18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel með öllu ástæðulaust að halda áfram frekara karpi við hv. 5. þm. Vestf. um þetta mál. Við skiljum þetta hvor á sinn veg. Það er staðreynd og við því verður ekki gert. Ég gat ekki heldur fundið annað, — sú athugun var að vísu lausleg, sem öll n. gat á þessu gert — það kom ekki heldur fram hjá flokksbræðrum hans, að þeir skildu þetta á annan veg þar. En ég játa það, að það var aðeins mjög lausleg athugun, og ég athugaði þetta síðar frekar sjálfur og ég stend enn í þeirri meiningu, sem ég hélt fram áðan, en ætla þó ekki að karpa neitt um það. Ég get getið þess aðeins, að ég ræddi þetta við ráðuneytisstjórann í félmrn. í kvöldmatartímanum, og hann hafði á þessu sama skilning og ég. Ég segi það þess vegna, að ég sé ekki neina ástæðu til þess að tefja hérna frekar tímann með þessu, en ég er sannfærður um það, að þar sem þessi er skilningur rn. og ráðh., að hér sé ekki um neina skerðingu að ræða á vísitölu á skyldusparnað, þá sýnist mér það gefa auga leið, að komi í ljós, að minn skilningur, ráðuneytisstjórans og ráðh. á þessu sé rangur, þá verði það leiðrétt með öðrum hætti en hér getur farið fram. Ég held, að það yrði til þess að tefja málið og stefna því í algera óvissu, ef farið yrði að gera breytingar á því eða farið að freista þess núna, en ég mundi álíta, að það væri alveg öruggt fyrir hv. þd. að treysta því, að á þessu verði ekki gerð breyting, jafnvel þó að svo væri, að sá skilningur, sem ég hef á lagasetningunni, sé rangur. Það yrðu þá gerðar ráðstafanir til þess, að það yrði leiðrétt með öðrum hætti, hætti, sem hv. 5. þm. Vestf. kannast vel við, vegna þess að hann var ekki óalgengur í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj.

Til þess að stytta mál mitt læt ég þetta nægja og fer ekki út í frekari uppblástur á þessu. En ég dreg það hins vegar í efa, að það hafi ekki verið raunverulega um það að ræða, að skyldusparifjáreigendur hafi verið hlunnfarnir, ef svo hefur verið, að þeir hafi verið tengdir við 6. mgr. eða þeirra kjör, en ekki bara 5. mgr., eins og kveðið er á í 11. gr., því að sú tenging, sem hann ræðir þarna um, tengir að mínu viti 11. gr. alls ekki við 6. mgr., heldur aðeins við þá 5., og þá mega allir sjá, að ef það er rétt, sem ég tel víst, þá hafa þeir, sem eiga skyldusparifé inni, ekki, fengið það, sem þeim ber lögum samkvæmt. En það þyrfti líka að koma fram.