18.05.1972
Efri deild: 95. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. varð ókvæða við ræðu minni hér fyrr í þessum umr., eins og deildin varð áheyrandi að og ásjáandi. Það var ömurlegt að horfa upp á það, hvernig ráðh. hellti úr sér fúkyrðum og komst algerlega hjá því að ræða nokkurt atriði efnislega. Þó var það svo, að ég kom inn á mjög mörg efnisleg atriði í ræðu minni, vék að ýmsu, sem sérstaklega varðaði afstöðu félmrh., spurði um afstöðu hans til tillagna, sem hann hafði í fjölmörgum tilfellum borið fram hér á hv. Alþ. árið 1970, spurði hann fleiri spurninga um hin þýðingarmestu mál bæði varðandi fjáröflun til kerfisins og útlánastarfsemina. Þessi hæstv. ráðh. leyfði sér að svara ekki einni einustu spurningu um hin þýðingarmiklu mál eða koma að þeim efnislega. Ég segi, það var ömurlegt að horfa upp á þetta, en það verður þó að viðurkennast, að þessi málflutningur virðist vera alveg í fullu samræmi við undirbúning þessa máls og eins og það ber að af hálfu hæstv. ráðh.

En ég ætla ekki hér núna að fara að endurtaka þau málsatriði, sem ég vék að í fyrri ræðu minni. Ég vil þó aðeins víkja að tilteknu atriði. Það er í sambandi við vísitölubindinguna. Hæstv. félmrh. talaði eins og ég væri á móti því að afnema vísitölubindinguna. Það var óþarfi af hæstv. ráðh. að láta orð falla á þá leið. Ég tók einmitt skýrt fram, að ég væri því fylgjandi, en ég sagði aðeins, að ég væri ekki viss um, að það væri rétt að fara hálfa leið í því efni, eins og hæstv. ráðh. gerir með frv. því, sem hér liggur fyrir, því að það er ekki lögð niður vísitölubindingin. En í þessu sambandi spurði ég hæstv. ráðh. að því, hvernig stæði á því, hvaða efnisástæður væru fyrir því, að hann bæri ekki núna fram till. hreinlega um afnám vísitölubindingarinnar, eins og hann gerði 1970. Að sjálfsögðu kom hæstv. ráðh. ekki að þessu.

Ég álít, að af mörgu þýðingarmiklu sé það einna þýðingarmest að gera sér alveg fyllilega grein fyrir því, hvaða áhrif takmörkun á vísitölubindingunni hefur á fjáröflunina til kerfisins, annars vegar í sambandi við sölu bankavaxtabréfa og hins vegar í sambandi við skyldusparnaðinn. Ég vék að þessu hvoru tveggja í fyrri ræðu minni og ég benti á það, að kjör bankavaxtabréfanna rýrna stórlega, eða að sama skapi og kjör lántakenda batna. Og ég spurði að því, hvað ætti að gera á móti til þess að gera bankavaxtabréfin auðseljanlegri. Og ég minnti á það, að hæstv. ráðh., þegar hann lagði þetta sama til hér á hv. Alþ. 1970, sá þennan vanda, og þá lagði hann til, að það yrðu veitt sérstök skattfríðindi þeim sem kaupa bankavaxtabréfin. Nú gerir hann þetta ekki. Mín spurning til hæstv. ráðh. var: Hverju sætir þetta og er þetta ekki alvarlegur hlutur? Hann hefur ekkert fjallað um þetta.

Hitt atriðið varðar skyldusparnaðinn. Ég hélt því fram. að eins og frv. núna liggur fyrir og ef það verður samþ. í því formi, sem það kom frá Nd., þá þýðir það, að þeir, sem eru bundnir skyldusparnaðinum, fá ekki nema 7.5% vexti. Hæstv. ráðh. muldrar í stól sínum, að þetta sé ekki rétt, en ég óska eftir því, að hann gefi skýlausa yfirlýsingu um þetta hér úr ræðustól. Það er ekki hægt að misbjóða þessari hv. d. þannig að neita að svara þessari spurningu, svo viðamikilli spurningu, áður en þetta mál gengur til nefndar.

Ég vil aðeins víkja nánar að þessu atriði. Í 5. gr. gildandi laga eru ákvæði um útgáfu bankavaxtabréfa til fjáröflunar fyrir almenna veðlánakerfið. Þar eru líka ákvæði um vísitölubindinguna. Í 8. gr. eru hliðstæð ákvæði um vísitölubindinguna varðandi útlánin úr kerfinu. Í 11. gr. eru ákvæði um það, að skyldusparnaðurinn njóti vísitölukjara og þar er vitnað í 5. gr. laganna. Þegar hæstv. ráðh. leggur frv. fram, felur það í sér breytingu á ákvæðum 8. gr. laga um vísitölubindingu. Þetta var ákaflega einkennilegt, því að ef frv. hefði verið óbreytt, þá hefði verið misræmi á milli fjáröflunarinnar að þessu leyti og útlánanna, því að það er ekki gerð hliðstæð till. um hliðstæða breytingu í 5. gr. laganna. Þannig her frv. að garði. Og samkv. frv. eins og það kemur fram er þetta rétt, sem hæstv. félmrh. virðist vera að halda fram, að skyldusparendurnir fá óbreytta vexti, vísitölubundna, ef frv. er samþ. óbreytt. Hæstv. ráðh. kinkar kolli og samþykkir þetta. Ja, gott og vel. En það er framhald sögunnar, og það er nú eitt dæmið um þá hroðvirknislegu málsmeðferð og undirbúning þessa máls, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að bera fram frv. aðeins um breytingu á vísitöluákvæði 8. gr. laganna, sem er varðandi útlánin, en ekki 5. gr., varðandi fjáröflunina. Þetta sá hv. Nd. og þar var borin fram brtt. um það, að gerð skyldi verða sama breyting á vísitöluákvæðunum varðandi 5. gr. um fjáröflunina eins og í 8. gr. Þessi brtt. var samþ. í Nd. og nú liggur frv. fyrir okkur þannig, eins og það kemur frá Nd., að það er búið að breyta vísitöluákvæðunum bæði í 8. og 5. gr. frv. En eftir sem áður vitnar 11. gr., sem varðar skyldusparnaðinn, í 5. gr. En þegar búið er að breyta 5. gr. þannig, að það verða ekki nema 7.5% vextir og vitnað er í hana í skyldusparnaðargreininni, þá er augljóst mál, að ef frv. verður samþ. eins og það kemur frá Nd., þá eiga skyldusparendur ekki rétt á nema 7.5% vöxtum.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að þetta væri ekki rétt, og hann sagði það í fyrra skiptið, sem ég benti á þetta. En ég tek það ekki gilt, þó að hann muldri eitthvað í sæti sínu. Ég geri þá kröfu til hæstv. ráðh., að hann lýsi því úr ræðustól hvort skyldusparendur eiga að fá 7.5% vexti, eins og ég held fram, ef frv. verður samþ. óbreytt, eins og það kemur úr Nd., eða hvort það eigi að vera óbreytt vaxtakjör á skyldusparnaðarkerfinu. Þetta er einfalt mál og hann getur gefið yfirlýsingu um þetta mál. Ef hæstv. ráðh. treystir sér ekki til þess eða vill ekki gera slíkt, þá er það óvirðing við þessa hv. d. og óvirðing við Alþingi.