14.02.1972
Efri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

108. mál, sala Háls og Kambshjáleigu í Búlandshreppi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta er komið hingað frá hv. Nd. Það var flutt í Nd. af þrem þm. Austf. Frv. felur í sér heimild til handa ríkisstj. til að selja Búlandshreppi jarðirnar Háls og Kambshjáleigu í Búlandshreppi í Suður-Múlasýslu. Þessar jarðir liggja í næsta nágrenni Djúpavogs og eru báðar í eyði, en íbúar kauptúnsins hafa afnot jarðanna og þurfa margt þangað að sækja, m. a. er vatnsból Djúpavogs í landi jarðarinnar Háls að nokkru leyti og nýjum vatnsbólum verður á næstunni að koma upp annaðhvort í Hálslandi eða Kambshjáleigulandi. Einnig eru afnot af þessum jörðum til stuðnings við fjáreign þeirra, sem búa í kauptúninu á Djúpavogi, en byggðin í því kauptúni er nokkuð dreifð, og er meðal íbúa þar um talsverða sauðfjáreign að ræða.

Landbn. Nd. hefur sent þetta frv. til umsagnar bæði landbrn. og Landnámi ríkisins. Og það kemur fram, að báðir þessir aðilar mæla með samþykkt þessa frv. Í umsögn landbrn. segir, að báðar þessar jarðir hafi verið í eyði um alllangt skeið og ekki séu líkur til, að þær verði leigðar til ábúðar í framtíðinni, en hins vegar liggja þær vel við til sameiginlegra nytja fyrir þorpsbúa á Djúpavogi, og ekki verður séð, að sérstakir hagsmunir séu tengdir því fyrir ríkissjóð að eiga áfram jarðirnar. Landnámsstjóri tekur fram í umsögn sinni, að jarðir þessar séu litlar, húsalausar eyðijarðir, sem verið hafi í eyði lengi, og liggi 2–3 km frá byggðakjarnanum á Djúpavogi. Í nýja fasteignamatinu er Háls metinn á 58 þús. kr. og Kambshjáleiga á 16 þús. kr. Enn fremur tekur landnámsstjóri fram, að ekki verði séð, að jarðir þessar hafi þá kosti til að bera, að þær geti talizt framtíðarbújarðir, en hins vegar geti lönd þeirra verið nokkur stuðningur við fjárbúskap á Djúpavogi. Hann telur og, að það megi telja til forsjálni og framsýni hjá sveitarstjórnum að festa kaup á jörðum eða landsvæðum í nágrenni vaxandi þéttbýliskjarna.

Ég vænti þess, að þetta séu nægar skýringar hér við 1. umr. með þessu máli, og vil leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.