10.12.1971
Efri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv. þetta og mælir með því einróma, að það verði samþ.

Frv. felur í sér nokkrar breyt. á lögunum, sem sett voru á síðasta þingi um happdrættislán ríkissjóðs vegna vega- og brúagerðar á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið. Það er orðið mikið áhugamál, ekki einungis þeirra; sem búa í grennd við Skeiðarársand, heldur þjóðarinnar allrar, að það takist, áður en langur tími líður, að gera akfært sunnan jökla og tengja þar með akvegasambandið um landið allt. Skeiðarársandur er erfiðasti þröskuldurinn á hringveginum umhverfis landið. Það hefur stundum komið fram í ræðum manna, að svo muni hafa verið jafnvel frá fyrstu tíð byrðar hér á landi, en þessu er ekki alls kostar þannig farið. Að sönnu hefur Skeiðarársandur alltaf verið torfær og þurft varfærni til þess að komast þar leiðar sinnar, en á meðan hesturinn var aðalsamgöngutækið, þá voru þær torfærur, sem á Skeiðarársandi eru, yfirleitt yfirunnar og ekki látnar hindra ferðir manna, og fram yfir 1940 var haldið uppi reglubundnum ferðum landpósta þessa leið. En með aukinni tækni og með þeirri breytingu, að bifreiðarnar eru nú orðnar aðalsamgöngutækið á landi, þá hefur orðið afturför að því er varðar samgöngur yfir Skeiðarársand, á sama tíma og stórfelldar framfarir hafa átt sér stað víðast hvar annars staðar á landinu á þessu svíði. Nú á þessari öld hinnar miklu tækni má vitanlega ekki við svo búið standa, enda er ákveðið, að hafizt skuli handa á næsta ári um framkvæmdir vega- og brúagerða á Skeiðarársandi, og mun það vera allri þjóðinni fagnaðarefni. Það mark hefur verið sett, að þessum framkvæmdum verði lokið á árinu 1974 og að víssu leyti tengt afmæli 1100 ára byggðar landsins. Væri vel, að þessu marki yrði náð, en þess er þó ekki að dyljast, að vegamálastjóri og verkfræðingar, sem undirbúa þessa mannvirkjagerð tæknilega, telja ekki fullvíst nú, að það heppnist að gera þessi mannvirki á svo skömmum tíma.

Það er vitanlegt, að þessi mannvirkjagerð hlýtur að verða mjög kostnaðarsöm, og sú fjáröflunarleið, sem fjallað er um í lögum um happdrættislán ríkissjóðs og þetta frv. gerir nokkrar breyt. á, er hugsuð sem þáttur í þeirri nauðsynlegu fjáröflun, sem verður að eiga sér stað í sambandi við vega- og brúagerðina á Skeiðarársandi. Þar sem ákveðið er, að framkvæmdir hefjist á næsta sumri, er vitanlega mjög nauðsynlegt, að sala á þeim happdrættisbréfum, sem hér er fjallað um, geti hafizt sem allra fyrst, og eigi síðar en á fyrstu mánuðum næsta árs. Þess vegna er ástæða til að hraða afgreiðslu þessa máls, þannig að það verði lögfest, áður en hlé verður gert á þingstörfum fyrir jól.

Aðalbreytingarnar, sem felast í þessu frv. frá lögunum, sem sett voru í fyrra, eru í fyrsta lagi, að gert er ráð fyrir að gefa út til sölu innanlands happdrættisskuldabréf, samtals að fjárhæð 250 millj. kr., í stað þess var áður ákveðið, að fjárhæðin yrði 200 millj. Hér er því um hækkun að ræða, sem nemur 50 millj., og vil ég vera svo bjartsýnn, að með þessu sé markið ekki sett of hátt í sambandi við þessa fjáröflunarleið.

Önnur breyting 1 þessu frv. felst 13. gr. þess, þar sem heimilað er að verðtryggja skuldabréfin, sem gefin verða út skv. l. gr., með því að binda endurgreiðslur höfuðstóls við vísítölu. Með þessari breytingu er stefnt að því að örva sölu bréfanna og gera hagnaðarvon þeirra, sem bréfin kaupa, meiri en lögin, sem sett voru í fyrra, ákveða, og ætti það að ýta undir, að þessi fjáröflunarleið verði gildur þáttur i þeirri fjármagnsöflun, sem fara þarf fram i sambandi við þessar framkvæmdir.

Þriðja brtt. felst í 6. gr. frv., en í lögunum frá í fyrra eru ákveðnir tveir útdráttardagar árlega næstu 10 ár, en sú breyting er nú gerð, að dregið skuli einu sinni á ári og fjmrn. ákveði tölu vinninga, fjárhæð þeirra og útdráttardag. Segja má, að með þeirri breytingu, sem ég nú síðast greindi frá, sé málinu vikið til á þann hátt, að það sé meira í heimildarformi en i lögunum, eins og þau voru sett í fyrra.

Ég hef átt þátt í því ásamt öðrum þm. Austf. að ræða þetta mál og fyrirhugaða framkvæmd á þeirri löggjöf, sem hér er fjallað um, við bankastjóra Seðlabankans, og eftir þær viðræður hef ég fulla ástæðu til að ætla, að það sé vilji þeirra og fyrirætlun i samráði við fjmrn., að eftir þessari leið, sem hér er fjallað um, verði aflað eins mikils fjármagns og auðið er til framkvæmdanna, og tel ég því ekki neina hættu á, að sú breyting, sem í 6. gr. felst, verði málinu til skaða. Það er því von okkar í fjhn., að hv. þd. fallist á þá till., sem n. gerir, að frv. þetta verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.