18.05.1972
Neðri deild: 88. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu, að um þetta frv. hafa orðið miklar umr. hér í hv. þd. Og þrátt fyrir það, að hæstv. félmrh. gaf þá yfirlýsingu í gær, að hann ætlaði ekki að drepa sitt eigið afkvæmi með því að halda uppi málþófi, þá hefur hann einstöku sinnum gleymt sér í þeim efnum. Það hefur nú komið fyrir hann oft áður á langri ævi, að hann hefur beitt málþófi, þó að hann hafi ekki ætlað sér að gera það. Hins vegar hefur hann í kvöld mjög setið á sér að svara fsp., en nóttin er nú nokkuð löng, þar sem hæstv. deildarforseti hefur ákveðið að boða deildina til fundar kl. 10 í fyrramálið, til nýs fundar, og gerir ráð fyrir, að atkvgr. geti þá orðið um þetta frv.

Í gær gerði ég það að umræðuefni, hve gersamlega hæstv. ríkisstj. hafi svikið fyrirheit sín í húsnæðismálum, og vitnaði þar í svokallað Ólafskver, sem er málefnasamningur þeirra þriggja flokka, sem nú standa að ríkisstj., og höfundur þess kvers, sjálfur hæstv. forsrh., hvatti hér í jólaboðskap sínum í vetur þm. til að lesa bæði kvölds og morgna. Ég skal játa það, að ég hef nú svikizt um að lesa þetta kver bæði kvöld og morgna, en þó hef ég lesið það svo oft, að ég man það helzta úr því og m. a. þau fyrirheit ríkisstj. að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings m. a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og afnámi vísitölubindingar húsnæðislána. Tíu mánuðir eru liðnir frá því, að þessi stjórn tók við völdum, og ekkert hefur verið gert í þessum efnum annað en það, að byggingarkostnaður hefur haldið áfram að vaxa og allmyndarlega, og það er ekki að ástæðulausu, sem hv. 3. landsk. þm. hefur áhyggjur af dýrtíðinni og þrekleysi ríkisstj. í baráttunni við dýrtíðina, því að hann sendi henni nýlega í málgagni sínu þau aðvörunarorð, að ef ríkisstj. tæki sig ekki til og mannaði sig upp í það að berjast við dýrtíðina, þá mundi fara svo, að verðbólgan æti ríkisstj., þá alla sjö og sennilega félmrh. líka. Ekkert hefur komið frá hæstv. félmrh. um, hvaða ráðstöfun hann geri og ríkisstj., — því að auðvitað stendur hann ekki einn að þessu, — til þess að uppfylla þessi loforð sín í málefnasamningi ríkisstj., ekki neitt, og af hverju kom hæstv. félmrh. og ríkisstj. ekki með frv. í tæka tíð um afnám vísitölubindingar húsnæðislána, áður en þessi lán féllu í gjalddaga 1. maí? Af hverju var það ekki afgreitt fyrir þann tíma? Af hverju var ekki staðið við þessi fyrirheit? Það vantaði þrek eins og fyrri daginn, eins og í svo mörgum öðrum málum. Það er ekki nóg að semja slíkan málefnasamning og halda svo veizlu, sem búin er að standa í 10 mánuði, og gleyma sér, eins og þessi hæstv. ríkisstj. hefur gert í svo mörgum málum. Það sýnir nú bezt þetta frv. Það sýnir bezt og þær tillögur, sem fram eru komnar hér í þessari hv. d., hve samstaðan er mikil hjá þessum flokkum. Það vita allir um samstöðuna á milli þessara flokka, hvernig hún er, en hvernig er flokkur hæstv. félmrh. í sambandi við ákvæði þessa frv.? Hann samanstendur af þremur mönnum hér í hv. þd. Það er félmrh. sjálfur, hann leggur til í frv., að í húsnæðismálastjórn eigi sæti sex menn, þar af fimm kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands. Svo kemur næst „kommandör“ í flokknum hér í d., hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason. Hann flytur einn og óstuddur brtt. við þessa 1. gr. frv. þess efnis, að í húsnæðismálastjórn eigi sæti þrír menn, einn tilnefndur af félmrh., og er hann formaður, einn af Sambandi ísl. sveitarfélaga og einn af ASÍ. Ég skal játa það, að tillaga hv. 3. landsk. þm. bendir þó til þess, að það eigi ekki að vera um pólitískt þukl að ræða í húsnæðismálastjórn, nema auðvitað bara frá hendi SF, því að félmrh. á að skipa þuklarann. Svo kemur þriðja aflið í flokki SF, og það vill nú ekki láta sitt eftir liggja að gera athugasemdir við 1. gr. frv., og það er hv. 7. landsk. þm. Að vísu er hann aftan í rassi kratanna þar á tillögunni ásamt sjálfum leiðtoga Framsfl. og ungum þm. úr Alþb., og þeir leggja til, að í staðinn fyrir sex menn í húsnæðismálastjórn, sem faðir SF leggur til, eigi nú að fjölga mönnum í húsnæðismálastjórn og þar skuli eiga sæti átta menn, þar af sjö kosnir með hlutbundinni kosningu af Sþ. og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands. M. ö. o.: það eiga þá að vera sjö þuklarar í húsnæðismálastjórn samkv. tillögu þriðja aflsins í SF. Er nú hægt að hafa klofninginn meiri en er í þessum flokki, sem samanstendur af þremur þm., um mál sem faðir þessa flokks flytur, að hinir geta alls ekki verið á sama máli? Maður skyldi þó ætla, að það hafi verið gerð tilraun til að tala saman áður. Finnst ykkur ekki koma svo úr hörðustu átt, þegar hæstv. félmrh. kemur fram í umr. til þess að skýra fyrir alþjóð, að það sé klofningur í öðrum flokkum, nefnir fimm eða sex menn, að flokkur sé klofinn, þegar hann sýnir jafnátakanlega, að hans eigin flokkur klofnar eins og hægt er í máli, sem heyrir undir formann flokksins, hæstv. félmrh.? Er svo að búast við því, að hinir flokkarnir, sem standa að ríkisstj., standi heilir að þessu frv.? Það vantar allt í þetta frv., sem á í því að vera. Það vantar í það allt saman nema þuklið, það er áfram við lýði. Hvað segir forsrh. við því? (Gripið fram í.) Láta það koma fyrir atkvæði. Það getur vel verið, að það komi fyrir atkvæði síðar. Ég ætla nú að segja hæstv. forseta Sþ. það, að við viljum ræða þetta mál ítarlega og ætlum að gera það. Nú er hann bara alls ekki í forsetastól hér. Það er hérna hæstv. forseti Nd. (Gripið fram í.) Nú er hann bara óbreyttur hér í d.

Ég hefði búizt við því, eins og ég sagði hér í gær, að hæstv. félmrh. hefði notað tímann frá því að hann varð ráðh., frá því að ríkisstj. var mynduð, til þess að undirbúa vandlega frv. um úrbætur á húsnæðismálum, en það hefur hann ekki gert. Hann hefur haft einhverjum öðrum hnöppum að hneppa þessa tíu mánuði, sem liðnir eru. Hitt er aftur kapítuli út af fyrir sig, hvernig búið er að fara með vesalings Alþfl. í þessu máli. Ég veit ekki nema hann eigi eftir að svíkja hann einu sinni enn þá. Það hefur verið leikið sér að Alþfl. í þessu máli, eins og köttur leikur sér að mús. Formaður Alþfl. var plataður í n. að skrifa undir nál., vegna þess að félmrh. lofaði að setja á fulltrúa Alþfl. í húsnæðismálastjórn. Það var nóg fyrir formann Alþfl., þá glúpnaði hann og skrifaði undir nál. Svo kom hæstv. félmrh. og klappaði á öxlina á formanni Alþfl. og sagði: Ja, það fór illa, Gylfi minn. Þetta gekk ekki fram hjá okkur, þeir neituðu þarna hinir, — það hafa verið Bjarni Guðna og Karvel Pálmason, — þið fáið engan í húsnæðismálastjórn. Og formaður Alþfl. var nú heldur lúpulegur eftir þetta. en áður en langt um leið vænkaðist hagur hans. Einn af talsmönnum Alþfl. hér í hv. d. er aftur orðinn tillögumaður ásamt fulltrúa SF, leiðtoga Framsfl. hér í d. og unga manninum frá Alþb., og nú er tryggt, að Alþfl. eigi að fá mann með því að breyta greininni á þann veg, að sjö skuli kosnir hlutbundinni kosningu í Sþ. Þar með eru nú breytt viðhorf, það á að setja kratana á, sem átti að taka af í gær. En hvort þetta nær til enda þessa leiks, skal ég ekkert um segja. Því verður reynslan að skera úr. Þetta er auðvitað alltaf leiðinleg bið hjá mönnum, að vita ekki, hvort þeir verða teknir af eða settir á. En það verður að hafa það. Það er þeirra að kvíða, þangað til þetta mál er komið í höfn, þannig að þeir viti, hvort þeir verði settir á eða teknir af, en það er ekki gott að trúa orðum, jafnvel þó að það séu orð hæstv. félmrh., sem stendur nú í langvarandi ástarmakki við Alþfl. um sameiningu, þá er fallvalt að trúa orðum hans í þessu máli, og það getur verið líka, að þar sé um fleiri mál að ræða.

Ég hygg, að það sé engin gleði, hvorki í Framsfl., SF né Alþb. yfir þessu frv. Ég hygg, að flestir vilji í hjarta sínu, að þennan óskapnað dagi uppi hér á Alþ. En hins vegar er það að sumu leyti skiljanlegt með gamla menn, þegar þeir taka eitthvað í sig, að það hleypur í þá stífni. Þótt hann viti, að hér er um ómerkilegt frv. að ræða, illa samið og alls óundirbúið, þá hefur hann tekið í sig, að þetta skuli í gegn, hvað sem það kostar. Jafnvel þó að það þurfi að fresta hvítasunnunni, þá skal það í gegn.

Ég vil taka alveg undir þau orð, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér í lok ræðu sinnar, að það væri félmrh. og ríkisstj. og stjórnarflokkunum öllum til meiri sóma að láta þetta ófullburða afkvæmi daga uppi á þessu þingi en knýja það fram, eins og ætlunin er. En ég tek það svo að síðustu fram, eins og ég gerði raunar í gær líka, að þessi krógi er ekki eign félmrh. eins, hann er krógi allrar ríkisstj. og þeir eiga hann allir sjö.