ekkert fyrir enn þá, hvernig hann eigi að bera þann stóra skaða, sem hann mun verða fyrir af þessari ráðstöfun, né heldur Byggingarsjóð ríkisins. Það liggur ekkert fyrir, ég hef ekki séð neitt um þetta í framkvæmdaáætluninni eða í neinu því, sem tilheyrir eða heyrir undir fjáröflun núverandi ríkisstj. Má vera, að það hafi farið fram hjá mér, því að það hefur verið um svo glæfralegar tölur að ræða, að það er ekki von, að stjórnarandstaðan komist yfir að ná því svona á örfáum dögum, en vegna þess að ég á sem þingkjörinn fulltrúi sæti í stjórn þessa sjóðs, Atvinnuleysistryggingasjóðs, þá endurtek ég spurningu mína til hæstv. félmrh.: Hvernig ætlar hann að tryggja, að þessi sjóður, sem einmitt hefur lánað sama fólkinu og fær þessi lán, sem bera þessa okurvexti, hvernig ætlar hann að bæta þessum sjóði það tjón, sem hann verður fyrir vegna þeirra ákvæða, sem gilt hafa á undanförnum árum?

Herra forseti. Ég heyrði það á hæstv. félmrh. og auðvitað veit ég það hafandi í huga afstöðu hv. fulltrúa Alþfl., að þeir eru í einu og öllu með því, sem hér er að gerast. Það má vel vera, að þeir taki undir það með hæstv. félmrh., að óhætt sé að drepa sitt eigið líf í dag. Ég held mig hins vegar við þá skoðun, sem hefur komið fram í minnihlutaáliti n. frá fulltrúum okkar sjálfstæðismanna í hv. d., að þessu máli ætti að fresta til haustsins. Til þess hins vegar að gefa hæstv. félmrh. nútímafálkaorðu í barminn, sem á nú víst að hanna samkv. tillögum hans eigin barna, þá mætti vel taka þetta eina ákvæði út úr, ef honum liði betur út af því, og samþykkja það, en það hefur hins vegar ekki nokkurn skapaðan hlut að segja, og ég held, að ef við skoðum málið til hlítar, ættum við að láta fulltrúa þingflokkanna ásamt sérfræðingum, sem þingið hefur m. a. kjörið til að fara með þessi mál skoða málið til haustsins. Það þarf ekki að verða neinn sérstakur blettur á hæstv. félmrh., þó að hann gengist undir slíkt, en það virðist vera orðið slíkt tittlingatog á milli þeirra hæstv. ráðh„ að ef einn hæstv. ráðh. fær þetta málið samþykkt, þá þurfi annar að fá hitt, alveg sama, hvað vitlaust það er, og má vera, að það sé þess vegna, sem hæstv. félmrh. heldur svo fast við að knýja þetta frv. fram.