17.05.1972
Neðri deild: 84. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda neitt líkt því jafnítarlega ræðu um húsnæðismál og gert hefur verið við þessa umr., enda þótt ég viðurkenni fúslega, að þetta eru einhver alveigamestu mál, sem við hér á Alþ. þurfum að eiga við, og sannleikurinn er sá, að mér finnst, að löggjöf um húsnæðismál bæði Húsnæðismálastofnun og önnur mál, sem eru skyld, eigi í raun og veru að vera alltaf í endurskoðun og sé þess eðlis, að hún hljóti alltaf að vera í endurskoðun á einn eða annan máta.

Mér finnst, að í þessu frv. séu tvö meginatriði, sem ég geri ekki lítið úr. Það er að hækka framlög til kaupa á eldri íbúðum, — þó að ekki sé nema um 20 millj., það er þó í rétta átt, — og svo auðvitað afnám vísitölubindingarinnar, sem er mjög þýðingarmikið mál, eins og bent hefur verið á í þessum umr. Þessi tvö mál, þó að ekki kæmi annað til, eru þess eðlis, að ég get ómögulega látið það vera að standa með frv.

Þá hefur komið fram tillaga um breytingu á 5. gr. varðandi stjórnir verkamannabústaða, sem ég felli mig vel við, en eftir stendur 1. gr. frv., sem mjög hefur verið til umr. hér, um það að fækka um tvo í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar. Þessi fækkun finnst mér ekki þurfa að vera neitt höfuðatriði. Ég get ekki með nokkru móti, eins og komið hefur fram í þessum umr., komið því að, að þetta sé neitt höfuðatriði. Hitt tvennt, sem ég nefndi áður, hljóta að vera höfuðatriðin. Og þegar við lítum á mál eins og þessi, þá verðum við að reyna að greina á milli þess, hvað eru höfuðatriði og hvað eru aukaatriði. Ég veit ekki, hvað liggur að baki þessari hugmynd að fækka í stjórn Húsnæðismálastofnunar. En hitt veit ég, að það hefur verið venja hér undanfarin ár að leggja nokkuð upp úr því, að allir þingflokkar hefðu möguleika til þess að hafa fulltrúa í jafnveigamikilli stofnun eins og hér er um að ræða. Og ég tek undir það með hv. þm. Ellert Schram, að mér finnst, að stjórn þessarar stofnunar eigi að vera þingkjörin, en ekki bara embættismannastjórn. Af þessu höfum við leyft okkur að flytja hér skrifl. brtt., hv. þm. Karvel Pálmason, Þórarinn Þórarinsson, Sigurður Magnússon og ég, sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í húsnæðismálastjórn eiga sæti átta menn, þar af sjö kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands.“

Breytingin er sem sé engin önnur en sú, að í staðinn fyrir að fimm eru kosnir af Alþ. yrðu sjö kosnir.