16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér viðstaddur við 1. umr. málsins, en mér finnst brydda hér mjög á líkum rökum og fram hafa komið í umr. hér og víðar um þetta mál, þ.e.a.s. að löggjafarvaldið eigi ekki að skipta sér af málum sem þessum, hér sé í raun og veru verið að fara inn á hið mjög svo helga svið hins frjálsa samningsréttar. Ég átti þess kost að mæta á fund heilbr: og félmn. Ed., þegar þetta mál var þar til meðferðar, og gerði þá grein fyrir afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til þessa máls og ekki hvað sízt einmitt þessu atriði málsins. Nú er það svo, að hvort tveggja verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda eru út af fyrir sig ekki sérstaklega meðmælt því, að það sé gripið inn í samningamál með löggjafarvaldi, og oft hefur verkalýðshreyfingin orðið að mótmæla því, að slíkt væri gert. En það segir hins vegar ekki, að við í verkalýðshreyfingunni, fólkið í verkalýðshreyfingunni, séum andvígir því, að löggjafarvaldið leggi lið sitt með velferðarmálum stéttarinnar, síður en svo.

Þetta mál, sem hér er til umr., er ekki samningamál eða kaupgjaldsmál í þeim skilningi, sem venjulega er lagður í þau mál. Hér er miklu frekar um að ræða vinnuverndarmál, og það er sú hlið þessa máls, sem við höfum lagt alveg sérstaka áherzlu á, og sannarlega er það löggjafaratriði og hefur verið hér í þessu landi sem og öðrum löndum, að vinnuvernd þegnanna er skipað með löggjöf. Ég ætla ekki að fara að telja upp mjög mörg dæmi þessa hér á landi, að Alþ. hafi sett lög í þeim efnum, og ég vænti þess, að þess verði ekki langt að biða, að við fáum hér fullkomna vinnuverndarlöggjöf. Það mál, sem hér er nú til afgreiðslu, er aðeins einu þáttur slíkrar löggjafar og hlýtur að koma inn í þá löggjöf, þegar þar að kemur. Ég ætla ekki heldur að tefja hér tíma þingsins með því að ræða þetta mál neitt nákvæmlega og ekki að fara að rekja sögu þess, hvers vegna þessi krafa verkalýðshreyfingarinnar um 40 stunda vinnuviku hlaut að verða dagskrármál þessa árs. Ég gerði það hér á þingi á s.l. vetri og lýsti þá yfir, að það væri ekki nokkur vafi á því, að verkalýðshreyfingin bæri fram við komandi samninga sem aðalkröfu 40 stunda vinnuviku, og bað alla, sem þar ættu hlut að máli, að taka það inn í sín dæmi.

Ég held, að það sé ekki neinn vafi á því, að kjaradeilan, sem nú að hluta til er leyst, — erfiðasti hluti hennar hefur þegar verið leystur án alvarlegrar vinnustöðvunar, — hefði orðið miklum mun erfiðari úrlausnar og áreiðanlega komið til harðra verkfallsátaka, ef ekki hefðu orðið þau stjórnmálalegu umskipti, sem urðu þess valdandi, að ríkisstj. tók einmitt þetta mál upp á sína arma á s.l. sumrí og lagði síðan fram frv. um bæði þessi mál, sem hér hafa nú verið rædd. Ég fullyrði það og tel mig hafa kunnugleika til að geta sagt það, að þessar vinnudeilur hefðu orðið mörgum sinnum erfiðari og átakameiri, ef þetta hefði ekki til komið.

Þeir tveir hv. þm., sem hér töluðu á undan, komu inn á nokkur einstök atriði. Það er alveg rétt, sem hv. 12. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, sagði, að æskilegt væri, að þessi lög hefðu tekið til fleiri. Það var öllum ljóst, þegar frv. var undirbúið. Það var alveg sérstaklega varðandi fiskimennina, sem mikið var rætt um, og mál þeirra verður að taka sérstaklega til meðferðar. Ég ætla ekki að fara að hugieiða hér, hvað hægt sé að gera. Varðandi húsmæðurnar verð ég að segja, að ég er hv. þm. mjög sammála, að það muni vera erfitt að setja lög, sem ákveða vinnutíma þeirra, en frv. sem þetta ætti að geta stuðlað að því einmitt varðandi húsmæður, hvort sem þær vinna einvörðungu á heimilum sínum eða utan þeirra þá ekki síður, að vinnuálag þeirra yrði ekki jafnmikið og þá í því tilliti, að vinnutími utan heimilis, bæði húsmóður og húsbónda, yrði styttri og þá meiri tími til að vinna sameiginlega að málum heimilisins, að ég tali ekki um, ef vinnutími húsmóðurinnar utan heimilis yrði styttri en annars væri.

Varðandi það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, sagði hér, þá verð ég að segja það, að mér þykir eiginlega leitt að hlusta á slíka ræðu frá að ýmsu leyti mætum manni. En hún var nú meira eins konar námskeiðsfyrirlestur, sem hefði átt að flytjast frekar í hópi stéttarbræðra hans, atvinnurekenda, en hér. Þar hefði hún sjálfsagt getað átt vel heima,, því að ýmislegt var þess efnis, sem þeir ágætu menn hefðu gott af að heyra. Ég ætla ekki að fara að ræða einstök atriði úr ræðu hans. Ég held, að við séum fullkomlega sammála um það og áreiðanlega allir þm. hér, að það er ekki hollt, að menn vinni ekki, og sannarlega er það ekki stefnumark verkalýðshreyfingarinnar, heldur þveröfugt, en hins vegar, að það séu sett takmörk fyrir vinnutíma, það held ég, að sé jafnrétt.

Síðan er kenningin um það, að kaupið væri hægt að hækka býsna mikið, allt upp í 20%, ef losnað væri við ýmsar vitleysur, sem búið væri að gera, svo sem lífeyrissjóði og annað þess háttar. Það er sjónarmið, sem ég gæti með engu móti deilt með hv. þm. Verkalýðshreyfingin hefur valið milli kjaraatriða oft á tíðum, hvort sem það er í formi beinna kauphækkana eða annarra kjaraatriða, sem hún metur meir, og kjaraatriða, sem eru þess eðlis, að þau eru varanlegri, brenna ekki eins upp í þeim ólgusjó efnahagsmálanna, sem við höfum nú orðið við að búa. En hins vegar höfum við gjarnan orðið þess varir, að atvinnurekendur vildu kaupa þessi kjaramál býsna háu verði, og það stóð ekki á því núna, að okkur væri boðið býsna hátt verð í kaupi fyrir styttingu vinnutímans. En við völdum núna þarna á milli og höfum gert það áður.

Það er ákaflega einfalt mál, hvers vegna atvinnurekendur vilja heldur þennan kostinn, þ.e.a.s. borga hærra kaup, en að láta af hendi önnur fríðindi. Það er einfaldlega vegna þess, að beinum kaupgjaldsákvæðum geta þeir ákaflega léttilega velt af sér, og sú er reynslan a.m.k. síðasta áratuginn, að það hefur þeim tekizt býsna vel, en hins vegar ekki öðrum kjaraatriðum, sem eru annars eðlis.

Að lokum fagna ég því, að þetta mál skuli vera til svo til endanlegrar afgreiðslu í þinginu. Hér er um stórmál verkalýðshreyfingarinnar að ræða, mál, sem var algert undirstöðuatriði þess, að samningar nú gátu tekizt.