03.12.1971
Neðri deild: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa samþykki Alþfl. við þetta frv., enda þótt það hafi þegar komið fram í Ed. Ég tel ástæðu til að lýsa ánægju yfir því, að frv. siglir nú hraðbyri og verður væntanlega að lögum, áður en langt liður. Ég hygg, að það muni síðar meir verða talið til merkari lagasetningar á sviði atvinnu- og verkalýðsmála. Er sérstaklega ánægjulegt, að það virðist vera almennur stuðningur við frv. meðal allra þingflokka, ekki sízt bæði hjá launþegum og atvinnurekendum, sem stóðu að samningu þess fyrir atbeina hæstv. ráðh.

Það er eitt af viðkvæmari og erfiðari deilumálum í þjóðfélagi okkar, hversu mikil afskipti ríkis og löggjafa skuli vera af kaup- og kjaramálum. Verkalýðshreyfingin og önnur launþegasamtök standa dyggilega vörð um samningsréttinn og spyrna undantekningalítið hart gegn því, að afskipti ríkisvalds og löggjafarsamkomu á þessu svíði gangi of langt. Þetta tel ég í grundvallaratriðum vera eðlilega afstöðu, enda þótt reynslan hafi sýnt, að fyrir koma þau atvik, er slík afskipti virðast óhjákvæmileg, og hefur það hér og annars staðar ekki siður komið fyrir hjá ríkisstj., sem flokkar vinsamlegir launþegum hafa staðið að, heldur en öðrum.

Ég hygg þó, að þetta frv. þurfi ekki að snerta deiluna um afskipti löggjafans af kjaramálum. Það er augljóst, að á ýmsum sviðum hlýtur að koma löggjöf til að tryggja lágmarksmannréttindi og ýmsar aðstæður, sem gera launþegum kleift að fá þau kjör, sem þeir geta bezt fengið og eiga kröfu á. Hér er greinilega um eitt slíkt grundvallaratriði að ræða, rammalöggjöf um vinnutíma, og um þetta atriði virðist einnig vera samkomulag með aðilum, svo að það ætti ekki að torvelda framgang málsins.

Það er einkenni á íslenzku atvinnulífi, hve vinnutími hefur verið og er langur hér á landi. Ég efast ekki um, að þessi langi vinnutími er ein meginástæða þess, að lífskjör þjóðarinnar hafa batnað svo á síðustu áratugum sem raun ber vitni. Samt eru allir sammála um, eins og fram hefur komið við afgreiðslu þessa frv., að vinnutímalengd séu takmörk sett, þess verði að gæta, að menn þurfi ekki mikinn hluta ævinnar að vinna stöðuga eftirvinnu og sæta svo þungri vinnubyrði, að það gangi út yfir líf þeirra eða heilsu.

Það er nú talið til frumstæðustu réttinda, að menn hafi lágmark frístunda bæði til hvíldar og til að gefa lífi sínu menningarlegt gildi. Það hefur því verið takmark okkar Íslendinga að reyna að koma málum svo fyrir, að fyrir eðlilega dagvinnu og eðlilegan vinnutíma væri hægt að greiða það kaup, sem nægði fyrir lífskjörum þeim, sem þjóðin óskar eftir og hefur að verulegu leyti haft með hinni miklu eftirvinnu. Það hefur þó sótzt seint að ná þessu marki, en það er von mín, að þetta frv. muni, þegar frá líður, verða liður í því að þoka okkur nær því.

Enda þótt þetta frv. verði gert að lögum, vitum við öll, að sá vinnutími, sem þar um ræðir, verður ekki að veruleika þegar í stað. Þegar eftirspurn eftir vinnuafli er töluvert meiri en framboðið, eins og nú er hér á landi, er við því að búast, að menn bjóði vinnu sína fram og auki þar með tekjur sínar. Það mun því vafalaust taka sinn tíma að gera inntak þessa frv. að raunveruleika. En við skulum vona, að það verði ekki of langur tími og okkur takist að finna jafnvægi í þessum efnum, þannig að vinnutími verði ekki aðeins eðlilegur, heldur jafn, og við getum forðazt þær sveiflur, sem hafa gengið yfir okkur, þegar sum árin hefur verið stórkostlegur skortur á vinnuafli, en önnur hefur ástand snúizt svo við, að komið hefur til atvinnuleysis.

Ég ætla ekki að gera einstök atriði frv. að umræðuefni. Er eðlilegra að gera það seinna, og raunar er búið að fjalla um þau atriði ítarlega og gera nokkrar breyt. á frv. í Ed. Ég vil aðeins að lokum nefna einn alvarlegan annmarka, sem er á þessu frv. Hann er sá, að það nær ekki til allra vinnandi manna á Íslandi. Meðal þeirra, sem frv. nær ekki til, eru bátasjómenn, ein af þýðingarmestu vinnustéttum okkar og ein af þeim stéttum, þar sem vinnan er oft hvað erfiðust fyrir einstaklingana. Má því segja, að það væri enn ríkari ástæða til að gera endurbætur á vinnutíma fyrir þessa stétt en nokkra aðra. Hitt vitum við þó, að það er erfiðara að tryggja bátasjómönnum bætta stöðu í þessu efni, vegna eðlis vinnunnar á skipunum, heldur en er fyrir stéttir í landi.

Umr. um þetta frv. í Ed. hafa þegar leitt til þess, að fram eru komnar tvær till., önnur frá Alþfl.-mönnum, hin frá þm. SF í Ed., um að þetta mál verði tekið upp sérstaklega. Og það var raunar mál manna í Ed., að það yrði að taka vinnutíma og hvíldartíma bátasjómanna til sérstakrar athugunar. Ég vil því skora mjög á hæstv. ríkisstj, og raunar þingið allt að sinna þessu máli og láta ítarlega rannsókn á vinnutíma og hvíldartíma bátasjómanna fylgja þegar í kjölfar þessa frv., þannig að ekki þurfi langur tími að líða, þangað til við getum gert sambærilegt átak fyrir sjómennina.