07.02.1972
Neðri deild: 38. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

97. mál, sala Brekkuborgar í Breiðdalshreppi og Þorsteinsstaða í Sauðaneshreppi

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til athugunar og leitað umsagna um það að venju, bæði frá landbrn. og Landnámi ríkisins, og fengið umsagnir þessara aðila, sem báðar eru jákvæðar.

Þetta frv. er flutt samkv. beiðni hreppsnefndarinnar í Breiðdal. Hreppsnefndin telur það skynsamlegt, að hreppurinn eignist þessa jörð í þeim tilgangi alveg sérstaklega að geta af fremsta megni gert tilraunir til þess að byggja jörðina á ný. Hún hefur verið í eyði um stutt skeið, og hreppsnefndin væntir þess, að það megi takast að byggja hana á ný, ef hreppurinn fær eignarhald á jörðinni. Landbn. hefur fallizt á þessi sjónarmið og mælir með því, að orðið verði við þessari beiðni.

Þá er þess að geta í sambandi við þetta mál, að form. landbn., sem jafnframt er 4. þm. Norðurl. e., hafa borizt tilmæli um það að afla heimildar þingsins til handa ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Þorsteinsstaði í Sauðaneshreppi bændunum Marinó Jóhannssyni og Kristbirni Jóhannssyni. Þeir búa á Tunguseli í sama hreppi og hafa notað þessa jörð til beitar, Þorsteinsstaðina, sem lengi hafa verið í eyði, og fara þess nú á leit að fá eignarhald á jörðinni. Fyrir landbn. lá bréf frá oddvita Sauðaneshrepps, þar sem hann mælir með þessari jarðarsölu, og einnig umsagnir frá landbrn. og Landnámi ríkisins, sem báðar eru jákvæðar. Landbn. ákvað því að taka upp sem brtt. við þetta frv. um sölu jarðarinnar Brekkuborgar ákvæði um að heimila einnig sölu á Þorsteinsstöðum í Sauðaneshreppi. Þessi tilhögun hefur stundum verið viðhöfð áður í sömu tilvikum og hér um ræðir.

Landbn. leggur því til, að frv. verði samþ. með breytingum, sbr. þskj. 304, í þá átt, að á eftir 1. gr. frv. komi ný gr., þar sem heimilað er að selja nefndum bræðrum Þorsteinsstaði í Sauðaneshreppi.