29.11.1971
Efri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að gera að umræðuefni eða taka neina afstöðu til þess mats eða þeirrar spár, sem Seðlabankinn hefur haft um þau lög, sem samþ. voru á síðasta þingi um happdrættislán ríkisins, og sem verður þess valdandi, að þetta nýja frv. er flutt varðandi þetta málefni. Mig langar aðeins nú við 1. umr. að gera að umræðuefni einstök atriði, en þau fá, sem ég vil benda á.

Höfuðbreytingin, sem gerð er á gildandi lögum, er sú, að sú heildarlánsupphæð, sem ákveðið er að gefa út, er hækkuð um 50 millj. kr., úr 200 millj. í 250 millj. kr. AS sjálfsögðu hef ég ekkert við það að athuga. Þessi hækkun er ugglaust ákveðin vegna þess, að það hefur þótt sýnt, að ekki mundi veita af því að bjóða út þetta vegna kostnaðar við vegagerðina.

Annað veigamikið atriði, sem hér kemur til í þessu efni, er það, að gert er ráð fyrir að verðtryggja skuldabréfin, en það var ekki í þeim lögum, sem samþ. voru á síðasta þingi. Út af fyrir sig má ætla, að skuldabréfin muni seljast betur með þessu móti, og það er þess vegna ekki ástæða til þess og sízt fyrir mig að hafa neinar aths. við það að gera. En að sjálfsögðu getum við ekki gengið fram hjá því, að sú ákvörðun verður að lokum til þess að auka kostnaðinn við þessa vegagerð, og ef hún er talin óhjákvæmileg, er ekkert við því að segja.

En það er eitt, sem ég tel sérstaklega, að ég þurfi að gera aths. við í sambandi við þetta lagafrv., og það er, að mér sýnist, að það, sem í gildandi lögum var fastákveðið, er nú að meira eða minna leyti bundið í heimildir. Í fyrsta lagi er það, að því er ekki slegið föstu, að skuldabréfin skuli verðtryggð, heldur er í 3. gr. sagt: „Heimilt er að verðtryggja skuldabréfin.“ Í annan stað er gerð um það till. í 6. gr., að fjmrn. ákveði tölu vinninga, fjárhæð þeirra hvers um sig og útdráttardag. Í lögum, sem eru í gildi, var þetta ákveðið. Þar voru ákveðnar tölur vinninga, og þar voru ákveðnir tveir útdráttardagar á ári. Hér er gert ráð fyrir að dregið sé út einu sinni á ári, og hygg ég, að það muni þó heldur verða til þess að gera bréfin óútgengilegri en þau annars væru, ef tvisvar væri dregið. Í þriðja lagi er ekki heldur ákveðið, hversu stór hver flokkur um sig verði, sem gefinn er út, heldur er það á valdi fjmrn. að ákveða það hverju sinni.

Þetta má kannske ætla, að séu ekki veigamikil atriði. En ég hygg, að það sé þó rétt, að sú n., sem fær þetta frv. til athugunar, reyni að gera sér grein fyrir því, hvort ekki væri affarasælla að binda þetta meira í fastar ákvarðanir í lögum en hafa jafnmarga hluti með heimildarákvæðum eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.