29.11.1971
Neðri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

96. mál, skipulagsskrá fyrir minningarsjóð hjónanna frá Suður-Vík og dætra þeirra

Flm. (Einar Oddsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. á þskj. nr. 109, er um breytingu á skipulagsskrá nr. 79 frá 18. sept. 1929, fyrir minningarsjóð hjónanna Halldórs Jónssonar og Matthildar Ólafsdóttur frá Suður-Vík og dætra þeirra, Guðlaugar og Sigurlaugar, til stofnunar elliheimilis fyrir Vestur-Skaftafellssýslu og Eyjafjöll. Frv. þetta er flutt að ósk stjórnar þessa minningarsjóðs, sem getið hefur verið um. Árið 1927 stofnuðu bræðurnir Jón Halldórsson og Ólafur Halldórsson, bóndi í Suður-Vík í Mýrdal, þennan sjóð til minningar um foreldra sína, hjónin Halldór Jónsson, kaupmann og bónda í Suður-Vík, og konu hans, Matthildi Ólafsdóttur, og tvær dætur þeirra hjóna, Guðlaugu og Sigurlaugu. Skipulagsskrá fyrir sjóðinn var svo staðfest hinn 18. sept. 1929, og er hún fskj. þessa frv.

Eins og nafn sjóðsins ber með sér, var markmið stofnenda að láta reisa elliheimili fyrir Vestur-Skaftafellssýslu og Eyjafjöll til fulls lífsframfæris handa ellihrumu fólki, eins og það er orðað í skipulagsskrá. Stofnfé sjóðsins var 15 þús. kr., sem mun hafa verið allmikið fé á árunum kringum 1930. Enn fremur gáfu stofnendur jörðina Suður-Hvamm í Mýrdal þar sem elliheimili skyldi reisa, sem skyldi verða full og óátalin eign sjóðsins frá þeim tíma, sem byrjað yrði á byggingunni, eins og stendur í 5. gr. skipulagsskrárinnar. Hér var um stórmannlega gjöf að ræða, sem ber vitni bæði um höfðingsskap og mannkosti gefenda. Halldór Jónsson, bóndi og kaupmaður í Suður-Vík, rak um langt skeið verzlun í Vik í Mýrdal, sem jafnan var kölluð Halldórsverzlun. Síðan rak Jón Halldórsson sonur hans þessa verzlun í mörg ár, og náði verzlunarsvæðið yfir Vestur-Skaftafellssýslu og Eyjafjöll. Árið 1927, þegar minningarsjóðurinn var stofnaður, voru almannatryggingar ekki komnar til sögunnar. Gamalmenni, sem voru eignalaus og umkomulaus, áttu á þeim tíma ekki margra kosta völ. Þegar þau gátu ekki unnið fyrir sér lengur, var oftast ekki um annað að ræða en leita á náðir sveitarfélagsins, en flestir munu hafa veigrað sér við því í lengstu lög og gera víst enn í dag.

Hugsjón stofnenda sjóðsins var að veita öldruðu fólki ókeypis vist og aðhlynningu til æviloka í hollum og hæfilega rúmgóðum bústað, eins og stendur í skipulagsskránni. Skyldu fátæk gamalmenni, ekkjur og einstæðingar, ganga fyrir öðrum við upptöku á heimilið, en vistin þar skyldi vera ókeypis. Þannig átti sjóðurinn að vera eins konar framfærslutrygging aldraðs fólks á þessu umrædda svæði — a. m. k. þeirra, sem við bágust kjör bjuggu. Bú átti að reka á jörðinni fyrir heimilið, stjórn sjóðsins átti að sjá um, að vistmenn á heimilinu gætu, ef þeir væru þess umkomnir, haft einhverja líkamlega vinnu sér til afþreyingar, en vinna þeirra átti að renna í staðinn til heimilisins. Vegna þeirra miklu þjóðfélagsbreytinga og breytinga á gildi íslenzkrar krónu, sem orðið hafa á síðustu fjórum áratugum, telur stjórn sjóðsins nú, að forsendur séu brostnar fyrir ýmsum ákvæðum skipulagsskrárinnar og þau verði ekki framkvæmd við núverandi aðstæður og að óbreyttri skipulagsskránni geti sjóðurinn ekki orðið að neinu liði við byggingu fyrirhugaðs elliheimilis. Stjórn sjóðsins ákvað á fundi sínum s. l. sumar að stofna umrætt elliheimili svo fljótt sem tök væru á. Þá höfðu borizt tvær stórar gjafir til elliheimilisins. Ólafur Kjartansson frá Skál á Síðu, sem lézt á elliheimilinu Grund nú fyrir nokkru, arfleiddi fyrirhugað elliheimili að mestum hluta eigna sinna eða rúmlega 1.6 millj. kr. Þá gaf Ágústa Vigfúsdóttir, ekkja Ólafs Halldórssonar í Suður-Vík, jörðina Rauðháls í Dyrhólahreppi eða land þeirrar jarðar öllu heldur. Þá hafa fleiri aðilar lofað fjárstuðningi við stofnun þessa, ef af verður.

Í 10. gr. skipulagsskrárinnar segir, að henni megi aldrei breyta að efni til. Þó verður að ætla, að hv. Alþ. geti breytt efni hennar með lögum, þegar aðstæður eru orðnar svo sem nú hefur verið skýrt frá, að útilokað er, að sjóðurinn geti orðið til styrktar því hlutverki, sem honum var ætlað í byrjun, að skipulagsskránni óbreyttri. Hér er um mál að ræða, sem á sér fá eða engin fordæmi. Þó má benda á, að með lögum hinn 12. maí 1969 var hreppsnefndinni í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu heimilað að selja jörðina Þykkvabæ I í Landbroti, sem gefin var hreppsnefndinni með þeim ákvæðum í gjafabréfi, að hún skyldi verða ævarandi eign hreppsins.

Frv. þetta hefur verið borið undir erfingja stofnenda, sem eru Ágústa Vigfúsdóttir, Reykjavík, og tvær dætur hennar og Ólafs Halldórssonar bónda í Suður-Vík, þær Ólöf Ólafsdóttir, Eskihlíð 20A, Reykjavík og Matthildur Valfells, Hrauntungu 46, Kópavogi. Við samningu þessa frv. hefur verið leitað samráðs við þessa erfingja, eins og fyrr segir, og einnig hefur verið leitazt við með frv. að tryggja það, að hugsjónir stofnenda verði í framkvæmd samræmdar þjóðfélagsháttum vorra tíma svo sem kostur er — þó þannig, að upphaflegum ákvæðum skipulagsskrárinnar verði sem minnst raskað, bæði að því er efni og form varðar. Fyrir þessa stofnun, elliheimili í Vestur-Skaftafellssýslu og undir Eyjafjöllum, er brýn þörf, eins og sjálfsagt víðast hvar annars staðar á landinu, og skal það ekki rakið hér, en ég mun fara örfáum orðum hér um greinar frv.

Þá er það 1. gr. frv. Aftan við 2. gr. skipulagsskrárinnar bætist: Heimilt er og einstaklingum og fyrirtækjum að láta gjafir renna í sjóð þennan. Samkv. 2. gr. segir, að stofnendur og erfingjar þeirra geti aukið sjóð þennan, ef þeir vilji, en það virðist vera gert ráð fyrir, að aðrir geti það ekki. En eins og málum er nú háttað, verður að teljast eðlilegt, að aðrir aðilar fái einnig að leggja fé í sjóðinn, ef þeir vilja, enda ekki sýnilegt, að elliheimilinu verði komið upp fyrir peninga sjóðsins eina.

Í 2. gr. frv. felst breyting á 3. gr. skipulagsskrárinnar. Í henni eru þau ákvæði, að peningaupphæð sjóðsins skal geymast og ávaxtast í lögleyfðum banka eða sparisjóði, í stað þess, að peningar sjóðsins áttu að geymast í Söfnunarsjóði Íslands. Þetta ákvæði munu stofnendur hafa sett, vegna þess að þeir hafa talið tryggara.að geyma féð í Söfnunarsjóði en öðrum lánastofnunum, sem þá voru miklu færri en nú er. Þessi forsenda er núna úr sögunni og bæði eðlilegra og handhægara að öllu leyti að geyma a. m. k. einhvern hluta fjárins í öðrum stofnunum. En þetta ákvæði breytir í engu því, að féð má geyma eftir sem áður í Söfnunarsjóði, ef það verður ákveðið af stjórn félagsins.

3. gr. frv. hljóðar svo: „Úr 4. gr. skipulagsskrárinnar falli niður málsliðurinn: Öllu fólki, sem á heimilið er tekið, veitist þar með að öllu leyti ókeypis vist og aðhlynning, svo fremi sem eigi þarf að flytja það á sjúkrahús.“ Eins og málum er háttað í dag, er það útilokað með öllu af kostnaðarástæðum að veita öldruðu fólki ókeypis vist á svona stofnun, enda eru komnar til sögunnar nú ellitryggingar, eins og allir vita, sem bæta þarna úr að miklu leyti.

Samkv. 5. gr. skipulagsskrárinnar átti að reisa elliheimilið á jörðinni Suður-Hvammi, en frv. gerir ráð fyrir því, að það verði stofnað í Vík í Mýrdal, þar sem allar ástæður mæla með því nú. Þar er fyrir hendi héraðslæknir og betri möguleikar á allri þjónustu við heimilið. Auk þess tel ég, að það sé betra fyrir aldraða fólkið og á allan hátt skemmtilegra að vera innan um annað fólk, umgangast annað fólk á öllum aldri, en vera ekki einangrað á einhverri jörð uppi í sveit. Og þá er einnig gert ráð fyrir því í 5. gr. skipulagsskrárinnar, að á elliheimilinu dvelji þau gamalmenni, sem sjóðurinn veitir lífsuppeldi. Hér verður sú breyting á í samræmi við það, sem ég hef áður skýrt frá, að í staðinn fyrir lífsuppeldi kemur: „... gamalmenni þau, sem sjóðsstjórnin veitir viðtöku . . .“

2. málsl. 6. gr. skipulagsskrárinnar hljóðar svo: „En til alls þessa, byggingar og annars, má eigi verja meiru af fé sjóðsins en svo, að stjórn hans þyki öruggt, að 3/4 hlutar árlegra vaxta af eftirstandandi höfuðstól nægi undir venjulegum kringumstæðum til þess að standast kostnað stofnunarinnar í rekstri og halla, er á búinu kynni að verða, og mega þeir ganga til þess, en 1/4 hluti vaxtanna leggist við höfuðstólinn, til viðhalds stofnuninni og aukningar síðar meir.“

Eins og málefnum sjóðsins er háttað í dag, þá er óframkvæmanlegt að framfylgja þessu atriði skipulagsskrárinnar, enda ekki gert ráð fyrir því í þessu frv. eða nú ekki gert ráð fyrir því, að það verði rekið bú á þessari jörð fyrir elliheimilið, né heldur að elliheimilið verði stofnsett þar. Eins og kom fram í grg., nemur upphæð sjóðsins nú ekki nema 205 077 kr., þannig að það er algerlega ómögulegt að framfylgja þessu ákvæði.

Um 6. gr. frv. er það að segja, að í 7. gr. í skipulagsskránni er gert ráð fyrir því, að gamalmenni fái ókeypis vist á elliheimilinu, en leggi í staðinn til vinnu sína. Með 4. gr. frv. eru ákvæðin um ókeypis vist felld niður og þar af leiðandi eðlilegt, að þessi ákvæði um það, að vinna þeirra falli heimilinu til, verði einnig felld niður.

Þá er það 7. gr. Breytingin á 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. er í samræmi við óskir erfingja stofnenda, sem allir eru búsettir utan Vestur-Skaftafellssýslu, og hefur stjórn sjóðsins talið þessa breytingu eðlilega, þannig að þegar þannig er ástatt, að erfingjar stofnenda sjóðsins eru allir búsettir utan sýslunnar, þá mega þeir, ef þeir vilja, bæta einum manni í stjórnina, sem þá verður skipuð 6 mönnum. Þá er þar einnig breyting á samkomustað stjórnarinnar, sem samkv. 8. gr. skipulagsskrárinnar átti að vera annaðhvort á elliheimilinu í Suður-Hvammi eða í Suður-Vík, en hér er gert ráð fyrir, að hann verði í Vík í Mýrdal, þar sem ráðgert er að reisa þetta elliheimili.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni, en leyfi mér að leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.