03.12.1971
Neðri deild: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forsetl. Varðandi síðasta kapítula í ræðu hv. 1. þm. Sunnl., ósk eftir gögnum, þá get ég sagt honum það, að ríkisstj. er fyrir þó nokkuð mörgum dögum búin að taka um það ákvörðun, að öllum þm. skuli afhent þau gögn, sem farið hafi í hendur samninganefndanna. Ef það er ekki komið, þá hefur orðið einhver framkvæmdartöf á því. En varðandi önnur gögn hjá Efnahagsstofnuninni, hygg ég, að sé engin tregða á því hjá henni að láta þm. í té skýrslur og upplýsingar um stöðu þjóðfélags og atvinnuvega. Ég held, að þm. hljóti að eiga greiðan aðgang að því. Ég hef a.m.k. alltaf reiknað með því, og sem þm. hef ég oft og tíðum farið í Efnahagsstofnunina til þess að óska slíkra gagna og jafnan fengið þau með einni undantekningu. Það var þegar Vestfjarðaáætlunarfyrirbrigðið var á ferðinni, en það var alltaf einhver hula yfir því, hvort það plagg væri til eða ekki.

Ég vil annars þakka þær undirtektir, sem frv. um styttingu vinnuvikunnar hefur fengið, einnig hér í hv. Nd., og undrast það ekkert, þó að menn hafi eitthvað við það að athuga, hvernig málið hafi borið að, eða hvort þeir telji, að um þetta eigi að setja lög eða ná samningum um það. Það er búið að leita samninga um þetta mál í fleiri en eitt skipti, og það hefur ekki gengið greiðlega. Þess vegna var það mörkuð stefna verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúa hennar, sem sátu við samningaborð, þegar verið var að mynda þessa hæstv. ríkisstj., að nú skyldi bundinn endi á þrætu með því að ákveða þetta með lögum, enda er þetta efnisatriði, sem í öllum nágrannalöndum okkar hefur verið ákveðið með lögum sem þáttur í vinnuverndarlöggjöf.

Það er rétt, sem hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal, sagði, að verkalýðshreyfingin heldur fast í samningsréttinn og helgi hans, en hins vegar hefur hún alltaf verið á því, að mannréttindamál, sem verkalýðshreyfingin legði mikið upp úr að fá varanlega staðfest sem þjóðfélagsréttindi, yrðu afgreidd með löggjöf, og þarf ekki að minna hv. þm. á mörg slík mál. Annað slíkt mál er hér á dagskrá, sem hv. þm. hafa áður tekið þátt í að lögfesta, mannréttindamálið um orlof.

Þetta frv. byggir á því, að verkafólkið, fólkið, sem vinnur erfiðu störfin í þjóðfélaginu, fái sama vinnutíma viðurkenndan af ríkisvaldinu og ríkisvaldið viðurkenndi á liðnu ári til handa opinberum starfsmönnum. Það er ekki verra en þetta. Og svo eru menn hér að tala um það, að það riði á að stilla vinnutímanum í hóf. Hefur honum ekki verið stillt í hóf af fráfarandi ríkisstj. með því að ákveða 40 stunda vinnuviku hjá opinberum starfsmönnum? Við erum að fara þessa sömu hófsemdarleið. Ef hér er farið út í eitthvert óhóf um stuttan vinnutíma til handa fólkinu, sem framleiðslustörfin vinnur í þjóðfélaginu, þá er fordæmið hjá fráfarandi ríkisstj. og engum öðrum. Það hefur nú verið upplýst hér í umr., að ef menn telja, að frv. fari fram á skemmri vinnutíma í raun en opinberir starfsmenn búa við, þá er það misskilningur, því að einmitt innan ramma laganna rúmast það að haga kaffitímum svo, að vinnutíminn verði sá sami og hjá opinherum starfsmönnum, og það eru aðilarnir við samningaborðið búnir að koma sér saman um, að vinnutíminn samkv. þessu frv., ef það verður að lögum, skuli vera hinn sami og hjá opinberum starfsmönnum.

Það var, held ég, hv. 8. landsk. þm., sem minntist á það sem annmarka á frv., að stytting vinnuvikunnar næði ekki til fiskimanna á vélbátum, sjómanna á fiskiskipum. Þetta er rétt. Það er í fjórum atriðum talið upp fólk og starfshópar og stéttir, sem menn hafa ekki fundið ráð til að láta löggjöf sem þessa ná til. Og engin af þeim þjóðum, sem hefur sett vinnuverndarlöggjöf, hefur sett vinnuverndarlöggjöf í þessu formi, sem næði til sjómanna, kaupafólks og vinnuhjúa, sem ekki eru ráðin samkv. stéttarfélagasamningum, og forstöðumanna og annarra slíkra, sem atvinnurekendur geta ekki fylgzt með vinnutíma hjá. Það er ekki af ásetningi, að verið er að taka þessar stéttir út úr og neita þeim um þau réttindi, sem þessi löggjöf fer fram á. Það hefur hvergi fundizt ráð til þess að gera það í formi slíkrar löggjafar. En ég vík því til þeirra manna úr öllum flokkum, sem taka þátt í nefndarstarfi, að ef þeir finna ráð til þess að taka t.d. sjómenn á fiskiskipum með í löggjöf sem þessa, þá komi þeir með till. um það. Annars hef ég sagt, að ég held, að það verði að gera í öðru formi, í annars konar löggjöf, eitthvað helzt í líkingu við vökulögin, sem helga togarasjómönnum ákveðinn hvíldartíma og fyrirbyggja, að þeir séu ofþjakaðir með of löngum vökum. Það gekk ekki vel á Alþingi Íslendinga að tryggja sjómönnum þau mannréttindi á sínum tíma, og mættu ýmsir menn minnast þess. Ég veit vel, að það á sér nú stað á vélbátaflotanum okkar, að vinnutími fer í aflahrotum langt fram úr öllu hófi. Ég veit, að þess eru allmörg dæmi, að vinnutími fari þar yfir 100 tíma á viku, og það er vafalaust komið svo, að það er full ástæða til að reisa þar skorður við. En hitt veit ég, að það er öllum ljóst, að það er ekki til neins að setja ákvæði um 40 stunda vinnuviku á fiskibátum, að menn skuli vinna 40 stundir aflaleysisvikuna og ekki fara yfir 40 stundir, þegar aflahrotan kemur. Það mundi enginn stunda sjó á Íslandi undir slíkri löggjöf, svo mikið er víst, ef menn vilja færa það endilega í þennan búning og segja, að úr því að það fylgi ekki, þá sé það galli á löggjöfinni. Þessu er ekki hægt að koma við í þessu formi. En ég segi: Ef einhver hefur hugkvæmni til, þá komi hann með till. um það innan ramma þessa frv. Það á ekki andúð að mæta af minni hendi.

Hér er talað um, að það sé skammt öfganna á milli, það sé nauðsynlegt að fyrirbyggja of langan vinnutíma, og það sé líka slæmt, ef ákvæði séu sett um of stuttan vinnutíma. Ég get vel fallizt á þetta. Þarna verður að vera ákveðið hófsemdarsvið. Ef ákveðinn er stuttur vinnutími, þá leiðir af því, að hinum auknu tómstundum þarf að verja á skynsamlegan hátt, og þá er það skylda menningarþjóðfélags að búa svo um með félagslegum aðgerðum, að tómstundirnar verði notaðar fólkinu til góðs, en ekki til ills, þeim veitt menningarleg aðstaða til þess að neyta tómstundanna. Og það er m.a. skylda okkar á Alþingi Íslendinga að búa svo um, að allir, ungir og gamlir, í hvaða stétt sem er, eigi þess kost að neyta tómstunda sinna á mennilegan hátt.

Ég sagði, að einhugur og samstaða hefði náðst um frv. í hv. Ed., og átti ég þá við þá niðurstöðu, sem þar varð, að allir nærstaddir dm. úr öllum flokkum greiddu atkv. með frv., og taldi ég það óræka sönnun þess, að menn væru sammála um þessa mannréttindalöggjöf verkafólki til handa. En þessu er hálfvegis mótmælt hér, og veit ég ekki, hvað að baki býr, en má vera, að það hafi verið mikill ágreiningur innan þingflokks Sjálfstfl. um afstöðu til málsins. En svo mikið er víst, að mér virðist niðurstaðan hafa orðið sú, að menn skyldu greiða atkv. með frv., og það er það eina, sem máli skiptir. Hins vegar er það rétt, að líkt og menn í ýmsum atriðum gerðu aths. við frv., höfðu uppi andmæli um, hvernig það hefði borið að, það ætti ekki að lögfesta þetta o.s.frv., það er eins og um manninn, sem sagði:

„Biblían er sem bögglað roð fyrir brjósti mínu.

Lærði ég hana alla í einu,

þótt ekki kæmi að gagni neinu.“

Þetta virðist eitthvað bögglast fyrir brjósti manna, þó að þeir séu búnir að kyngja því að vera með frv.

Hér var sagt áðan, ég held af hv. 1. þm. Reykv., að hann teldi óráð, að ríkisstj. skyldi ákveða að setja um þetta löggjöf. Já, sér er nú hvert óráðið að taka undir margra ára margyfirlýsta stefnu verkalýðshreyfingarinnar! Það er óráðið, sem hér er verið að tala um. Ég tel þetta ekkert óráð, engan klaufaskap, eins og hv. 1. þm. Sunnl. vildi kalla þetta líka. Það er ekkert óheppilegt við það frá sjónarmiði verkalýðshreyfingar eða núv. ríkisstj. að hafa tekið um það ákvörðun og lýst yfir því, að ríkisstj. ætli sér að ná þeim markmiðum, sem leiddu til kjarabóta fyrir verkafólk, og lofa því ákveðið að setja löggjöf um fjögurra vikna orlof og 40 stunda vinnuviku, — ekkert óráð. Það var ekki nema gott fyrir alla, bæði atvinnurekendur og verkalýðsfélögin, að vita það, að um þetta þyrfti ekki að þvæla fram og aftur, þetta mundi gerast. En hins vegar var boðið upp á þau vinnubrögð, að menn tækju þátt í að móta löggjöf um, hvernig þetta skyldi gert, og það er það, sem hefur gengið svo farsællega, að samkomulag hefur náðst um tvenn lög, annars vegar um orlofið og hins vegar um styttingu vinnuvikunnar, þannig að mjög lítið, um örfá atriði, ber á milli, en samkomulag algert um yfirgnæfandi meiri hluta atriða, sem hér koma til greina. Ég er alveg undrandi á því að kalla þetta óheppileg vinnubrögð og hafa uppi fullyrðingar um það, að þetta hafi tafið fyrir samningum. Þessi atriði hefðu áreiðanlega orðið illleysanleg við samningaborð, ef ekki hefði legið fyrir nú frá byrjun, að þetta þyrfti ekki að þvæla um, þetta yrði gert, en þeir ættu kost á að hafa áhrif á, hvernig það yrði gert.

Ég held, að það sé því alveg röng ályktun að slá því fram, að þessi leið ríkisstj., að lögfesta þessi tvö atriði, hafi þvælzt fyrir samningum og tafið samningana. Ég held áreiðanlega, að þessi atriði hafi greitt fyrir samningunum. Hitt er vitanlega rétt, að þegar það liggur á borðinu, að þetta tvennt eigi að gerast í kjaramálum og réttindamálum verkalýðsins, þá er það alveg sjálfsagt, og það er hárrétt, að þá minnkar svigrúm til sjálfra kaupbreytinganna, sem gætu orðið, og það er öllum ljóst. Það var líka öllum ljóst, að það hefði áhrif á það svigrúm; sem væri til kaupbreytinga, hvort þessi mannréttindi væru fengin í einum áfanga eða í tveimur, þremur eða fjórum. En svo mikla áherzlu lögðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar við samningaborðið á þessi mannréttindaatriði, að menn vildu heldur þrengja svigrúm sitt í kaupgjaldsbreytingunum og taka þetta í einum áfanga. Það val hefur verið gert. Þó er hugur manna svo opinn til samkomulags um þetta, að ákvæði til bráðabirgða eru aftan við frv., þar sem gefið er svigrúm einmitt í þessu tilfelli að semja um það, þar sem aðilar gætu komið sér saman um það, hvort þetta skuli tekið í einum áfanga eða tveimur. Ákvæði til bráðabirgða eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga þessara er aðilum vinnumarkaðarins heimilt að semja um að fresta til 1. jan. 1973 allt að helmingi þeirrar styttingar vinnuvikunnar, sem af gildistöku laganna leiðir.“

Þarna er haldið opnum dyrum um það, að á þeim félagssvæðum, þar sem samkomulag geti orðið um að skipta þessu í tvennt, þá sé það heimilt. Og þetta er einmitt sýnishorn af því, hversu rúmar heimildir felast í þessu frv.

Ég sagði áðan, að þetta væri rammalöggjöf, þar sem möguleikar væru til að semja um margvísleg ágreiningsefni milli aðilanna innan ramma laganna. Í 2. gr. stendur, að að jafnaði skuli ekki unnar fleiri en 8 klst. í dagvinnu á degi hverjum, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé þá samið af aðilum. Í þessari gr. eru strax nímar heimildir. Í framhaldi af þessu segir svo: „Heimilt er að semja um tilfærslu á dagvinnutímum, þannig að dagvinnutímar verði fleiri en 40 á tilteknum árstímum og færri á öðrum.“ 3. gr. byrjar svo: „Heimilt er að semja um vaktavinnu.“ Í 4. gr. eru líka heimildir um að semja um það, hvenær matartímar skuli teknir. Í 5. gr. er algert samningafrelsi um lengd kaffitímanna til þess að fella þá inn í þann viðmiðunarramma, sem samkomulag hefur orðið um, að vinnutími skuli vera sá sami hjá erfiðisvinnufólkinu og hjá skrifstofufólki og öðru því fólki, sem öðlaðist þann rétt í fyrra. Í 7. gr. segir, að víkja megi frá lögunum með samningum, sem staðfestir verði af hlutaðeigandi heildarsamtökum, og heildarsamtökin, sem þarna eiga að skera úr, eru svo tilgreind. Ég held, að ég hafi því ekki ofmælt áðan, þegar ég sagði, að innan þessarar rammalöggjafar væru víðtækar heimildir, sem verkalýðsfélögum og atvinnurekendasamtökum væri ætlað að fylla út í við samningaborðið.

Ég held, að ég hafi með því, sem ég sagði áðan, um fullyrðingarnar um, að það væri óheppilegt að ákveða þetta með lögum, klaufaskapur að gera það þannig og þar fram eftir götunum, svarað þeim aðfinnslum, sem komu fram frá tveimur eða þremur hv. þm. um það. Ég held að þetta hafi verið alveg sjálfsagt, þegar litið er á forsöguna, að búið er að þreyta samninga um þetta hvað eftir annað án þess að ná árangri, og þegar búið var af fráfarandi hæstv. ríkisstj. að ákveða 40 stunda vinnuviku hjá öðrum stéttum, sem léttari störfin vinna, þá var það sjáifgefið, að verkalýðshreyfingin hlaut að taka þetta upp til úrslita. Og ég held, að það hafi hlotið að auðvelda allar samningaflækjur um þessi atriði, hvað sem öðru líður, að báðir aðilar gerðu sér ljóst, að þetta yrði. En þannig hefur verið á málum haldið, að aðilarnir gætu samt sem áður, þrátt fyrir ákvörðunina um 40 stunda vinnuviku, samið um margs konar tilhögunaratriði, og það hafa þeir gert og hafa náð eiginlega í öllum aðalatriðum samkomulagi um þau.

Þegar við lítum svo til annarra þjóða, eins og ég hef áður tekið fram, þá verða þessi ákvæði alls staðar í vinnuverndarlöggjöf þjóðanna. Og báðir aðilar vinnumarkaðarins sögðu í haust, þegar ég ræddi við þá: „Við viljum taka vinnutímaákvörðunina út úr almennri vinnuverndarlöggjöf, af því að við teljum það mál svo viðamikið og flókið, að það hljóti að taka langan tíma og geti ekki orðið samhliða þessum samningamálum nú, en teljum eðlilegt, að þetta atriði um vinnutímann verði síðan fellt inn í almenna vinnuverndarlöggjöf.“ AS þessu leyti er einnig farið að till. aðilanna á vinnumarkaðinum. (Forseti: Ég vil spyrja hæstv, ráðh., hvort hann eigi langt mál eftir.) Ég skal bara setja punkt hérna og amen, ef hæstv. forseti vill, og láta máli mínu lokið.