18.05.1972
Neðri deild: 88. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er greinilegt ofurkapp, sem hæstv. ríkisstj. leggur á, að samþ. verði það frv., sem hér er til umr. og hefur verið með miklum rétti kallað siðlausasta frv., sem hafi komið fram á hæstv. Alþ. á þessum vetri. Það er greinilegt, að þeir leggja mikla áherzlu á að ná þessu fram, sem sjá má m. a. á því, að einn af æðstu postulum kommúnista hér á landi sagði við mig fyrir nokkrum mínútum hér fyrir utan þingsal okkar, að ef við ætluðum að tefja þetta frv. miklu lengur, þá skyldi Valdimar Ashkenazy ekki fá sinn íslenzka ríkisborgararétt á þessu þingi. Þetta er út af fyrir sig ákaflega skiljanlegt hjá þessum herramönnum. Þeir hafa gengizt undir þá kvöð, kommúnistar í ríkisstj., að verða við þeirri ósk hæstv. samg.- og félmrh. að ná upp úr lágmarki alls lágmarks í íslenzkri ráðherratíð nafni hans sem slíks, til þess að hann geti komið út úr þessu fyrsta þingi hæstv. núv. ríkisstj. þannig, að hann hafi eitthvað á sínum fingrum að telja fyrir sínum kjósendum, eins og hinir hafa, og á ég þá að sjálfsögðu við hans fyrri vini og samstarfsmenn, fyrrv. trúbræður hans, kommúnistana hér á Íslandi.

Hér hefur auðvitað mikið komið fram um frv. sjálft. En ég held, að áður en ég fer að ræða það efnislega, þær umr., sem hér hafa orðið, þá verði að fara aðeins aftar í sögu þessa þings. Það verður jafnvel að fara svo aftarlega, að það verður að minnast á það, þegar hæstv. félmrh. taldi sér skylt að taka einn af hinum ungu þm., sem sitja nú á þingi í fyrsta skipti, á hné sér og flengja hann hér í ræðustól, án þess að taka afstöðu til þess ákveðna máls, og á margan hátt skal ég taka undir það með hæstv. ráðh., að á þessu var full nauðsyn. Þá get ég nú ekki varizt því, að ástæða sé til þess að minnast á það, sem er í framhaldi af ástæðu hæstv. ráðh., þeirri að þessi þm. hafi verið einn af undirskrifendum til félmrn., hvar hann mótmælti ákveðnum vinnubrögðum, að full ástæða sé til þess að minnast á þá staðreynd, að skömmu síðar telur ein af þeim stofnunum, sem hæstv. viðkomandi ráðherra stjórnar, starfsmenn og stjórnendur þessarar virðulegu stofnunar, Húsnæðismálastofnunar ríkisins, sem teljast m. a. til hans starfsmanna, nauðsynlegt að víta ráðh. opinberlega, taka hann á hné sér og flengja hann fyrir óviðurkvæmileg orð, fyrir fullyrðingar, sem hann hefur aldrei getað staðið við og voru þá og eru enn þá sú mesta vitleysa og barnaskapur, sem nokkurn tíma hefur hrotið af munni íslenzks ráðherra.

Ég vil fyrir utan það að ræða frekar um þessa tvo hv. þm., annars vegar hæstv. ráðh. og hins vegar hv. þm. úr Vestmannaeyjum, Garðar nokkurn Sigurðsson, 5. þm. Sunnl., persónulega halda því fram, að þarna hallist ekki á, þegar þessir tveir virðulegu þm. deila, en nokkuð gefur þetta öðrum hv. þm. til kynna, hvers konar menn hér eiga hlut að málum, og m. a. undrar mig ekki, þótt þeir hafi nú gengið í eina sæng og þ. á m. með þeim mönnum, sem verið hafa að slá vefinn á undanförnum árum í værðarvoðir fyrrv. ríkisstj. og ríkisstjórnarfyrirtækja, en telja sér nú betur hlíta að slá nýjan vef og hafa slegið upp nýjum vef og slá hann fast með sínum nýju samstarfsmönnum. Og það er eftirtektarvert, að fyrsta sporið, sem þessir ágætu, nýju félagar stíga á sameiningarbraut sinni, er að fitja upp á hinum nýja vef og slá hann fast, svo fast, að þeir ætla að tryggja hvor öðrum það, sem hefur verið þeirra pólitíska árátta frá því að þeir komu inn í íslenzk stjórnmál, tryggja sjálfum sér og félögum sínum pólitíska aðstöðu, pólitísk völd og stöður.

Þá kem ég kannske að meginkjarna þess máls, sem hér er til umræðu, og hann er sá, að með þessu frv., eins og það er nú úr garði gert af hv. félögum, jafnaðarmönnum, sameiningarmönnum, vinstrimönnum, vinstristjórnarmönnum og fjandinn veit, hvað þeir kalla sig á morgun, er um hið mesta pólitíska siðleysi að ræða, sem orðið hefur vart á Alþingi Íslendinga og opinberlega í mörg undanfarin ár. Hæstv. félmrh. veit auðvitað bezt um þá merkingu, sem leggja ber í orðið siðleysi, og nokkuð þykist ég nú geta borið þar um með honum, ef út í það verður farið, en eitt er siðleysi og annað er pólitískt siðleysi. Það, sem hér er um að ræða, er pólitískt siðleysi. Og sérstaklega þó, þegar við erum búin, og þá á ég við okkur öll, sem teljumst til hinnar íslenzku þjóðar, að hlýða á kosningabaráttu fyrir rúmu ári, hlýða á úrslit kosninga, hlýða á túlkun þeirra, sem þar óneitanlega sigruðu, hlýða á síðustu útvarpsumræður, þegar þessir sömu aðilar, sem hörðust gegn öllu því versta, sem til hefur verið í íslenzku þjóðfélagi, í íslenzkum stjórnmálum, þegar þeir koma svo hér fram á Alþingi Íslendinga með þetta frv., sem við eigum að samþykkja áður en þingi verður slitið, og telja svo íslenzku þjóðinni trú um það, að þetta séu forsvarsmenn heiðarleikans í stjórnmálum, fjármálum og öðrum opinberum málum hér á Íslandi. Ég leyfi mér að segja: Svei þessum mönnum, sem leyfa sér að segja þetta.

Ég hef hér fyrir framan mig snepil nokkurn, sem ber nafnið Nýtt land. Þar er vitnað nokkuð til merkilegra ræðuhalda hjá þingmönnum svo kallaðra frjálslyndra, léttlyndra vinstrimanna, hægrimanna, allraflokkamanna, ef því er að skipta, en fyrst og fremst hinna heiðarlegustu manna. Ég sé í útdrætti úr ræðum þessara manna, sem komu fram í útvarpsumræðunum síðustu, að þeir vilja allan skepnuskap, sem þeir hafa kallað svo í sinni kosningahríð á undanförnum 2–3 árum, burt úr opinberu þjóðlífi. En hvað skeður svo, þegar þetta frv. liggur hér frammi á Alþ.? Hvað hefur skeð? Jú, þetta er nauðaómerkilegt frv., sem þegar hefur verið lýst þannig, að ekkert í því þurfti að framkvæma nú með lagasetningu, ekkert þeirra veigamiklu atriða, sem þar er drepið á. Ég hef þegar við fyrri umr. þessa máls lýst yfir því, að þar er vissulega drepið á hagsmunamál allra þeirra, sem við húsbyggingar fást og hafa fengizt hér á Íslandi. Og það er sjálfsagt að koma á móti þeim vandamálum, sem þetta fólk býr við í dag, m. a. vegna þess, að bæði ég og hæstv. núverandi félmrh., þáverandi forseti Alþýðusambandsins, sömdum á þann veg, að við þurfum nú með lagasetningu að gera nokkra bragarbót á. En með hverju skal sú bragarbót fengin? Jú, það mun á margan hátt betrumbæta hag þeirra, sem lánin hafa fengið. En er öll sagan sögð þar með? Hverjir áttu féð, hverjir áttu sjóðina, sem lánuðu þessu fólki? Það er alþýða Íslands, það er verkalýður Íslands m. a., og þar á ég að sjálfsögðu við Atvinnuleysistryggingasjóð. Hverjir hafa byggt upp aðrir en íslenzkir skattþegnar, aðrir en þeir, sem hafa verið að berjast fyrir því að eignast húsnæði á undanförnum áratugum? Hverjir hafa byggt upp Byggingarsjóð, sem varð til góðu heilli fyrir forgöngu framsýnna sjálfstæðismanna á sínum tíma og þá gegn mjög harðri baráttu sumra þeirra, sem eiga sæti á Alþingi í dag?

Ég spurði hæstv. félmrh. að því við 1. umr. þessa máls, hvernig hann og hæstv. ríkisstj. hygðust bæta þessum sjóðum það fyrirsjáanlega hrun, sem verður á tekjum þeirra, ef frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem það er nú, án þess að neitt liggi fyrir um það frá hæstv. ríkisstj., hvernig hún ætli að bæta þetta hrun, sem fram undan er. Það er hvergi minnzt á þetta í fjáraflaplönum hæstv. ríkisstj., og eru þó þau plön með því stórkostlegasta, sem nokkur þm., nokkur þegn hins íslenzka ríkis hefur séð. Og við gætum í því sambandi farið miklu víðar og jafnvel til þeirrar svörtu Afríku, sem hv. þm. Bjarni Guðnason vildi lítið með hafa í kvöld í umr. um annað mál þegar hann taldi rétt, að þeir gætu nú jafnvel fengið fálkaorðuna, þótt íslenzkum bóndakörlum og sjómönnum mundi ekki auðnast að fá slíka medalíu, en hann teldi það hins vegar ákaflega eðlilegt, að þeir, sem tyggðu íslenzka skreið suður í svörtu Afríku, mættu bera slíkt á brjósti sínu og þá að sjálfsögðu á holdi beru, ef ég skil hann rétt. En ekki hefur ennþá komið neitt svar frá hæstv. félmrh. um það, hvernig hann hyggst sjá þessum sjóðum, sem lánin veittu, fyrir skaðabótum, sem ég vil kalla, sem ég tel persónulega, — og ég er ófeiminn við að láta það koma hér fram, hæstv. ráðh., — að eigi þá að koma af almannafé, ef við eigum ekki að láta þessa tvo sjóði skaðast. Allra sízt megum við láta Atvinnuleysistryggingasjóð, sem byggður var upp á sínum tíma í samningum og er eign verkalýðsfélaganna, taka á sig skaða af pólitískri ákvörðun núverandi hæstv. ríkisstj., jafnvel þótt svo væri, að ákveðin samþykkt hafi verið gerð í stjórn þessa sjóðs, sem auðvitað heldur ekki nema að litlu leyti gagnvart því, sem hér er um að ræða. Og ég efa stórlega, jafnvel þótt sú leið hefði verið farin, að ákveðið hefði verið hreinlega að afskrifa þarna stórar upphæðir í þessu skyni, að þingkjörin stjórn í þessum sjóði hafi nokkurn rétt til að taka slíka ákvörðun, nema þá að hinir sömu fulltrúar leituðu til þingsins til að fá staðfestingu þar á og skipaðir fulltrúar bæði frá ASÍ og Vinnuveitendasambandi Íslands leituðu til sinna samtaka þar um einnig, því að ég tel, að þegar fram í sækir, sé þarna um of stórar upphæðir að ræða til þess, að svo megi vera. Ég veit hins vegar, að hæstv. félmrh. er bjartsýnismaður mikill og telur, sem hann hefur löngum getað komizt upp með, ekki aðeins hér á Alþ., heldur og í sinni pólitísku baráttu á þingum verkalýðshreyfingarinnar og víðar, að ef hann standi upp í krafti þess stórglans, sem hann hefur stundum getað skapað í kringum sína áru og í sínum ræðuhöldum, þá sé þar með um leið fengin heimild til að gera slíka hluti, sem ég þó dreg mjög í efa, að eigi rétt á sér.

Ég hef talið þetta frv., eins og það nú er orðið, bera vott um pólitískt siðleysi, og ég sný ekki til baka með það. Ég held, að þegar öllu sé á botninn hvolft, sé öllum ljóst, hvað hér er verið að gera. Það sé verið fyrst og fremst að svipta þingkjörna stjórn og þingkjörna fulltrúa, sem enn eiga eftir að ljúka sínum starfstíma, umboði þeirra, með samkomulagi á milli tveggja pólitískra flokka, sem telja sig nú orðið mjög skylda, sé verið að svipta hina þingkjörnu fulltrúa umboði þeirra og rétti, sem Alþingi Íslendinga hefur veitt þeim, til þess að troða inn, eins og hér var tekið fram af síðasta ræðumanni, einum pólitískum þuklara til viðbótar, og það er gert að ráði yfirþuklarans í íslenzkri pólitík, hæstv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar. Ef þetta sýnir og ber því vott, sem hinn nýi umbótaflokkur, sem öllu ætlaði að bylta og öllu ætlaði að breyta til hins betra vegar, vill koma fram, ef þetta eru hin stórkostlegu skref fram á við hjá þeim, þessum nýju þm. hér á hæstv. Alþingi, hv. þm., sem vita ekki, hvort þeir eiga að hlæja eða gráta í baksölum eða inni í sal. hv. prófessor, 3. landsk. þm., að ég nú ekki tali um þann, sem alltaf hlær, eins og talað var um í „Maðurinn, sem hlær“ eftir Victor Hugo, hv. þm. Karvel frá Bolungarvík, 7. landsk. þm. Þeir geta vitanlega hlegið að því, að hér koma menn fram á Alþ. og benda þeim á þessar staðreyndir. Það er sjálfsagt fyrir þá. Ég veit af ýmsu, og ég þekki hæstv. félmrh. það vel, að þrátt fyrir allt skammast hann sín töluvert fyrir þetta frv., eins og það er orðið í meðförum þingsins, hvernig hann hefur látið svínbeygja sig. En af meðfæddu stærilæti, af þörf hans til að sýna, að eitthvað liggi eftir flokk hans hér á Alþ. eftir þetta þing, þá þarf endilega að troða þessu í gegn, sem er fyrst og fremst dæmi um pólitískt siðleysi þeirra, sem töldu sig vera hina pólitísku umbótamenn, mannanna, sem töldu sig vera siðvæðingarhreyfinguna í opinberu þjóðlífi hér á Íslandi. Og ég segi aftur svei.

Á margan hátt minnir meðferð þessa máls mig á stefnu, sem fylgt var af Framsfl. á sínum tíma, 1955–1956. Þeir, sem muna og fylgdust með íslenzkum stjórnmálum þá, minnast máske ræðu, sem þáverandi formaður Framsfl., Hermann Jónasson, hélt á Hólmavík, og sú ræða hefur löngum verið kennd við Hólmavík og kölluð Hólmavíkurræðan. Hvert var megininntak þeirrar ræðu? Jú, megininntakið var það, að ekki væri aðeins þörf og nauðsyn, heldur brýnasta verkefni þáverandi vinstri stjórnar að bola Sjálfstfl. frá öllum opinberum áhrifum. Að því var unnið. Máske hefur það verið vegna þessarar skoðunar þáverandi vinstri stjórnar, sem sú stjórn sprakk með þeim ferlegasta hvelli, sem íslenzk ríkisstjórn hefur nokkurn tíma sprungið með frá því íslenzk stjórn kom inn í landið. (Gripið fram í: Land byggðist.) Frá því að land byggðist, getum við sagt, hv. 1. þm. Reykn. Þykir mér þó ótrúlegt, að fram eftir öldum hafi nokkrir fuglar verið til, sem hafi tilheyrt þremur stjórnmálaflokkum. En það má vera, að þeir hafi verið til, þegar svartidauði gekk yfir, enda hafa þeir þá fallið út líka. En þetta var kenning þeirra framsóknarmanna á þeim tíma, að Sjálfstfl. ætti að þurrkast út úr opinberu þjóðlífi, og núna kenning siðvæðingarhreyfingar Hannibals Valdimarssonar, flokks hans og hans félaga, kommúnistanna í Alþb., að ég tali nú ekki um formanns þingflokks Framsfl., hins göfuga og góða drengs, sem vill ekkert hafa nema það, sem bezt reynist og sannast í íslenzkum stjórnmálum. Þeir eru að stíga sitt fyrsta spor á þessari braut, og ég leyfi mér að segja í sambandi við þær umr., sem hér fara fram um þetta mál: gott og vel, ég fagna því persónulega sem einn af þm. Sjálfstfl., að þeir loksins svipti af sér þeirri gæru, sem þeir hafa haft yfir sér á undanförnum mánuðum og misserum, og sýni íslenzkri þjóð, hvað undir býr. Vegna þess að hv. þm., formaður þingflokks Framsfl., var ekki kominn hér inn í þingsal, — hann hefur sjálfsagt verið að tala um það við forsrh., hvernig ætti að standa við yfirlýsinguna um það, að hann gæti framfylgt og gefið ráð og framkvæmt gerðir, án þess að fylgja íslenzkum lögum, eins og hann gaf yfirlýsingu um hér á hæstv. Alþ. í dag, — þá ætla ég að endurtaka þetta, bara fyrir hann einan, því að ég hef nógan tíma, og ég skal endurtaka það fyrir næsta flokksmann hans, þegar hann kemur hér inn. (Gripið fram í.) Það er gott. Það er það, sem er að gerast með þessu frv. eða með samþykkt þess, ef samþ. verður, þ. e. að búið er að gera pólitískt samkomulag milli væntanlegra samrunaflokka, sem hafa sömu ákveðnu siðferðishugsjónir í stjórnmálum um það, að til þess að annar fái að lafa og slá sinn vef áfram þurfi að breyta þessum þýðingarmiklu lögum, taka umboð, sem Alþingi Íslendinga hefur gefið þingkjörinni stjórn, af þeirri stjórn, til þess að koma megi annaðhvort krata eða hálfkrata inn í stjórnina í staðinn fyrir sjálfstæðismann.

Nú skal ég ekki efa það, að margir finnast úr þessum flokki, sem geta alveg eins gegnt þessu starfi eins og sjálfstæðismaður. Það veit ég auðvitað, að þeir, sem þar eru frá Sjálfstfl., eru með beztu mönnum, sem ég þekki. En það að þurfa að gefa ákveðnum litlum flokki blóm í hnappagat, þegar komið er að þingslitum, þessa rós, finnst mér eitt það átakanlegasta, sem gerzt hefur, frá því að ég kom og tók sæti á Alþingi Íslendinga. En langt er nú gengið og lengra verður gengið.

Við fyrri umr. þessa máls lagði ég nokkrar spurningar fyrir hæstv. félmrh. í sambandi við húsnæðismálin almennt. Enn þá hafa engin svör komið við þeim spurningum mínum frekar en við öðrum þeim spurningum, sem þeir þm., sem gagnrýnt hafa frv., hafa borið fram og hafa beinzt að húsnæðismálunum almennt. Ég beindi m. a. þeirri spurningu til hæstv. félmrh., hæstv. húsnæðismálaráðherra, hæstv. ráðh., sem vill ekki og getur ekki stundað pólitískt þukl, þótt hann fáist við svona smákukl öðru hverju, hvernig hann hefði hugsað sér að fjármagna eða standa undir þeim gífurlegu óskum um lán til byggingarframkvæmda, sem þegar hafa komið fram og jafnvel eru ókomnar. Við þessu gat hann ekki gefið neitt svar. Hann sagði hins vegar, sem fór fram hjá mér í minni fyrri svarræðu við 2. umr., hann sagði, að í tíð fyrrv. ríkisstj. hefði verið notað meira fé en þeim hefði borið þá, og veit ég vel, hvað hann á við. Hann á að sjálfsögðu við það, að til þess að koma á móti mikilli þörf seinni hluta ársins 1971, þá hafði verið lánað fram yfir það, sem átti að gera samkv. samningum og lögum, um eða yfir 60 millj. kr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði til húsnæðismálastjórnar. Að sjálfsögðu hefði verið full ástæða og ærin ástæða fyrir hæstv. félmrh. að minnast á þetta mál. Ef, eins og samþykkt var og bókað af stjórn sjóðsins, þessa upphæð ætti að greiða af framlagi ársins í ár, þá var full ástæða til þess fyrir hann á fyrstu mánuðum hans í ríkisstj. að minnast á, að svoleiðis hefði verið farið með féð. Nei, það var nú eitthvað annað. Hann fékk þetta bara að láni áfram. Hann hefur haft það líka sem sagt til ráðstöfunar í ár. Það var engin skerðing á því fé, sem honum bar samkv. lögum og samningum og fyrri gerðum, á ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs, þannig að hann getur ekki sagt það, að þeir, sem eru hinir sömu í stjórn húsnæðismálastjórnar, hafi í tíð fyrrv. ríkisstj. verið að éta yfir sig á hans kostnað. Það er rangt.

Hins vegar stendur hann frammi fyrir vandanum í dag, vandanum að útvega það mikla fé, sem þarf, og það væri auðvitað bæði ódrengilegt og óréttlátt að halda því fram, að sá vandi væri eitthvað honum að kenna. Þetta er vandi, sem við verðum allir að reyna að leysa. Þetta er vandamál, sem við stöndum frammi fyrir, vandamál, sem við verðum að leysa til þess að stöðva ekki þá, sem hafa í góðri trú hafið húsbyggingar sínar á s. l. ári og í ár. En liggur nokkuð fyrir um það í þessu frv. hæstv. félmrh., sem fer með húsnæðismál, hvernig hægt er að leysa þetta mál? Hefði það ekki verið nokkru nær en að vera með þetta fimbulfamb, sem hann hefur verið með um breytingar á stjórn stofnunarinnar? Í því sambandi er full ástæða til að spyrja hæstv. ráðh.: Hafa þeir, sem eru í stjórninni í dag, sýnt honum trúnaðarleysi, einhverjir aðilar þar öðrum fremur, einhverjir aðilar frá einhverjum ákveðnum pólitískum flokki, eða er ástæðan eingöngu sú, að hann er bara stúrinn, vegna þess að þeir sameiginlega tóku hann á kné sitt og flengdu hann opinberlega fyrir frumhlaup hans og gönuhátt, þegar hann var að tala um þá sem pólitíska þuklara? Er þetta það, sem vakir fyrir hæstv. ráðh., að hefna sín á þeim þess vegna? Nei, ég trúi því ekki, að hann sé slíkur ódrengur að láta það eftir sér spyrjast, enda manna vísastur til þess að hafa þveröfugar skoðanir og gerðir og framkomu heldur en hægt er að lýsa með slíkum orðum. (Félmrh.: Vantar þig meira vatn?) Ég kalla, herra ráðherra, þegar . . . Nú þykir mér þeir vera orðnir hógværir í stjórnarstólunum. „Vantar þig meira vatn?“ sagði hæstv. ráðherra.

Á það hefur verið minnzt af fyrri ræðumönnum í þessu máli, sem rétt er, og reyndar hafði ég tekið það fram líka, að í frv. eru ákveðin atriði, sem við sjálfstæðismenn erum ekki aðeins fyllilega sammála, heldur hefðum viljað einnig taka þátt í að leysa. Ég á þar t. d. við ákveðið um að hækka lánin til kaupa á eldra húsnæði og breytingu á ákvæðinu um vísitölu og verðlagsákvæðin á lánakjörunum hjá þeim, sem lán hafa tekið í gegnum Byggingarsjóðinn. Í sjálfu sér hefði ekkert frv. þurft til þess, að ríkisstj. hefði lagt fram viðbótarupphæð til húsnæðismálastjórnar til þess að hjálpa með eða bæta við lán til kaupa á hinu eldra húsnæði. Ef lagabreytingar hefði þurft með, eins og má vera, var það ákaflega einfaldur hlutur að breyta lögunum á þann veg. Sama má segja um vaxtamálið sjálft. En þegar upp er staðið, þegar búið er að skoða það mál, er annað uppi á teningnum. Og þess vegna komu mér ákaflega á óvart þau hreystilegu orð, sem hv. 2. landsk. þm. viðhafði hér í umr. í gær, þegar hann taldi, að Alþfl. hefði staðið á öndinni undanfarna mánuði og misseri, hann hefði staðið á öndinni, þeir hefðu ekki mátt vatni halda, svo mikið hefði legið á að betrumbæta þetta mál, það þyldi enga bið, það yrði bara að gerast strax. Samt liggur sú staðreynd fyrir, að einfaldlega liggur ekkert á, vegna þess að lánin voru gjaldfallin. Og ef sú staðreynd liggur fyrir, að þetta mál þurfi að athuga betur, eins og hefur verið bent á af þeim fulltrúum, sem eru nú þegar þingkjörnir og eiga sæti í þessari stjórn, af hverju má þá ekki athuga þetta mál betur til haustsins? Þarf endilega að fara að blanda því inn í þetta „fljúgðu, fljúgðu, teppið mitt“, sem þeir eru að skipa sér á, fyrrv. Alþfl. og núv. Alþfl.? Þótt þeir telji þetta vera sína höfuðnauðsyn nú að ná þessu frv. fram og skapa þarna ákveðna aðstöðu fyrir ákveðna aðila, væri þó ekki skynsamlegra að skoða málið fram á haustmánuði og þá í samráði við þá menn, sem lengst hafa fengizt við þessi mál, húsnæðismálin eða við þau mál öll, og hafa af Alþingi Íslendinga verið kjörnir til þess að sjá um þau í umboði íslenzku þjóðarinnar, sem ég tel vera? Hefði ekki verið skynsamlegra, þegar gagnrýni þeirra kom fram á þann veg, sem hún hefur komið, að æskja eftir samstarfi við þá um að finna máske betri leið? Ég ætla ekki að segja, að hún liggi fyrir hér hjá okkur í þessum umr. Hún liggur ekki fyrir hjá mér, og m. a. þess vegna styð ég þetta ákvæði frv., því að ég veit manna bezt sjálfur um það, hve mikil þörf þar er á, og það skal ég alltaf viðurkenna. Og ég skil vel, að hæstv. félmrh. vilji fá þessu ákvæði í lögunum breytt., vegna þess hvaða raun hann hefur haft af því, enda geri ég ekki ráð fyrir því, að neinn aðili, hvorki stjórnmálaflokkur né einstaklingur meðal þm., hefði staðið á móti óskum hans um það. En þegar það þarf að verða samfara þessu pólitíska kukli hans og þeirra hinna gömlu forustukratanna, þá er ekki nema von, að bæði ég og aðrir hálf- og kvartkratar stöndum upp og gerum okkar athugasemdir.

Ég hef lagt þá spurningu fyrir hæstv. ráðh., hvað hann hafi hugsað sér í sambandi við samninga um þá tvo sjóði, sem hafa útvegað það fé, sem hefur þegar verið lánað á vegum Byggingarsjóðsins, og þar á ég við sjálfan Byggingarsjóðinn og svo Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég hef líka lagt þá spurningu fyrir hann, hvernig hann og ríkisstj. í heild ætli sér að standa undir þeirri miklu þörf, sem nú er á því að koma á móti húsbyggjendum. Við þessu hafa ekki komið nein svör, enda geri ég ráð fyrir, að það séu engin svör fyrir hendi hjá hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj. Þótt leitað sé eftir fjármagni í marga aðra hluti, þá hefur ekki sézt enn, hvað þeir ætla að gera á þessu sviði.

Ég hef þá á nokkurn hátt og lauslega lokið við að ræða sjálft frv., en hyggst ræða nokkuð ítarlega um húsnæðismálin almennt og mun þá kannske ekki fara frekar út í einstakar greinar þessa frv., en minni hv. þm. á það, að hæstv. ráðh. lýsti yfir því hér í gær, að hann vildi ekki drepa sitt eigið líf, og átti þá við þetta frv. Og það auðvitað varð skiljanlegra, eftir að hv. 3. landsk. þm. hafði komið með fóstru þeirra fram hér í tillöguformi, þó að ekki hefði verið hægt að ræða það s. l. nótt, en sjálfsagt verður það rætt hér á eftir. Í sjálfu sér er þetta, eins og við sjálfstæðismenn höfum þegar lýst, hálfgerður útburður, sem færi bezt á hjá þeim félögum að láta verða úti, og væri þeim miklu sæmra, þó sérstaklega hæstv. félmrh., ef hann tæki út úr þessu frv. þessa ómynd um breytingu á stjórninni, eins og hann hefur sjálfur lagt til. Þá væru þeir í samvinnu við aðra stjórnmálaflokka hér á Alþ. og einstaka þm. að reyna að ráða fram úr sjálfum vandamálunum, sem við er að glíma. Ég þori að fullyrða það fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna hér í hv. d., að ekki mun standa á okkur að hjálpa til við, að svo megi verða, en ég mun geyma mér um sinn að ræða ítarlega um húsnæðismálin, ef augu hæstv. ráðh. mættu opnast fyrir því, að hér er hann að fara villur vegar. Hann er að fara ranga braut, hann er að snúa af sér töluverðan hóp manna, sem vildu gjarnan standa við hlið hans og bak til þess að ráða fram úr vandamálum, sem við vitum öll að eru fram undan og við horfum þegar á. Ef hann tæki þetta ákvæði út úr frv. og flytti sjálfur till. um það, þá veit ég, að ég get talað fyrir munn allflestra sjálfstæðismanna hér, er ég segi, að við mundum þá frekar standa við bak hans í því skyni að leysa úr þessu vandamáli. A. m. k. get ég sagt það fyrir sjálfan mig, að ég skal leggja mig allan fram um, að svo geti orðið. En með því fyrirkomulagi, sem við horfum á nú í sambandi við þetta frv., þá endurtek ég þau orð mín, að eins og það liggur nú fyrir, þá er um pólitískt siðleysi að ræða og það verður honum sjálfum og öllum þeim, sem að því standa, til ævarandi skammar, ef það gengur fram.