17.12.1971
Efri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

76. mál, afstaða foreldra til skilgetinna barna

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Ég get verið stuttorð um þetta frv. Efni þess er í rauninni alveg shlj. efni þess frv., sem síðast var til umr., en munurinn aðeins sá, að frv. fjallar um ákvæði um meðlög með óskilgetnum börnum, en þetta um ákvæði um meðlög með skilgetnum börnum. Mér láðist við umr. um síðasta frv. að geta um brtt., og shlj. brtt. er einnig við þetta frv. um, að í stað þess, að í frv. stendur, að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1972, er lagt til að greinin orðist þannig, að lögin öðlist þegar gildi. Þetta er, eins og ég býst við, að hv. þdm. hafi þegar séð, gert vegna þess, hve nærri er komið jólahléi á þingstörfum og þess vegna engin vissa fyrir því, að frv. hljóti fullnaðarafgreiðslu fyrir jól, þó að maður vonist til þess. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 216, hefur heilbr.- og félmn. einróma mælt með samþykkt frv. með þessari breytingu, sem ég áðan gat um, og einn nm., Ásgeir Bjarnason, var fjarverandi, þegar málið var afgr. í n.

Ég vil eins og í síðasta máli, sem hér var til umr., þakka meðnm. mínum fyrir góðar undirtektir og stuðning við frv., og ég vona, að ég megi einnig vænta hans af hálfu annarra þdm.