16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

131. mál, bann gegn veiðum með flotvörpu og botnvörpu

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð. Það fer ekki á milli mála, að það mætti fjölmargt betur fara í þessum fiskveiðiheimildum, en lokun sumra svæða við landið hefur orðið til þess, að togbátar á lokuðu svæðunum hafa hópazt þangað, sem opið hefur verið. Þetta er mjög hættulegt fyrir togsvæði sunnanlands. Við Vestmannaeyjar er opið upp í landsteina, og þangað hafa bátar að sunnan s. l. sumar og stundum áður komið í vaxandi mæli. Ég álít, að þar ætti t. d. að miða við bátastærð. En vegna tímaleysis auk væntanlegrar útfærslu álít ég, að ekki sé unnt að breyta þessu í veigamiklum atriðum. Ég treysti því, sem segir í grg., að þetta verði allt saman endurskoðað mjög vel á næsta ári, og samþykki frv. því í því trausti.