10.02.1972
Efri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

97. mál, sala Brekkuborgar í Breiðdalshreppi og Þorsteinsstaða í Sauðaneshreppi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta var borið fram í hv. Nd. af þremur þm. Austf. Við meðferð málsins í Nd. var bætt inn í frv. nýrri gr., sem nú er 2. gr. þess, og fjallar sú gr. um sölu á jörðinni Þorsteinsstöðum í Sauðaneshreppi, en 1. gr. frv. felur í sér heimild til að selja Breiðdalshreppi jörðina Brekkuborg í Breiðdal í Suður-Múlasýslu. Það kemur fram í nál. landbn. hv. Nd., að frv. þetta hefur verið sent til umsagnar til landbrn., þ. e. jarðeignadeildar, og Landnáms ríkisins. Eru umsagnir um málið jákvæðar, og hefur það nú fengið fullnaðarafgreiðslu í Nd. Ég tel, að fullkomnar skýringar með þessu máli komi fram í grg. frv. og þeim umsögnum, sem birtar eru með áliti landbn. Nd., svo að ég tel ekki ástæðu til við þessa umr. að fjölyrða um það, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.