20.05.1972
Neðri deild: 90. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég var kvaddur í síma og vissi þannig ekki, hvernig þessar umr. upphófust, en mér skilst, að þær fjalli um útsíðufrétt mikla í Morgunblaðinu í dag, þar sem frá því er skýrt, að við Magnús Kjartansson hæstv. iðnrh. höfum staðið í stríðu undanfarna daga, verið nánast því í hárinu hvor á öðrum, og tilgreind deiluefnin, lagmetisverksmiðja og húsnæðismál. Svo mikið er víst, að um sannleiksgildi þeirrar fréttar get ég sagt það eitt, að þar hefur Morgunblaðið sýnt okkur mikla viðhöfn með því að fara að ljúga á útsíðum, á fréttasíðum, því að fréttin er alröng. Hitt er annað mál, að það er alkunnugt, að lífsskoðanir okkar Magnúsar Kjartanssonar falla ekki saman í öllu og einu, en þá værum við orðnir skrýtnir, ef við værum dag hvern að rífast um okkar mismunandi lífsskoðanir, þær ber ekki á góma á hverjum degi. Það getur vel verið, að við teljum það ekki einu sinni ómaksins vert að leiða talið að því, því að við vitum hvor um annan á því sviði, að við höfum ekki sömu lífsskoðanir í einu og öllu og ekki heldur á pólitíska sviðinu. En fréttin í Morgunblaðinu núna er ekki sönn, þótt einn ritstjóri Morgunblaðsins komi og fullyrði það. Þeir yrðu að koma hér allir í kór til að nokkur tryði því.