18.05.1972
Neðri deild: 88. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar skemmtilegu umr. mikið. Hv. þm. Sjálfstfl. hafa sannarlega unnið hér nokkur dagsverk síðustu nótt og aftur nú. Ég verð að segja, að ég hef haft ákaflega gaman af á köflum að hlusta á þessa mælsku og skemmtilegu menn. En ég verð líka að segja, að þótt ég hafi haft gaman af þessum hv. þm., — það veit ég, að flestir aðrir þm. hafa haft líka, af því að þetta hefur verið einstök ánægjustund oft og tíðum. — þá get ég ómögulega fallizt á það, að hér sé um eitthvert sérstakt gamanmál að ræða. Eigum við að láta okkur detta í hug eitt augnablik, að Sjálfstfl. hefði fengið meiri hluta í síðustu kosningum? Ætli sé ekki trúlegt, að flokkurinn hefði viljað hafa meiri hluta í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar? Mér þykir það fyrir mitt leyti alls ekki neitt óskaplegt, að stjórnarflokkarnir vilji hafa meiri hluta í þessari stjórn. Það er nú einu sinni svo, að í fjölmörgum tilfellum er kosið í nýjar stjórnir eftir nýkjörið þing. Það er að vísu ekki í lögum þessara stofnana, en það er ekki neitt nýtt.

Það var nefnt hér áðan, að illt væri nú orðið hlutskipti Alþfl. og að mikil væri léttúð í kringum Alþfl. og húsnæðismálin. Mér hefur stundum fundizt í umr. þessa síðustu tvo daga, að það væri nú kannske dálítil léttúð í sumu af því, sem þar hefur verið sagt. Mér hefur fundizt sumt af því ekki beinlínis vera umræða um það frv., sem hér er til umr., hreint ekki. En að því er varðar léttúð Alþfl. í sambandi við húsnæðismál þori ég alveg að standa uppréttur og fara í samanburð við hv. Sjálfstfl. undanfarna áratugi. Ég á von á því, að þeir, sem muna upphaf stríðs hér á landi í sambandi við húsnæðismál muni, að það var sko ekki hv. Sjálfstfl., sem þar hafði neina forustu, og lengst af síðan hefur Alþfl. haft forustu um þær umbætur, sem hafa verið gerðar í húsnæðismálum þjóðarinnar, og nú sjá allir, hvernig þjóðin hefur byggt yfir sig, og mér er nær að halda, að það sé minna að þakka Sjálfstfl. en Alþfl., þótt lítill sé. Hitt er svo annað mál að Alþfl. hefur notið stuðnings Sjálfstfl. og annarra flokka til margra þeirra mála, sem hann hefur verið að reyna að fást við. (Gripið fram í.) Aldeilis ekki, og þó það nú væri, að Sjálfstfl. hefði haft manndóm í sér til þess að hjálpa til. En gagnvart því frv., sem hér er um að ræða, sagði ég í gærkvöld og tek fram aftur, að það eru tvö veigamikil atriði, sem þarna er um að ræða. Hv. sjálfstæðismenn segjast vera með þeim, en halda svo uppi málþófi klukkutíma eftir klukkutíma til að reyna að tefja málið, og þá latínu skil ég ekki. Þessi tvö veigamiklu atriði lít ég svo á, að þau þurfi nauðsynlega að komast í gegn nú.

Þetta tal um stjórnina. Jú, auðvitað verður breyting hjá hv. Sjálfstfl. í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi einmitt lagt þetta fram, eins og raunar hefur komið fram, til þess að fá meiri hl. í þessari stofnun, og mér fyrir mitt leyti finnst það ekkert undarlegt. En að eyða nótt eftir nótt í að halda uppi málþófi um þetta finnst mér nánast ekki samboðið þessum stóra og sterka og, að því er mér er sagt, ágæta stjórnmálaflokki.